Mannleg grimmd dauðarefsinga

Susan Sarandon og Sean Penn í Dead Man Walking Ég hef alla tíð verið harður andstæðingur dauðarefsinga og jafnan fundist í þeim felast mesta mannlega grimmd sem til staðar er í tilverunni. Þetta er mikil grimmd og ég tel að við flest í hinum siðmenntaða heimi getum verið sammála um það. Dómur með dauða er engin lausn í sjálfu sér - er umdeildasta refsing sem til staðar er, fyrir utan aftökur stjórnvalda á fólki án dóms og laga sem eiga sér því miður stað víða í heiminum án þess að nokkur geri neitt í neinu.

Hef oft hugsað mikið um þetta réttlæti sem nokkur ríki Bandaríkjanna hafa valið sér, réttlæti að þeirra mati, sem felst í að binda enda á líf með þessum hætti. Dauðarefsingar hafa verið við lýði í mörgum ríkjum Bandaríkjanna og undir stjórn bæði demókrata og repúblikana. Mesta athygli hefur þetta vakið í suðurríkjunum. Þar hafa repúblikanar verið valdamiklir en demókratar ekki síður. Hefur ekki verið hægt að merkja neina breytingu á þessu þegar að demókratar hafa ráðið ferðinni í mörgum þessara ríkja. Oft hefur verið horft til Texas í þessum efnum. Þar voru demókratar á ríkisstjórastóli síst vinsamlegri en repúblikanar. Heilt yfir virðist hitinn í þessum málum ekki fara minnkandi þó komin sé 21. öldin og ákall um nýja tíma þar sem dauðarefsing er enn við lýði ekki svarað.

Mér finnst álitamál dauðarefsinganna sjaldan hafa verið tekin betur fyrir í kvikmynd en í Dead Man Walking, hinni ógleymanlegu mynd leikarans Tim Robbins. Þar segir af nunnunni Helen Prejean sem verður trúnaðarvinur Matthew Poncelet, fanga á dauðadeildinni, rétt áður en hann er líflátinn og baráttu hennar fyrir að honum verði hlíft. Susan Sarandon fékk óskarinn fyrir eftirminnilega túlkun sína á nunnunni, hlutverk ferilsins án vafa, og Sean Penn var rafmagnaður sem Poncelet.

Þetta er heilsteypt mynd með boðskap sem á vel við, sem horfir á grimmdina frá öllum hliðum en svarar spurningunni um hver sé mesta grimmd slíkra örlaga. Þeir sem hafa ekki séð Dead Man Walking hafa misst af miklu og eru hvattir til að líta á hana. Mikilvægt er að vekja til umhugsunar um mannlegar hliðar allra mála, hversu dökkar sem þau virðast vera.

mbl.is Eitursprautur áfram leyfðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Örn Guðmundsson

Öll samfélög búa sér til reglur sem hafa áhrif á líf og dauða aðilla þeirra.

Flestir gera sér grein fyrir helstu reglunum og í samfélögum þar sem fólk er aflífað fyrir hrottaleg afbrot gegn öðrum einstaklingum er það á ábyrgð þeirra sem vita af hættunni að vega og meta hvort þeir ættu að færa sig yfir á umburðarlyndari svæði, reyna að halda sig frá því að hljóta slíkar refsingar eða einfaldlega að taka áhættuna.

Ég sé lítið rangt við það að aflífa fólk sem gerir sér grein fyrir hættunni sem er fólgin í því að myrða og pynta aðra í kringum sig.

Einar Örn Guðmundsson, 16.4.2008 kl. 21:41

2 Smámynd: Ægir

Já ekki gæti ég verið þér meira sammála,hvað er réttlátt við að dauðarefsingu? Að mínu mati snýst þetta um hefnd og ekkert annað. Því miður virðast margir hérna á blogginu ekkert vera móti ríkisreknu drápi, eða eins og margir orða það"Almennt séð er ég á móti dauðarefsingum en..."    Findið ekki satt. Ég vill bara vera með ef að málstaðurinn er ofsalega réttmætur.

Dead Man Walking mæli líka eindregið með að horfa á.

Kv,

Ægir , 16.4.2008 kl. 22:07

3 Smámynd: Júlíus Valsson

Dauðarefsing er brot á mannréttindum og þeim sáttmálum þar að lútandi, sem við Íslendingar erum aðilar að. Ávallt þykja mér viðbrögð íslenskra stjórnmálamanna athyglisverð, þegar þessi mál ber á góma t.d. þegar Saddam Hussein sálugi var tekinn af lífi á hrottafenginn hátt. 

Júlíus Valsson, 16.4.2008 kl. 22:09

4 identicon

Ég skil ekki einar hvernig þú getur verið sáttur við morð á fólki (aftökur) sama hvort það sé maður sem veldur "miklum skaða í þjóðfélaginu". Morð er morð sama hver myrðir, hver er myrtur eða hvers vegna hann er myrtur. Það að hópur að fólki festi manneskju við bekk, dæli í hana eitri og kvelji hana til dauða fyrir framan áhorfendur er ógeðslegt og ómannlegt og það er hlutur sem enginn getur leyft sér að gera.  Það eru auðvitað til ógeðslegir fjöldamorðingjar, barnanauðgarar og fleiri sem í rauninni eiga ekki skilið að lifa en það er hins vegar ekki á valdi neins að ákveða að það eigi að drepa hann og með því að drepa hann erum við orðin alveg jafn slæm og hann er sjálfur. Að minnsta kosti hef ég aldrei skilið fólk sem styður dauðarefsingar og það að nokkur maður í þróuðu og siðmenntuðu landi eins og Íslandi styðji þær finnst mér ótrúlegt.

kjs (IP-tala skráð) 16.4.2008 kl. 22:46

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þetta getur verið gott fyrir aðstandendur fórnarlamba þess dæmda.  Að vita að morðingi eins þeirra nánustu skuli pumpaður fullur af eitri.

Ásgrímur Hartmannsson, 16.4.2008 kl. 23:01

6 Smámynd: Fishandchips

Hef alltaf verið þeirra skoðana, að ef einhver sé dæmdur til dauða fyrir morð eða áþekka glæpi, sé þjóðfélagið að fremja samskonar glæp.

Einhverstaðar er skrifað að mannslífið sé heilagt. Og í boðorðunum segir" þú skalt ekki mann deyða". Hvernig getum við þá dæmt ógæfumanneskju til dauða? Oftast hefur samfélagið mótað manneskjuna og þegar þetta samfélag bregst, hvernig getum við sest í dómarasætið?

Gæti örugglega skrifað heila ritgerð um þetta málefni og hún kemur kannski seinna. Vona allavega að þið skiljið hvað ég er að tala um.

Fishandchips, 17.4.2008 kl. 00:17

7 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ásgrímur Harmannsson segir: ,,Þetta getur verið gott fyrir aðstandendur fórnarlamba þess dæmda.  Að vita að morðingi eins þeirra nánustu skuli pumpaður fullur af eitri".

Ég skil ekki alveg hvernig það getur verið aðstandendum fórnarlamba til góða að drepa morðingja. Lifnar fórnarlambið við? Ég held að hámarksrefsing í fangelsi sé það sem ætti að duga. Kannski myndi ég hugsa öðruvísi ef ég væri í sporum aðstandanda fórnarlambs. Og kannski myndi Ásgrímur hugsa öðruvísi ef hann væri í sporum aðstandanda geranda. 

Gísli Sigurðsson, 17.4.2008 kl. 11:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband