Sæunn í framboð í Norðausturkjördæmi

Sæunn Stefánsdóttir Sæunn Stefánsdóttir, alþingismaður, mun fara í þingframboð í Norðausturkjördæmi í komandi kosningum að vori. Hún mun að öllum líkindum sækjast eftir að skipa þriðja sætið á lista flokksins, sætið sem Dagný Jónsdóttir skipaði í alþingiskosningunum 2003. Dagný var í þeim kosningum stjarna flokksins og kynning á henni tryggði kjör hennar og ekki síður Birkis Jóns Jónssonar á Alþingi með ævintýralegum hætti. Sagði ég í bloggfærslu minni þann 7. október sl, síðdegis sama dag og Dagný tilkynnti að hún færi ekki fram, að Sæunn færi í framboð hér og það er að ganga endanlega eftir núna.

Sæunn tók sæti á þingi í september við afsögn Halldórs Ásgrímssonar, nýs framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar og fyrrum forsætisráðherra, og situr á þingi fyrir Reykjavík norður. Þar er ekki pláss fyrir hana svo að hún lítur nú á þingsæti Dagnýjar, vinkonu sinnar. Það styrkir stöðu Sæunnar gríðarlega að vera með fullan og óskoraðan stuðning DJ, Jóns Kristjánssonar, fyrrum heilbrigðis- og félagsmálaráðherra, en hún var aðstoðarmaður hans í báðum ráðuneytum, og ekki síður Valgerðar Sverrisdóttur, leiðtoga flokksins í kjördæminu, og ennfremur vera ritari Framsóknarflokksins og því yfir öllu innra starfi hans.

Höski Það stefnir reyndar í öflugan tíma hjá Framsókn hér. Höskuldur Þórhallsson hdl, sonur sr. Þórhalls Höskuldssonar heitins, sem var sóknarprestur í Akureyrarkirkju frá 1981 til dauðadags árið 1995, hefur tilkynnt um þingframboð sitt og stefnir væntanlega á 2. - 3. sætið. Það styrkir stöðu hans að vera Akureyringur og ennfremur hafa verið kosningastjóri flokksins í kosningunum 2003. Umfram allt var hann arkitektinn að öflugri kosningabaráttu flokksins sem skilaði flokknum fjórum þingsætum. Það er öflugt af honum að stefna í slaginn, en hann gerir það nú eftir að fyrir liggur að Jakob Björnsson, fyrrum bæjarstjóri, fer ekki fram.

Það verður fróðlegt að sjá hverjir fara fram að hálfu Framsóknar, en framboðsfrestur rennur út 1. desember nk. og tvöfalt kjördæmisþing verður í janúarmánuði þar sem efstu menn verða valdir. Það er ekki furða að Akureyringar vilji þingmann, enda hafa framsóknarmenn á Akureyri ekki átt þingmann síðan að Ingvar Gíslason var þingmaður, en hann var menntamálaráðherra 1980-1983. Þetta verður því spennandi og gaman að sjá hvert Sæunn ritari sækir stuðning sinn til framboðs. En hún hefur greinilega víðtækan og öflugan stuðning lykilfólks.

Sæunn er allavega komin af stað og er nú á ferð um kjördæmið að funda og framboð ljóst hér að mati okkar sem hér erum. Öll teikn eru allavega á lofti í þessum efnum. Ennfremur er spurning hvernig að Birki Jóni muni ganga og hversu harður slagurinn um annað sætið verður. Þetta verða spennandi tímar hjá framsóknarmönnum og stefnir í endurnýjun og mjög breyttan lista framsóknarmanna að vori hér í NA.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband