Aðalsteinn Jónsson látinn

Aðalsteinn Jónsson á Eskifirði (1921-2008) Aðalsteinn Jónsson, útgerðarmaður á Eskifirði, er látinn, 86 ára að aldri. Alli markaði merk spor í sögu Eskifjarðar. Hann var guðfaðir byggðarinnar, sannur baráttumaður fólksins og hafði heill og hag þeirra að leiðarljósi fyrst og fremst í sinni atvinnuuppbyggingu

Ég vil eiginlega ekki hugsa um hvernig hefði farið fyrir Eskifirði án kraftsins og forystunnar sem einkenndi verk Aðalsteins í atvinnusögu Eskifjarðar. Allir sem þekkja til mála á Eskifirði vita að án hans væri staðurinn varla svipur hjá sjón. Traust forysta hans tryggði tækifæri á Eskifirði þegar að erfiðir tímar voru.

Aðalsteinn Jónsson leit alltaf á sig sem þjón fólksins. Hann fæddist fátækur, en reis upp til metorða með eigin dugnaði. Öllum ætti að vera hollt að kynna sér lífssögu hans í bókinni Lífið er lotterí eftir Ásgeir Jakobsson. Alli barðist áfram og byggði upp fyrirtæki sem hefur verið í fararbroddi á Eskifirði.

Saga fyrirtækisins var ekki alltaf dans á rósum, enda var ekki alltaf beinn og greiður vegur í stöðu mála í sjávarútveginum. Enginn einn maður hefur gert meira fyrir Eskifjörð og verk hans munu aldrei gleymast. Alli var einfaldlega traustur maður sem fólkið gat treyst, útgerðarmaður sem hugsaði fyrst um fólkið, svo sig og sinn hag.

Alli var einn af fólkinu. Hann var í góðu sambandi við verkafólkið; var sjálfur lengi sjómaður og byggði upp þetta fyrirtæki af ótrúlegri elju. Eitt af því sem skapaði fyrirtækið voru tengsl Alla við fólkið sem vann hjá honum. Þau litu á hann sem einn þeirra sem vann þar, aldrei sem auðugan mann sem var yfir aðra hafinn.

Þar liggur farsæld Aðalsteins Jónssonar sem útgerðarmanns og föður heillar byggðar. Hans verk er ómetanlegt og allir munu minnast hans með þeim hætti. Guð blessi minningu Alla.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Garðar Valur Hallfreðsson

Sammála, þarna fer góður maður.  Mín minning er helst sú þegar ég vann í fiskinum þá kom karlinn oft í kaffipásum og tók einn spilaslag við okkur.  Hann var greinilega alltaf einn af "almúganum", það eru ekki margir forstjórar sem koma í reykherbergið í kaffipásum til að taka eitt spil og skjóta á menn (sem var venjan, þ.e.a.s. að "rífa kjaft" og skjóta á mann og annan".

Ég segi því líka, Guð blessi minningu Alla.

Garðar Valur Hallfreðsson, 30.4.2008 kl. 13:20

2 Smámynd: Ívar Jón Arnarson

Þekkti nú ekki til "Alla ríka" persónulega, enda er ég að vestan. Var nú samt í skóla fyrir austan (einhver útþrá sennilega) og oft var talað um hann.

En einn kannaðist ég við sem var í sama flokki og hann. Sá hét Einar Guðfinnsson útgerðarmaður í Bolungavík fyrr á árum. 

Þessir höfðingjar eru því miður í mikilli útrýmingarhættu. Í dag snýst allt miklu meira um hagnað hluthafa frekar en framtíð byggðarlagsins.

Ívar Jón Arnarson, 30.4.2008 kl. 15:09

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein í minningu Alla rika/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.4.2008 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband