Í minningu dr. Bjarna Benediktssonar

Bjarni Benediktsson (1908-1970)Öld er í dag liðin frá fæðingu dr. Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Bjarni er sá stjórnmálamaður 20. aldarinnar sem er í mestum metum hjá mér. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans.

Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma. Bjarni var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Allir þeir sem kynna sér stjórnmálaferil dr. Bjarna komast fljótt að því hversu öflugur hann var.

Bjarni var sá forystumaður íslenskra stjórnmála á 20. öld sem hafði mest áhrif á að móta lýðveldinu Íslandi framtíðarstefnuna, færa Ísland fyrstu skrefin í átt að forystu í eigin málum og móta utanríkisstefnu landsins, sem hefur haldist að mestu óbreytt síðan. Sú forysta hefur skipt miklu máli og fer ekki á milli mála hversu afgerandi hún var.

Hef oft hugsað um það hver staða íslenskra stjórnmála hefði orðið á áttunda áratugnum hefði Bjarni lifað lengur. Sjálfstæðisflokkurinn gekk í gegnum erfiða tíma eftir fráfall hans og náði varla alvöru stöðugleika í sínum röðum fyrr en Davíð Oddsson var kjörinn formaður árið 1991. Átök stjórnmálanna á áttunda áratugnum, einkum innan Sjálfstæðisflokksins, hefðu tekið á sig annan blæ hefði Bjarni lifað lengur, tel ég.

Fyrir tæpum þrem árum, þegar að Samband ungra sjálfstæðismanna varð 75 ára, fórum við í þáverandi stjórn til Þingvalla og áttum góða stund í Hvannagjá, þar sem SUS var stofnað og lögðum blómsveig við minnisvarða um Bjarna, Sigríði og Benedikt litla, sem stendur á grunni forsætisráðherrabústaðarins. Heiðruðum við þar minningu eins af okkar traustustu leiðtogum fyrr og síðar.

Andlát Bjarna, Sigríðar og Benedikts var mikill harmleikur, ekki aðeins fyrir þá sem nærri þeim stóðu heldur og þjóðina alla. Þá kvaddi einn merkasti sonur þjóðarinnar á sínum hátindi. Alltaf þegar að ég fer til Þingvalla legg ég leið mína að minnisvarðanum. Er svolítið sérstök tilfinning sem fylgir því að koma þangað og hugleiða hversu sorglegir atburðir áttu sér þar stað.

Í dag afhentu afkomendur dr. Bjarna Benediktssonar Reykjavíkurborg einkaskjalasafn hans til varðveislu og borgarstjórinn í Reykjavík opnaði svo minningarvef um Bjarna, sem ég mæli með að allir líti á. Er það merkur minnisvarði um einn litríkasta stjórnmálamann landsins.


mbl.is Skjalasafn Bjarna Benediktssonar afhent Borgarskjalasafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð grein og telur maður ekkert þarna of sagt/blessuð sé minning  Bjarna Benidiktssonar/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.4.2008 kl. 21:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband