Sálfræðileg álitaefni í sorglegu máli

Fritzl Eðlilegt er að sú spurning vakni hvernig hægt sé að bæta fólki upp að vera lokað í vítisholu í hálfan þriðja áratug án dagsljóss og frelsis. Þær sálir sem það upplifa hljóta að vera brotnar og þurfa allsherjar uppbyggingu, til þess eins að horfast í augu við hversdaginn og mannlífið, sem það hefur farið algjörlega á mis við. Verkefnið sem blasir við í Austurríki er að byggja upp líf í hinum brotnu sálum fórnarlamba blóðskammar Fritzl-fjölskyldunnar.

Sálfræðilega er mál Fritzl-fjölskyldunnar mjög mikilvægt. Um er að ræða stórfrétt, enda er þetta mál harmleikur í alla staði og merkilegt rannsóknarefni. Ekki eru mörg dæmi um svo skelfilega misnotkun innan fjölskyldu á síðustu áratugum og jafnvel alla tíð, einkum vegna þess hversu lengi það stóð. Allavega er þetta mál sem hefur vakið heimsathygli og spurningar um hversu lengi það taki að byggja upp svo mikinn skaða.

Pressan lýsir Fritzl sem djöfli í mannsmynd. Eðlilega. Hann hefur verið dæmdur af allri heimsbyggðinni vegna sinna viðurstyggilegu verka. Ekki munu næstu skref aðeins snúast um að koma fjölskyldu hans, dóttur og börnunum sem hún eignaðist í kynlífsdrottnun undir stjórn föður síns, út í samfélagið, heldur líka að sálgreina gerandann. 

Sálfræðilega er mikilvægt að skyggnast inn í svo sýktan huga; fá svör við spurningunum áleitnu og átta sig á því afli sem knúði hann í þennan blekkingarleik og misnotkun á eigin barni. Fyrir nokkrum dögum var rætt við sálfræðing um þessi mál í bresku viðtali. Hann talaði um mörg mál sem viðmiðun en hafði samt ekkert mál sem dæmi um nákvæmlega þetta.

Sennilega verður það stóra málið þegar að róast yfir málinu að fara yfir sálfræðilegu hliðarnar. Eftir hálfan þriðja áratug án dagsljóssins hlýtur að þurfa mikið verk til að gefa fólki úr svo sorglegri vítiseinangrun annað líf. Við tekur annað líf, enda fer konan brotin út í annað samfélag en hún upplifði fyrir löngu síðan.

Og hvernig er hægt að færa afkomendur blóðskammarinnar lífið, sum eru um tvítugt fyrst að upplifa lífið. Áleitin viðfangsefni blasa við til að gefa þolendum tækifæri til að upplifa það líf sem við teljum sjálfsagðast af öllu í veröldinni.

Finnst samt verst af öllu að yfirvöld sváfu á verðinum og veittu Fritzl tækifæri til að gera sín ógeðslegu verk án þess að kanna aðstæður á heimilinu. Þau mistök voru mikil og mér sýnist yfirvöld hafa staðfest þau nú.

mbl.is Fritzl: „Vissi að þetta var rangt af mér“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband