Kópavogur með Íslandsmetið í Útsvari

Lið KópavogsVil óska Erni, Víði og Hafsteini til hamingju með að sigra í Útsvari og tryggja þar með Kópavogi Íslandsmetið í Útsvari þennan veturinn. Var fjári fúll með að þeir skyldu slá út hið góða lið okkar Akureyringa, en þeir eru vel að sigrinum komnir, töpuðu fyrstu viðureign sinni en hafa staðið sig mjög vel síðan og náðu að sigra Reykvíkinga í spennandi einvígi.

Hef fylgst með Útsvari af miklum áhuga í vetur. Þetta er ágætis spurningaþáttur, í og með svolítið dreifaralegur og skemmtilega hallærislegur í einfaldri umgjörð sinni. Litasamsetningin í settinu og kynningarstiklunni, auk hins einfalda en smellna stefs er hallærisleg en flottur heildarpakki utan um pottþétt form á sjónvarpsefni sem allir fylgjast með, allavega með öðru auganu þó þeir vilji ekki viðurkenni það og stundum þeim báðum.

Alltaf er gaman að horfa á spurningaþætti og stemmningin var hin besta í þessum pakka. Þóra og Sigmar hafa staðið sig vel að halda utan um þáttinn. Liðin oftast nær verið mjög góð og fókusinn er hraður og góður. Sumir ekki tekið sig alvarlega, sem er mjög gott í og með. Enda á þetta að vera mest til gamans gert og baráttuhugurinn í keppninni á að vera að standa vörð um heiður sinnar heimabyggðar. Flott líka að hafa fólk með ættartengsl en sem býr ekki lengur þar, auk þess sem nýbúar taka þátt að auki.

Þetta voru þættir sem renna vel í gegn og þeir sem hafa virkilega gaman af spurningaþáttum áttu mjög auðvelt með að falla inn í stemmninguna í þessum, hvort sem fylgst var með frá upphafi eða bara til að fylgjast með keppni þar sem heimabyggðin tók þátt. Gott að vita að þátturinn muni halda áfram næsta vetur. Þóra var sérstaklega flott í kvöld, en ég taldi á tímabili að hún myndi kannski eiga barnið sitt í þættinum, eða kannski í einhverju auglýsingahléinu, þó stutt séu.

Fannst samt spes að enginn skyldi þekkja matarmenninguna sem mæld er í Sæmundi og Eyvindi. Sko, þetta er ekki flókið. Sæmundur í vinnugallanum er mjólkurkexið frá Frón og Sæmundur í sparigallanum er kremkexið frá Frón. Spurt var um hið síðarnefnda í lokaspurningunni, sem reyndar var bara metin á fimm stig. Reykvíkingarnir horfðu þess í stað til Eyvindar og giskuðu á kjöt í karrý.

Eyvindur er nafn yfir súpukjöt í hinum ýmsu myndum. Kjöt í karrý, sem nota bene er uppáhaldsmaturinn minn, er nefnt hjá gárungunum því miður geðslega nafni Eyvindur með hor. Kjötsúpa er nefnd bara Eyvindur og kubbasteik, steikt súpukjöt, er auðvitað Eyvindur í sparifötunum.

Viðeigandi lokaspurning að taka fyrir þessa skemmtilegu matarmenningu og orðalag tengd henni. Verst af öllu að enginn landsbyggðarbær komst í úrslitin. Auðvitað vorum við ósátt hér með að Pálmi, Erlingur og Arnbjörg Hlíf komust ekki í úrslitin, en hey, það gengur bara betur næst!

mbl.is Kópavogur vann Útsvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Ef við túlkum úrslitin, þá er Örn Hríseyingur, þrátt fyrir að búa í Kópavogi eins og er. Ergo: Landbyggðarsigur að einum þriðja:-)

Sigríður Gunnarsdóttir, 10.5.2008 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband