Magnús Þór flýgur fram af hengifluginu

Magnús Þór Ekki kom Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, vel út í Kastljósi kvöldsins. Finnst hann hafa farið algjörlega offari í að tala gegn því að flóttamennirnir frá Palestínu komi til landsins og hafa misst stjórn á sér hvað varðar afstöðu þeirra sem vildu ekki lengur vinna með honum vegna afstöðunnar til flóttamannamálanna. Hann virkar, eins og fyrri daginn, algjörlega stjórnlaus og er svosem vel þekktur af skapgerðarbrestum sínum sem hafa oft skaðað hann og flokkinn.

Magnús Þór hefur farið hamförum í tali sínu og gengisfellt sig (toppað fyrri klúður) og Frjálslynda flokkinn endanlega sem einhverskonar andstæðing innflytjenda. Hvers vegna eigum við ekki að taka á móti erlendu flóttafólki og styðja við bakið á því. Við hér fyrir norðan höfum tekið við fjölda innflytjenda; til Dalvíkur komu fjöldi flóttamanna frá Kósóvó árið 1999 og hingað til Akureyrar komu sex fjölskyldur frá fyrrum Júgóslavíu árið 2003. Þetta fólk aðlagaðist okkar samfélagi vel og eru mætir íslenskir þegnar í dag. Enginn hefur talað um vandræði vegna þess.

Skil ekki þetta vandamálatal í frjálslyndum þegar kemur að innflytjendum. Bíður við svona tali og finnst það einum flokki til skammar að hafa talsmann á borð við þann sem við horfðum á í Kastljósinu í kvöld, sem elur á vandamálum og efasemdum um komu innflytjenda til landsins í samræmi við alþjóðsamþykktir. Við erum aflögufær og eigum að leggja okkar að mörkum. Það er mitt mat.

Undarlegast finnst mér tal Magnúsar Þórs um Karen Jónsdóttur. Þetta er konan sem hann valdi prívat og persónulega til að leiða listann á Skaganum og taldi rétta kostinn þá. Undarlegt er að hún hafi breyst eitthvað. Sennilega hefur það eitt breyst að hún fékk nóg af ofríki hans og lét eigin sannfæringu ráða för, en ekki skoðanir Magnúsar Þórs.

Finnst hann tala niður til Karenar, bæði sem konu og stjórnmálamanns. Gerir lítið úr hæfileikum hennar og verkum, á þeim forsendum að hún hafi nú aldrei verið hæf. Hvers vegna valdi hann þá hana? Sem strengjabrúðu sína í einu og öllu? Ef svo er verður skiljanlegra hvers vegna hann er fúll núna.

Mikið er annars þessi stjórnmálamaður auvirðilegur. Vonandi kemst hann aldrei til neinna áhrifa í íslenskum stjórnmálum, nema þá kannski að drepa endanlega þennan flokk.


mbl.is Lýsa yfir stuðningi við Magnús Þór Hafsteinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þetta var afar harður dómur yfir Magnúsi, Stefán – hörð orð sem hann verðskuldar ekki. Magnús leiddi umræðuna og hafði margt til síns máls, svo að Gísli Einarsson mátti hafa sig allan við og kom þó ekki miklum vörnum við.

Fyrsta klausa þín er ofmælt, og þú átt að vita það; við höfum rætt það mál áður. Fyrsta setningin í lokaklausu þinni er síðan allsendis ótrúleg.

Þá er merkilegt skilnings- og andvaraleysi að sjá á meginhugsun þinni hér. Hvers vegna ekki að huga að öðrum og betri kostum? Fyrir 2/3 af því fé, sem fer til þessa flóttafólks hér á landi, hefði með góðum milliríkjasamningi mátt búa því glæsileg lífs- og menntunarskilyrði í einhverju múslimsku landanna við Miðjarðarhafið, fólkinu til góðs og hinu nýja landi þess líka. Hér mæta því hins vegar tungumáls- og aðlögunarerfiðleikar. Það er lofsvert og nauðsynlegt að hjálpa þessu fólki, en að flytja það úr steikjandi hitanum í Írak upp á Akranes hefði fáum dottið í hug nema Ingibjörgu Sólrúnu og hennar Samfylkingarkór.

Jón Valur Jensson, 15.5.2008 kl. 01:59

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Þessi pistill þinn er illa ígrundaður Stebbi að mér finnst og án málefnalegrar skoðunar aldrei þessu vant.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 15.5.2008 kl. 02:12

3 identicon

Sælir, strákar.

Þið hafið báðir sitthvað til málanna að leggja, báðir viðrið sjónarmið og ykkar mat.  Skoðanir beggja eru jafn réttháar, jafn eðlilegar.  En afhverju er annar kallaður kynþáttahatari?

Lýður Árnason (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 02:52

4 identicon

Jón,

 Ég hef ekki lesið aumara andsvar lengi. Ef öll lönd höguðu sér eins og þú villt að Ísland geri þá væri heimurinn illa staddur. Ísland verður eins og önnur lönd að sýna ábyrgð og taka móti bágstöddum flóttamönnum eða eigum við að vera eitthvað súkkulaði endalaust. Svo eru þessi endalausu Samfylkingar skot og hraun yfir Ingibjörgu Sólrúnu óttalega ómálefnaleg og þér til minnkunar.

Jakob Friðriksson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 09:18

5 identicon

Sammála þér Jón Valur. Magnús stóð sig vel málefnalega en bæjarstjórinn muldraði og var rök lítill.Við vitum öll að þetta er „pet project“ hennar Ingibjörgu Sólrúnu.

LS (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 09:36

6 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Ég velti fyrir mér hvort hugsanlegt sé að við séum svona illa stödd á vegi lýðræðislegrar hugsunar, vegna þess að margir séu á svipaðri skoðun og þú, Stefán?  Ég hlustaði á kastljósið og ég varð hvergi var við að Magnús færi neinu offari. Meginþættir í máli hans voru eftirfarandi.

Honum fannst ábyrgðarlaust og ólýðræðislegt, að vera búin að taka ákvörðun um þetta málefni, áður en það kæmi til opinberrar umræðu í stjórnkerfi bæjarins, eða meðal bæjarbúa almennt.  Þetta skildi ég sem virðingu fyrir lýðræðislegum leikreglum og tilraun til að skapa opinberan velvilja meðal bæjarbúa fyrir komu þessa fólks, ef af yrði.

Honum fannst ámælisvert að bæjarstjórn yfirlýsti sig tilbúna til að útvega allar þær íbúðir sem þarf til að taka á móti þessum fjölskyldum, en á sama tíma gæti bæjarstjórnin ekki leyst húsnæðisvandamál nokkurra fjölskyldna sem þegar væru búsettar á Akranesi. - Ég skil þessa afstöðu Magnúsar mjög vel. Það skapar nokkuð einkennilega mynd af bæjarstjórn Akraness að leggja kapp og fjármagn í að hjálpa fólki af erlendum uppruna, en horfa framhjá þörf sinna eigin bæjarbúa fyrir hjálp.

Magnús spurði um hvar ætti að afla allra þeirra íbúða sem þyrfti, til að taka á móti þessu fólki.  -  Bæjarstjórinn gat engu svarað um það.

Magnús lagði til að nýta peningana betur og treysta lífsgæði þessa fólks á sínum heimaslóðum. - Er það útlendingahatur? Myndum við ekki frakar vilja fá aðstoð til að búa áfram á heimaslóðum, en vera flutt í annan heimshluta, þar sem við skyildum hvorki málið né menninguna?

Þekkt er í fjölmiðlum undanfarinna mánaða, að bæjarstjórn Akraness er í mikilli baráttu vegna mikils samdráttar í atvinnumálum; einkanlega í framleiðslugreinum. Fyrirsjáanlegt virðist vera atvinnuleysi þeirra sem nú eru það búsettir. Engar hugmyndir hafa verið kynntar um lausnir á yfirvofandi atvinnuleysi þeirra sem nú eru búsettir þarna, hvað þá hvernig eigi að búa til nokkra tugi starfa fyrir ófaglærðar innfluttar konur?

Kæri Stefán!  Allar spurningar Magnúsar voru eðlilegar og báru fyrst og fremst í sér umhyggju fyrir því fólki sem nú þegar er búsett á Akranesi. Ég gat ekki betur heyrt en hann vildi leggja af mörkum allt sem hægt væri, þegar menn væru búnir að leysa þau mál sem nú væru til staðar heima fyrir, og krefðust skjótra úrlausna.

Hvernig eigum við að bæta ástandið hér heima fyrir ef menn sem tala fyrir bættum lýðræðislegum vinnubrögðum við opinbera stjórnsýslu, fá álíka öfugmælaskilning á því sem þeir segja, og virðist vera viðhöfð með ummæla Magnúsa.

Tek það fram að ég er ekki í Frjálslindaflokknum.

Guðbjörn Jónsson, 15.5.2008 kl. 09:40

7 Smámynd: Sævar Einarsson

Ef það flokkast sem rasisti að setja Íslendinga í algeran forgang og það sé alger forgangur að aðstoða íslendinga sem eiga í alvarlegum vandræðum félagslega þá er ég mjög stoltur yfir því að vera kallaður rasisti eða kynþáttahatari vegna þess að þessi gjörningur sem verið er að gera kalla ég alvarlega aðför að Íslenska lýðveldinu og þetta kalla ég hrein og klár föðurlandssvik og er svoleiðis er saknæmt og ég styð Magnús heilshugar í þessu, hann er að hugsa fyrst og fremst um hag íslendinga og ef það er óheiðarleiki þá er eitthvað að í þjóðarsálinni.

Sævar Einarsson, 15.5.2008 kl. 10:20

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jakob, þín súkkulaðirök hrína ekkert á mér, enda veitir þú engin rökleg svör við þeirri sjálfsögðu ábendingu minni, að "fyrir 2/3 af því fé, sem fer til þessa flóttafólks hér á landi, hefði með góðum milliríkjasamningi mátt búa því glæsileg lífs- og menntunarskilyrði í einhverju múslimsku landanna við Miðjarðarhafið, fólkinu til góðs og hinu nýja landi þess líka. Hér mæta því hins vegar tungumáls- og aðlögunarerfiðleikar." En ef það er mikilvægur tilgangur í sjálfu sér að þínu mati að hafa hér sem mest af útlendingum og úr ýmsum áttum, þrátt fyrir erfiðleika við það, þá er ég alveg reiðubúinn að hlusta á rök þín fyrir því, en þau verða þá að halda vatni, svo að enginn fari nú að "hrauna" yfir þau ...

Jón Valur Jensson, 15.5.2008 kl. 10:26

9 Smámynd: Friðrik Þór Guðmundsson

Bloggarar eru áhugaverður hópur. Eru þeir eins og fólk er flest og geta þeir talist spegilmynd af umræðunni og áherslunni í samfélaginu? Sjá lillo.blog.is.

Friðrik Þór Guðmundsson, 15.5.2008 kl. 10:48

10 identicon

Merkilegar færslur aðallega hverjir fallast í skoðanafaðma. Ég er þér Stefán hjartanlega sammála (það kemur fyrir) og get ekki séð neinn ómálefnalegan vinkil á skrifum þínum. kv..gb

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.5.2008 kl. 11:58

11 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Vil þakka fyrir kommentin.

Held að ég hafi ekki kveðið of fast að orði, hefði getað verið enn hvassari í dómum mínum yfir tjáningu og verklagi Magnúsar Þórs. Skil ekki vandamálatalið í honum. Akranes er stórt sveitarfélag. Ef það getur ekki tekið svona verkefni að sér er það að gengisfella sig. Dalvík tók við flóttamönnum, Blönduós líka og svona mætti lengi telja. Af hverju ekki Akranes? Er þetta ekki eitt af stærstu sveitarfélögum landsins, eitt af þeim sem vill verða í forystu. Ef það getur ekki tekið verkefni að sér sem minni sveitarfélög gera með sóma er illa fyrir því komið.

Magnús Þór er að mér sýnist að búa til vandræði og efasemdir um komu flóttamannanna; kvenna með börn sín. Hann talar um að undirbúning hafi vantað. Var það ekki hans sem formanns félagsmálaráðs að leysa vandamálin, ef einhver eru, og taka af ábyrgð á málinu? Ætlaði hann einn að stöðva málið? Ekki furða að flestir telji að hann gengisfelli sig sífellt, en hann um það.

Ég fylgdist mjög vel með komu flóttamannanna frá Kósóvó til Dalvíkur, enda vann ég með nokkrum þeirra sem komu hingað til að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu. Þetta eru vinir mínir og ég met það mikils. Það þurfti hjálp og við veittum hana. Megum líka vera stolt af því. Þetta fólk hefur gert okkar samfélagi hér í firðinum gott.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 15.5.2008 kl. 12:44

12 Smámynd: Guðbjörn Jónsson

Sæll aftur Stefán!

Gaman væri að heyra hvernig þú sérð fyrir þér að Akranes geti leyst þau atvinnu- og framfærsluvandmál sem þeir eru nú þegar að fást við, og hvernig þú sérð fyrir þér að þeir geti bætt við 60 kvennastörfum, til viðbótar við núverandi vöntun slíkra starfa. Hvernig sérð þú líka fyrir þér að þeir geti útvegað nauðsynlegan fjölda íbúða ( varla ætlar þú mörgum fjölskyldum að deila íbúð) og hvaða núverandi þjónustu eiga þeir að skera niður til að fjármagna stuðning við þessar fjölskyldur.

Ég er spenntur að heyra þín sjónarmið á þessum fáu en mikilvægu málum sem lúta að móttöku fjölda fólks sem þarfnast opinberrar aðstoðar.

Með kveðju, G.J. 

Guðbjörn Jónsson, 15.5.2008 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband