Sigur Árnanna í Suðrinu - þrír þingmenn falla

Árni M. Mathiesen Úrslit lágu fyrir undir morgun í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, er nýr leiðtogi flokksins í kjördæminu. Árni M. hefur setið á þingi frá árinu 1991 og verið ráðherra allt frá árinu 1999. Hann hefur verið kjördæmaleiðtogi frá 1999, fyrst í Reykjaneskjördæmi og síðar í Suðvesturkjördæmi. Árni hlaut innan við helming atkvæða í fyrsta sætið í þessu prófkjöri. Það hljóta að teljast gríðarleg tíðindi, sem um verður rætt, miðað við samkeppnina sem hann hlaut um sætið.

Árni Johnsen, fyrrum alþingismaður, snýr aftur og vinnur góðan sigur í prófkjörinu. Hann er aftur á leið á þing. Árni Johnsen er svo sannarlega ekki óvanur þingmennsku, en hann var alþingismaður á árunum 1983-1987 og 1991-2001, en hann varð þá að segja af sér vegna hneykslismáls. Hann tók út sína refsingu og dvaldi m.a. á Kvíabryggju. Hann hlaut uppreist æru síðsumars af handhöfum forsetavalds. Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.

Drífa Hjartardóttir Þrír þingmenn flokksins féllu í prófkjörinu. Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson eru öll á leið af þingi. Eini sitjandi þingmaður svæðisins sem hélt velli í prófkjörinu var Kjartan Ólafsson á Selfossi, sem hlaut þriðja sætið. Fjórða varð Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og fimmta varð Unnur Brá Konráðsdóttir. Rétt eins og hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi eru þrír karlmenn í þrem efstu sætunum. Konur verða þar undir.

Það vekur gríðarlega athygli að Drífa Hjartardóttir, alþingismaður, sem tók við leiðtogastöðu kjördæmisins við andlát Árna Ragnars Árnasonar árið 2004, fær verulegan skell og verður í sjötta sæti. Hennar þingmannsferill er á enda. Ég verð að harma þá útreið sem að hún fær í kosningunni. Guðjón Hjörleifsson og Gunnar Örn Örlygsson voru undir meginhluta talningarinnar. Er á leið tókst Guðjóni að komast upp í þriðja sætið, falla svo niður í það fjórða og detta svo aftur niður í óvissuna í sjöunda sætið.

Gunnar Örn, sem gekk í Sjálfstæðisflokkinn vorið 2005 eftir að hafa verið kjörinn þingmaður Frjálslynda flokksins vorið 2003, fékk mikinn skell og verður ekki í framboði fyrir flokkinn. Kristján Pálsson, sem fór í sérframboð árið 2003 eftir að hafa verið hafnað á kjördæmisþingi, fékk gríðarlegan skell og varð ellefti af þrettán frambjóðendum. Það er því mörgum sparkað eftir þetta prófkjörið og fyrir suma er skellurinn sárari en aðra. Það er með ólíkindum að sjá hversu miklar breytingar verða. En þetta eru greinilega mjög skýr skilaboð.

Þetta er því prófkjör sviptinganna. Þingmönnum er hafnað eftir langt starf, sumum eftir skemmra starf. Tveim af þrem efstu frá því síðast er sparkað með augljósum hætti. Þetta eru gríðarlega mikil tíðindi, sem eiga eftir að vekja athygli og það langt út fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

mbl.is Kjartan endaði í þriðja sæti í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband