Barack Obama lætur drauma dr. Kings rætast

Barack ObamaÞegar að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King lést fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Á þessum sögulega degi í bandarískum stjórnmálum hefur Barack Obama látið drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast með því að ná útnefningu Demókrataflokksins. Þetta eru söguleg tímamót.

Fyrir aðeins átta til tíu árum hefði engum órað fyrir því að fyrir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar myndi þeldökkur forsetaframbjóðandi ná alla leið í forkosningaferli stóru flokkanna, hljóta atkvæði hvítra kjósenda um gervöll Bandaríkin og sverja embættiseið sem valdamesti maður heims. Með sigri Obama á Hillary Rodham Clinton í forkosningaslagnum í kvöld er ritaður nýr kafli í pólitíska sögu Bandaríkjanna, sama hvernig fer úr þessu.

Ekki einu sinni dr. King hefði látið sér detta í hug þegar að hann talaði um draumsýn sína í Washington á sjöunda áratugnum að það gæti gerst í upphafi nýrrar aldar. Flestir áttu eflaust von á að sú barátta tæki lengri tíma að blökkumaður ætti raunhæfa möguleika á Hvíta húsinu, þó að handritshöfundar hafi gert blökkumanninn Palmer að forseta í hasarþáttunum 24 í upphafi áratugarins. Eðlilegt er að þeldökkir Bandaríkjamenn fagni þessum tímamótasigri í kvöld.

Barack Obama hefur rakað að sér stuðningi síðustu mánuði úr öllum áttum. Hann er fersk pólitísk stjarna. Hann kom, sá og sigraði á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í júlí 2004 með glæsilegri ræðu. Gleymi þeirri ræðu aldrei, enda var hún að mínu mati stærstu tíðindi þess þings, þvílík stjörnuframmistaða. Allir fundu fyrir því að þar fór sannkölluð vonarstjarna. Enda er hann alvöru, það má kannski deila um hvort að hann sé ekta algjörlega í gegn en hann svo sannarlega hljómar og virkar þannig á alla sem hlusta á hann. Hann er ekki bara stjórnmálamaður, hann er einstakur pólitískur predikari sem nær til fólks og hefur áhrif á það.

Eðlilega finnst mörgum demókrötum Barack Obama vera ferskur valkostur, unglegur og heillandi, og hugsa ósjálfrátt til Kennedys forseta, sem heillaði bandarísku þjóðina fyrir hálfri öld er hann hóf forsetaframboð sitt og naut mikils stuðnings allt þar til að öllu lauk svo snögglega er hann féll fyrir morðingjahendi í Dallas á nöprum föstudegi sem markaði mikil þáttaskil í bandarískum stjórnmálum. Ólíkt er vissulega með Obama og Kennedy að sá síðarnefndi hafði að baki setu í bæði öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í 13 ár er hann varð forseti en Obama á aðeins að baki þriggja ára setu í öldungadeildinni.

Frá fyrsta degi hafa söguleg skref verið mörkuð í þessum forkosningaslag demókrata. Þeirra stærst er að draumur dr. Martins Luthers Kings í hinni sögulegu baráttu fyrir sjálfsögðum mannréttindum þeldökkra á umbrotatímum á sjöunda áratugnum hefur ræst. Sannað er að litaraft skiptir ekki lengur máli, allir hafa jöfn tækifæri til að láta að sér kveða og það sem meira er að með því er staðfest að blökkumaður getur orðið valdamesti maður heims.


mbl.is Obama lýsir yfir sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að fáir geta með góðu sagt að Obama sé "þeldökkur", auk þess verður að upplýsast að það vill svo til að móðir hans er "hvít".

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 10:17

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nú verða Rebbarnir ánægðir í WDC.

Obama verður EKKI forseti BNA, svo mikið er nánast bókað.

Rauðhæalsarnir --hvar svo í flokki sem þeir annars eru svona dags daglega munu EKKI kjosa ,,Boy" sem forseta með flaggi og öllu.

ÞEir munu miklu frekar kjósa hægfara Rebba, sem er Good ol Boy í þeirra augm.

Hringdi í bróðurson minn og óskaði honum til hamingju.

Þetta voru svörin hans svona nokkurnvegin og það leyndi sér ekki, að hann var óhress með þetta.  AÐ hans sögn eru svonefndir Vet Backs einnig andsnúnir Obama, telja hann fæddann með silfur í kjafti.

Indíánar og S-Ameríku ættað fólk er frekar inni á Hillary og munu að líkum ekki skila sér að heldur á kjörstað, semsé, ekki greiða Rebba atkvæði, heldur mæta ekki.

Spennandi staða, svo mikið er víst.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 4.6.2008 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband