Dagur íslenskrar tungu

Jónas Hallgrímsson Dagur íslenskrar tungu er haldinn í dag í ellefta skipti. Það var fyrir áratug, árið 1996, sem ákveðið var að tileinka fæðingardag þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar frá Hrauni í Öxnadal, sem var fæddur 16. nóvember 1807, íslenskri tungu. Óhætt er að fullyrða að það hafi í senn verið bæði gott val og skynsamlegt. Jónas er í hugum flestra táknmynd fallegs íslensks máls og meistaralegrar túlkunar í kveðskap. Jónas er einn fárra manna sem hafa náð hæstum hæðum í túlkun íslensks máls í skáldskap sínum. Hann er að mínu mati einn af mestu meisturum íslenskrar bókmenntasögu.

Val dagsins staðfesti því stöðu Jónasar í hugum bókmenntasögu okkar í sögu landsins. Björn Bjarnason ákvað sem menntamálaráðherra að dagur íslenskrar tungu skyldi koma til sögunnar og dagurinn var valinn af kostgæfni. Í þann áratug sem dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hefur menntamálaráðuneytið beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það og veitt verðlaun í nafni Jónasar til að verðlauna þá sem hafa unnið að málrækt og gildi þess. Hefur það verið unnið í góðu samstarfi við stofnanir, fyrirtæki, skóla, einstaklinga og félagasamtök um allt land.

Í dag var deginum fagnað sérstaklega með hátíðarathöfn síðdegis í Hjallaskóla í Kópavogi. Þá afhenti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, Nirði P. Njarðvík, rithöfundi, verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2006. Fær Njörður verðlaunin m.a. fyrir að hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum og kennslu, og þar með stuðlað að eflingu hennar, framgangi og miðlun til nýrrar kynslóðar. Njörður er vel að verðlaununum kominn. Fyrr í dag opnaði menntamálaráðherra formlega Íslenska réttritunarvefinn, sem kennir stafsetningu og vélritun með gagnvirkum æfingum. Vandaður og góður svo sannarlega.

Nú sem fyrr á að vera lykilverkefni Íslendinga að standa vörð um mál sitt. Íslenskan á að vera okkar helsta stolt og helsti fjársjóður. Ef við glötum virðingunni fyrir málinu okkar glötum við sjálfsvirðingunni að mínu mati. Málrækt og varðveisla tungumálsins er mjög mikilvæg.

Eitt fallegasta ljóð Jónasar Hallgrímssonar er Íslands minni:

Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.

mbl.is Njörður P. Njarðvík fær verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband