Sögulegt kjör Pelosi - pólitískt áfall í leiðtogakjöri

Nancy Pelosi Nancy Pelosi var í dag formlega kjörin sem forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings af þingflokki demókrata í deildinni, en flokkurinn vann þar kosningasigur í fyrsta skipti í tólf ár í síðustu viku. Pelosi verður fyrsta konan sem stýrir fulltrúadeildinni og mun taka við embættinu af repúblikanum Dennis Hastert, sem verið hefur forseti fulltrúadeildarinnar allt frá árinu 1999. Hastert hefur verið hefur einn þaulsetnasti forseti deildarinnar.

Kjör Pelosi markar því nokkur þáttaskil. Hún hefur setið í þingdeildinni fyrir Kaliforníu allt frá árinu 1987 og verið leiðtogi demókrata þar frá 2003, er Dick Gephardt steig til hliðar. Pelosi, sem kjörin var einróma þingforseti, varð þó síðar í dag fyrir nokkru pólitísku áfalli er valkostur hennar til að taka við af henni sem þingleiðtogi, John Murtha, sem hefur verið mikill og áberandi andstæðingur Íraksstríðsins, varð undir í leiðtogakjöri innan þinghópsins.

Þess í stað var Steny Hoyer, fulltrúadeildarþingmaður frá Maryland, kjörinn leiðtogi demókrata í þingdeildinni. Verður hann þar með næst valdamesti fulltrúi demókrata í fulltrúadeildinni. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1981 og verið þar framarlega, t.d. var hann næstvaldamestur á eftir Pelosi innan þingsins. Það kom mörgum á óvart er Pelosi studdi Murtha opinberlega sem þingleiðtogaefni og lagði honum afgerandi lið. Stuðningur hennar hafði mjög lítið að segja, enda tapaði Murtha með 86 atkvæðum gegn 149 atkvæðum Hoyer.

Munurinn er því mjög svo afgerandi og er pólitískt áfall fyrir hinn nýkjörna þingforseta. Það varpar óneitanlega skugga á sögulegt kjör hennar að hafa tilnefnt sjálf Murtha innan þinghópsins og geta ekki tryggt honum kjör, heldur bíða verulegan ósigur. Það voru reyndar margir hissa á að Hoyer skyldi ekki verða þingleiðtogi án kosninga, enda hefur hann verið varaskeifa Pelosi og talsmaður demókrata innan þingsins með áberandi hætti. Svo fór ekki, en sigur hans er alveg afgerandi og umboð hans öruggt.

Það veikir stöðu Nancy Pelosi að hafa lagt sig eftir því að John Murtha yrði þingleiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni en ná kjöri hans ekki í gegn. Hún tók vissa áhættu með afgerandi stuðningi við Murtha. Hún kom t.d. með Murtha til fundarins í þinghúsinu í Washington og fylkti liði með honum með afgerandi hætti. Þessi ósigur er því ekki aðeins áfall fyrir Murtha, heldur hinn nýja þingforseta.

Spennandi tvö ár eru annars framundan í bandaríska þinginu. Formleg valdaskipti verða á fyrstu dögum nýs árs. Munu stjórnmálaáhugamenn um allan heim fylgjast vel með valdasambúð demókrata og repúblikana, fram að næstu forsetakosningum.

mbl.is Fyrsta konan í embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband