Fylgislækkun er áhyggjuefni fyrir Geir og Þorgerði

Þorgerður Katrín og Geir Haarde Enginn vafi leikur á því að fylgislækkun Sjálfstæðisflokksins er áhyggjuefni fyrir Geir H. Haarde og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Þau tóku pólitíska áhættu með því að mynda ríkisstjórn með Samfylkingunni og standa og falla með því að klára kjörtímabilið farsællega. Einkum verður stjórnin að sýna trausta forystu í efnahagsmálum til að virka trúverðug og sterk í takt við mannafla sinn á þingi.

Sögusagnir eru um að samstarf stjórnarflokkanna sé erfitt og losaralegt. Á hverjum degi sjáum við merki þess að þar er mikill losarabragur - einkum af verklaginu, þar sem hver og einn þingmaður leikur lausum hala og erfitt að henda reiður á því hver segir og gerir það sem sett er á oddinn pólitískt. Hver þingmaður getur, vegna öflugs þingmeirihluta, tekið sólóspil á sínum taktfasta hraða og verið eigin herra í skoðunum og tali. Svipan er ekki á lofti og greinilegt að viss ólga kraumar undir pottinum og stundum hefur soðið allhressilega upp úr.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið lengi við völd, í rúm sautján ár, sem er sögulegur tími í forystu ríkisstjórnar. Varla er undrunarefni að fylgið rokki eitthvað til eftir svo langan tíma við völd. Í þeirri stöðu sem við blasir núna er spurt um trausta forystu, hver geti stýrt málum með ábyrgum hætti. Einn mesti styrkleiki Geirs H. Haarde sem stjórnmálamanns felst í því að hann hefur haft áru leiðtogans sem virkar traustur og öflugur. Æ fleiri spurningar hafa þó vaknað í þeim efnum eftir farsann í borgarmálunum og vandann í efnahagsmálunum.

Svarið við þeim vanda er að taka á málum og sýna þá traustu forystu sem þjóðin þarf á að halda við erfiðar aðstæður. Við erum komin í óvissuástand þar sem mikilvægt er að traust fólk sé við stýrið. Verkefni forystu Sjálfstæðisflokksins er að standa undir nafni sem traustur flokkur í forystu, svipað og var á þeim tíma er Davíð Oddsson leiddi Sjálfstæðisflokkinn til sögulegra kosningasigra og traustrar forystu sem markaði hann sem sigursælasta stjórnmálamann Íslandssögunnar.

Nú eru greinilega aðrir tímar - spurt er hvort Sjálfstæðisflokkurinn og forystumenn taki á málum af ábyrgð og festu. Fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins er mikilvægt að klára þetta kjörtímabil, leysa þau vandamál sem til staðar eru og sýna að hægt sé að vinna með Samfylkingunni. Óvissa er yfir hversu farsælt þetta stjórnarsamstarf verði og því verður óvissan meiri en ella og kjósendur sýna óánægju sína án hiks.

Kannski er til of mikils mælst að Sjálfstæðisflokkurinn sigli lygnan sjó ár eftir ár og finni ekki fyrir því - allir flokkar taka sínar dýfur, hæðir og lægðir. Ekki er þó til of mikils mælst að forysta Sjálfstæðisflokksins sé öflug og stýri traustu stjórnarsamstarfi og sýni okkur að hann leiði ríkisstjórn sem er samhent og öflug á örlagatímum.

mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar í könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mikið sammála þessari grein/ kveðja/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 22.6.2008 kl. 16:23

2 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sæll Stefán og takk fyrir góðan pistil

Ég held að það hafi ekki verið pólitísk áhætta að mynda ríkisstjórn með sf heldur kanski frekar þetta var eini valkosturinn í stöðunni. Ekki var það valkostur að fara með vg.
Auðvitað hefur maður verið óánægður með nokkra þingmenn sf sem að mínu mati hafa verið óábyrgir í ummælum sínum og kanski fer Árni Páll Árnason þar fremstur með ummælum um ESB aðlild sem hann veit að er ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar.
Það væri mjög gott fyrir flokkinn að gera breytingu á ráðherraliðinu fyrir haustið og Bjarni Ben. er þar efstur á blaði.

Óðinn Þórisson, 22.6.2008 kl. 17:51

3 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

STebbi ætlar líklega að kenna Samfylkingunni um þetta eins og flest annað....

Stebbi minn...eigum við bara ekki að vinna saman og þú hættir að var að endalausum hnýtingum í samstarfsmenn flokksins þíns..... þó mér svo nokkuð sama hvað þú þusar

Jón Ingi Cæsarsson, 22.6.2008 kl. 18:34

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að kenna Samfylkingunni um þetta fylgistap okkar sjálfstæðismanna. Við verðum að líta okkur nær.

Efalaust spilar inn í það stjórnleysi, sem er búið að vera á borgarstjórnarflokknum að undanförnu og REI-málið. Þetta eru erfiðir tímar og alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ber meiri ábyrgð á því ástandi - að svo miklu leyti, sem það er heimatilbúið - þar sem hann hefur verið við stjórn í 17 ár. Hluti þess efnahagsvanda, sem við búum nú við, er án efa vegna þess að við vorum ekki undirbúin. Ekki hefur skort viðvaranir og því getum við sjálfstæðismenn heldur ekki sópað undir teppið. Mér finnast viðbrögð þessarar ríkistjórnar og þeirrar síðustu hafa verið frekar máttlaus. Hverju er um að kenna?

Jú, að mínu mati var landið hálf stjórnlaust eftir að Davíð veiktist og jafn stjórnlaust á meðan Halldór Ásgrímsson reyndi að sýnast vera forsætisráðherra. Síðan tók Geir við og þá vorum við eiginlega komin í slæm mál. Maður hefði satt best að segja átt von á því að Geir tæki fastar á málum, sem reyndur fjármálaráðherra, hagfræðingur og maður, sem var búinn að vera í stjórnmálum og stjórnsýslunni lengur en elstu menn muna.

En það er erfitt að dæma um hlutina, þegar maður er ekki í miðri atburðarásinni. Það eina sem ég gagnrýni - því þá krísu, sem komin eru upp sá enginn í öllum heiminum nákvæmlega fyrir - er hversu máttlaus viðbrögð ríkisstjórnarinnar hafa verið. En síðan spyr maður hvort þetta er kannski allt "kalkúlerað"? Tímasetningin á aðgerðunum varðandi Íbúðalánasjóð var í raun mjög góð. Hugsanleg eru þeir með styrkingu á gjaldeyrisvarasjóðnum í augnsýn, en vilja kynna þær aðgerðir seinna. Hvað vitum við nema að þetta sé þeirra "taktík" í málinu.

Ég vil hins vegar að Geir geri eitthvað meira, t.d. að koma fram með nýja áætlun í samgöngumálum, sem byggir á innlendri orku: lestarsamgöngur, vetni, tilraunaverkefni með rafmagnsbíla, eflingu strætisvagnaferða o.s.frv. Við þurfum eitthvað þjóðarátak, sem allir geta sameinast um til auka bjartsýni fólks og trú á framtíðina. Fólk er hrætt: krónan ónýt, mikill viðskiptahalli, erum að eyðileggja umhverfið (bull!), þorskurinn ofveiddur, atvinnuleysi framundan, verðbólgan í hæstu hæðum ...

Ég var orðinn svo þunglyndur í lokin á þessari upptalningu að ég gafst upp.

Þess vegna þurfum við leiðtoga eins og Davíð Oddsson, sem tosar okkur upp úr þessari andlegu lægð, sem við erum í!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.6.2008 kl. 23:49

5 Smámynd: Bumba

Sammála Guðbirni að mörgu leyti. Einu gleymir hann þó: NIÐUR MEÐ SAMFYLKINGUNA. Og hana nú. Með beztu kveðju.

Bumba, 23.6.2008 kl. 06:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband