Pólitískt áfall Kristins H. Gunnarssonar

Kristinn H. Gunnarsson Það var mikið pólitískt áfall fyrir Kristinn H. Gunnarsson að verða undir í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann tapaði leiðtogaslagnum við Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra, með rúmlega 200 atkvæða mun og húrraðist niður í þriðja sætið, sem er sætið sem Herdís Sæmundardóttir skipaði í kosningunum 2003 og er því auðvitað varaþingsæti. Í staðinn er Herdís komin upp í annað sætið á eftir Magnúsi. Kristinn vænir þau um bandalagsmyndun gegn sér.

Hvernig sem það var annars er alveg ljóst að Kristinn tapaði leiðtogaslagnum og því fór sem fór. Það má því segja að góð ráð séu orðin dýr fyrir Vestfirðinginn Kristinn H. sem hefur á skrautlegum stjórnmálaferli marga hildina háð. Hann tryggði sér pólitískt framhaldslíf með því að ganga í Framsóknarflokkinn á sínum tíma. Innan við áratug eftir þær flokkahrókeringar sínar stendur hann eftir í varaþingsæti á lista flokksins í komandi kosningum, hafandi verið treyst fyrir leiðtogastól á Vestfjörðum í kosningunum 1999 og fjölda ábyrgðarfullra embætta af hálfu flokksins, t.d. þingflokksformennsku fyrir nokkrum árum.

Hann stendur því eftir snupraður. Dómur grasrótar flokksins í Norðvesturkjördæmi er hinsvegar nokkuð afgerandi. Það er varla við því að búast að hann taki þriðja sætið við þessar aðstæður og væntanlega horfir hann til sérframboðs. Það yrði eina leiðin fyrir hann til að koma standandi frá þessari stöðu. Nema að hann skipti einfaldlega um vettvang. Varla vill þessi pólitíski bragðarefur standa eftir í varaþingsæti á framboðslista undir pólitískri leiðsögn Magnúsar Stefánssonar og með Byggðastofnunarformanninn Herdísi á Króknum yfir sér í öðru sætinu. Þvílík pólitísk örlög fyrir einn mann með pólitískt stolt, segir maður bara. Kostirnir virka mjög einfaldir fyrir Kristinn H.

Hannibal Valdimarsson, faðir Jóns Baldvins Hannibalssonar, var annar pólitískur bragðarefur í stjórnmálasögu Vestfjarða. Í pólitískri örvæntingu eftir höfnun á pólitískum heimavelli sínum fór hann í sérframboð, stofnaði reyndar eigin flokk og hélt þingsæti sínu með ævintýralegum hætti. Hann reyndar klauf endanlega kratafylgið á Ísafirði eftir þann tíma og þau öfl hafa aldrei eftir þær sögulegu kosningar náð vopnum sínum, en það er önnur saga. Kristinn H. er eitt ólíkindatólanna í stjórnmálum. Ógæfa hans er væntanlega gleðiefni fyrir andstæðinga hans innan flokksins, sem hafa lengi beðið eftir því að hann missti fótanna innan flokksins. Það hefur nú gerst.

Það er virkilega gaman að lesa skrif pólitískra skríbenta, sem annaðhvort hafa unnið fyrir Framsóknarflokkinn, eða Halldór Ásgrímsson, fyrrum forsætisráðherra og formann flokksins, með áberandi hætti, eftir þetta prófkjör. Kristinn H. var lengi óþægur ljár í þúfu Halldórs. Hann hlýtur að gleðjast með tíðindi gærkvöldsins á Borðeyri þar sem að örlög Kristins H. innan Framsóknarflokksins réðust væntanlega. Sama má væntanlega segja um Jón Sigurðsson, nýjan formann Framsóknarflokksins, sem tók við stjórnarformennsku í Byggðastofnun af Kristni H. eftir að allt var komið í óefni þar. Gleðibylgja er víða innan Framsóknarflokksins nú.

Það verður fróðlegt að sjá í hvaða átt Kristinn H. fer, enda varla hægt að segja annað en að öll vötn liggi fyrir Vestfirðinginn í aðrar áttir. Vistin hjá Framsókn lauk með dómi grasrótar Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Eftir stendur þessi stjórnarandstæðingur í stjórnarmeirihlutanum með klofinn skjöld og bogið sverð eftir töpuð átök. Það verður fróðlegt að sjá hver áhrif þessarar niðurstöðu verða í pólitíkinni í Norðvesturkjördæmi.

mbl.is Kristinn H. hefur ekki ákveðið hvort hann tekur þriðja sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband