Kuldalegt augnablik á sjúkrahúsi í New York

Látin kona á biðstofu

Myndbandið sem sýnir lækna, hjúkrunarfólk, öryggisverði og sjúklinga láta konu afskiptalausa á biðstofu á sjúkrahúsi í Brooklyn í sólarhring allt þar til hún lést hefur eðlilega vakið heimsathygli. Ekki er hægt að segja annað en það sé beinlínis óhugnanlegt að starfsfólk með fagmenntun í lækningu og hjúkrun hafi ekki hugað að konunni.

Eins og sést í myndbandinu var það ekki fyrr en eftir um klukkutíma frá því að konan lést að öryggisvörður kom að henni og kallaði þá eftir aðstoð fyrir hana. Finnst þetta bæði óhugnanlegt og sorglegt að svona gerist á sjúkrahúsi, að enginn komi til bjargar eða aðstoðar og meira að segja fólk sem á að vera þjálfað í aðstæðum af þessu tagi gangi bara framhjá. Enda hefur þetta atvik leitt til uppstokkunar á þessu sjúkrahúsi.

Kannski er náungakærleikurinn hverfandi í nútímasamfélaginu eða fjarlægðin í samskiptum fólks orðin svo mikil að æ ólíklegra er að þeim sé komið til bjargar sem þurfa á aðstoð að halda. En að fólk sem er ráðið sérstaklega í umönnunarstörf taki ekki á aðstæðum sem þessum er óhugnanleg staðreynd sem hlýtur að fá alla til að hugsa sitt.


mbl.is Látin kona lá afskiptalaus í klukkutíma á biðstofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég held að þetta sé ekki einkarekið sjúkrahús, en ef einhver telur sig vita betur væri gott að það kæmi fram. Annars finnst mér það ekki skipta aðalmáli. Ef það er engin umhyggja hjá fagmenntuðu fólki fyrir sjúklingum er illa komið, sama hvert rekstrarformið er.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 2.7.2008 kl. 00:31

2 identicon

Það er nú ekki endilega fagmenntað fólk sem vinnur þessi störf. A.m.k. á Íslandi þarf að ráða ómenntað fólk í ummönunarstörf á geðdeildum og víðar þannig ég et ímyndað mér að það geti líka verið raunin í New York. En auðvitað er það engin afsökun fyrir afskiptaleysi starfsfólks.

Rakel Sólrós (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 01:11

3 identicon

Ertu ekki að láta plata þig Stebbi, horfði á myndbandið og sá aðeins sjúklinga sitjandi í stofunni, Guð má vita í hvaða ástandi. Mér sýnist að þegar hún finnst fari allt á fullt. 

Í rauninni ekki við hæfi að þú sért að dreifa myndbandi af einhverjum að deyja. Eða eins og segir við erum ein þegar við fæðumst og deyjum. Vilt þú að þegar þú deyrð drottni þínum sem við munum öll gera, að atburðurinn verði settur á youtube. Kv. Ingimundur Kjarval

Ingimundur Kjarval (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 03:00

4 identicon

Nú þekki ég ekki til þarna í New York, en sjúkrahúsið heitir "Kings county" spítalinn. Því tel ég mjög líklegt að það sé rekið af Kings sýslunni, en ekki einkarekið. Það skiptir kannski ekki meginmáli hvernig rekstrarformið er, hitt er svo annað mál að þeir sem lenda inni á ríkisreknu geðveikrahæli eru nær alltaf fólk sem mjög illa er komið fyrir (í USA), fólk sem hefur ekki haft efni á tryggingu til að komast inn á einkaspítalann. Þetta er því fólk sem er talið "annars flokks", fátækt, eiturlyfjaneytendur, ólöglegir innflytjendur osfrv. Svona hefði sennilega aldrei gerst á einkareknum spítala sem aðeins er aðgengilegur fyrir forréttindastéttirnar. Ég er svo hrædd um það að þetta tvöfalda kerfi, sem veldur tvöföldum kostnaði (og lélegri þjónustu nema fyrir þá ríkustu) nái að stinga sér niður hérlendis. Ég bjó í Bandaríkjunum og flutti heim m.a. vegna heilbrigðisþjónustunnar. Ég á ekki í annað hús að venda ef svona heilbrigðisþjónusta kemur hingað!

Ágústa 

Ágústa (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 15:25

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Það má bóka það að þetta er ekki einkarekið sjúkrahús.

Ég bjó í Þýskalandi í 12 ár, þar sem bæði eru einkarekin ríkissjúkrahús og einkasjúkrahús. Þjónustan á báðum tegundum er frekar góð, en auðvitað betri á einkasjúkrahúsum. 

Á einkareknum sjúkrahúsum kemur fólk inn og fær nær strax þjónustu, en þeir sem fara þar inn eru einkasjúklingar (Þ.Privatpatient).

Hinir sem hafa venjulega sjúkratryggingu fara á venjuleg sjúkrahús. Hins vegar fólk í Þýskalandi með tvennskonar sjúkratryggingu: almenna sjúkratryggingu (Þ. Gesetzliche Krankenversicherung) og einkasjúkratryggingu (Þ. Privatversicherung). Þjónustan er frekar ólík, sumir fá yfirlækninn og aðrir fá læknanema eða aðstoðarlækninn.

Ég er sjálfstæðismaður, en ekki mjög hlynntur þessu kerfi.

Hvernig kerfið er í Bandaríkjunum veit ég ekki, en þetta er örugglega ekki einkarekið sjúkrahús. Fólk sem rekur slík sjúkrahús er að hugsa um hagnað og orðspor. Þessi frétt er ekki eitthvað, sem þau sjúkrahús myndu fagna.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.7.2008 kl. 18:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband