Jim Webb vill ekki verða varaforsetaefni Obama

Barack Obama og Jim WebbMörgum að óvörum gaf Jim Webb, öldungadeildarþingmaður í Virgíníu, út sérstaka fréttatilkynningu í dag þess efnis að hann vildi ekki verða varaforsetaefni Barack Obama í forsetakosningunum í nóvember eftir þrálátan orðróm og óskir margra demókrata þar um. Ekki aðeins var fréttatilkynningin afgerandi orðuð um að Webb hefði engan áhuga, svo eftir var tekið, heldur var hún greinilega stílfærð og sett fram til að ná mikilli athygli.

Með þessu fækkar vænlegum varaforsetaefnum Obama enn frekar. Mikla athygli hefur vakið hversu margir öflugir demókratar hafa lagt lykkju á leið sína til að slá opinberlega út af borðinu möguleikann á því að fara fram með Obama í kosningunum. Í ljósi þess að hann er frambjóðandi breytinganna að þessu sinni og þykir vænlegur til árangurs er því eðlilega velt fyrir sér hvers vegna svo margir hafa lýst yfir áhuga frekar á því að verða ekki varaforsetaefni frekar en gefið því undir fótinn. Yfirlýsing Webb er sérstaklega áhugaverð í ljósi þess hversu margir töldu nær öruggt um að Obama myndi vilja hann sér við hlið.

Jim Webb hefði um margt verið hið fullkomna varaforsetaefni fyrir Barack Obama. Hann er þingmaður í fylki sem Obama vill leggja allt í sölurnar til að vinna, hann hefur reynslu fram að færa og mikla þekkingu á utanríkis- og varnarmálum sem gömul stríðshetja. Hann hefði t.d. verið öflugt mótvægi við John McCain í þeim efnum í kosningabaráttunni og bætt úr fyrir víðtækt þekkingarleysi Obama í utanríkismálum. Það er einn af allra veikustu hlekkjum kosningabaráttunnar fyrir Obama og honum mjög mikilvægt að varaforsetaefnið fylli upp í þau skörð sem veikust eru í framboðinu.

Demókratar hafa ekki unnið Virginíu-fylki frá því í forsetakosningunum 1964 er Lyndon B. Johnson vann Barry Goldwater með glans í einum glæsilegasta sigri í sögu bandarískra forsetakosninga á landsvísu. Obama gerir sér vonir um að ná að vinna í fylkinu. Með Webb sér við hlið hefði framboðið verið vissulega mjög sterkt og ég held að þeir hefðu getað verið sterkt tvíeyki. Nú þegar bæði Webb og Mark Warner hafa sagt pent nei við varaforsetapælingum er aðeins Tim Kaine, ríkisstjóri, eftir sem sterkur valkostur fyrir Obama úr Virginíu. En hann er enginn Jim Webb.

Mikla athygli vakti reyndar að Webb hefur í raun aldrei lýst yfir stuðningi við Barack Obama. Hann sat á hliðarlínunni í forkosningunum, valdi ekki á milli Obama og Hillary. Sú ákvörðun hans að afþakka pent og í kastljósi fjölmiðla að eigin ósk að fylgja Obama á leiðarenda er merkileg endalok á vangaveltur pólitískra bloggara og spekinga vestanhafs um að Webb myndi verða fyrir valinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband