Einars Odds Kristjánssonar minnst

EOK
Það er vel til fundið hjá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins að heiðra minningu Einars Odds Kristjánssonar, alþingismanns, með því að reisa honum bautastein á Flateyri, nú réttu ári eftir að hann varð bráðkvaddur. Einar Oddur var lykilmaður í gerð Þjóðarsáttarinnar árið 1990, sem formaður Vinnuveitendasambands Íslands, og hlaut viðurnefnið bjargvætturinn á Flateyri vegna þeirrar framgöngu.

Mikilvægt er að mótmæla sögufölsunum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í afmælisræðu fyrir Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, þar sem hann tók greinilega heiðurinn af gerð þjóðarsáttasamninganna með því að ætla að tengja þá nafni Steingríms. Sjálfhól Ólafs Ragnars hefur eðlilega farið illa í þá sem stóðu að gerð þeirra samninga og mikið verið um þá ræðu verið fjallað.

Mikilvægt er að heiðra minningu þeirra heiðursmanna sem léku þar lykilhlutverk; Einars Odds og Guðmundar J. Guðmundssonar, fyrrverandi alþingismanns, formanns Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands. Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari og fyrrverandi forseti ASÍ, var líka einn lykilmanna í þessum samningum, sem voru leiddir af forystumönnum verkalýðsins og atvinnulífsins.

Andrés Magnússon, Guðmundur Gunnarsson og Guðmundur Magnússon hafa allir ritað prýðisgóðar greinar að undanförnu þar sem farið er yfir sögu þeirra samninga og lykilhlutverk Einars Odds Kristjánssonar í þeim efnum, sem forseti Íslands ætlaði að eigna sér. Ómerkilegt er að sjálfur þjóðhöfðinginn geri svo lítið úr sér að ætla að taka heiðurinn af verki látinna manna og mun verða honum til lítils vegsauka að tjá sig með þeim hætti.

Einars Odds er minnst á þessum degi, hans merka ævistarf lifir í huga fólks. Einars Odds er saknað í íslensku þjóðlífi. Skarð hans var mikið er hann varð bráðkvaddur á hæsta tindi Vestfjarða, Kaldbaki, fyrir ári - við sjálfstæðismenn söknum hans úr þingflokknum. Enginn getur fyllt upp í skarð hans. Einar Oddur var þeirrar gerðar að tjá sig óhikað um menn og málefni og fór eigin leiðir. Stjórnmálaumræðan varð litlausari við fráfall hans.

Blessuð sé minning Einars Odds Kristjánssonar.


mbl.is Bautasteinn í minningu Einars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Stefán. Satt er það að þar er genginn heiðursmaður af gamla skólanum og er vissulega eftirsjá að honum. Blessuð sé minning hans og ég tek ofan fyrir þeim hjá ASI og SA með þetta flotta framtak. Varðandi skarðið í Sjálfstæðisflokknum þá verð ég að segja að tengdasonur hans, Illugi Gunnarsson, er traustvekjandi maður og með skoðanir sem mér finnst afar þekkilegar án þess að ég ætli neitt að fara að hjálpa uppá ykkur að finna staðgengil  kveðja til þín Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 12.7.2008 kl. 21:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband