Fer Kristinn H. í framboð fyrir VG?

Kristinn H. Kristinn H. Gunnarsson er á útleið úr Framsóknarflokknum eftir að grasrótin hafnaði honum í Norðvesturkjördæmi. Úrslit prófkjörs flokksins var pólitískt áfall fyrir Sleggjuna og hann er nú tekinn að leita sér að nýju pólitísku fleti fyrir sig að starfa á. Innan við áratug eftir að hann leitaði á náðir Framsóknarflokksins í andaslitrum Alþýðubandalagsins sáluga er hann heimilislaus þingmaður á leit að nýjum samastað. Merkileg flétta það.

Kristinn H. var á sínum tíma bæði þingflokksformaður og stjórnarformaður Byggðastofnunar fyrir Framsóknarflokkinn. Þeir gullnu dagar valdaáhrifa eru löngu liðnir og koma varla aftur. Það var fyndið hvernig hægt og rólega rann undan þar. Það er mikið spjallað um það á spjallvefunum að Kristinn H. fari jafnvel í framboð fyrir Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Það yrði merkileg flétta ef honum yrði kippt uppí þar eins og ástatt er fyrir honum núna.

Fyrir áratug flúði hann Alþýðubandalagið áður en að Margrét Frímannsdóttir sigldi rústunum af því lemstraða fleyi í höfn Samfylkingarinnar. Meðal þeirra sem flúðu skipið á svipuðum tíma var Steingrímur J. Sigfússon. Hann gerði sér lítið fyrir og stofnaði sinn eigin flokk. Lengi vel var ekki talið líklegt að það yrði flokkur sem næði fótfestu. Kristinn H. lagði t.d. ekki í að fylgja Steingrími sinn veg og valdi frekar að banka á dyrnar hjá Halldóri Ásgrímssyni og komst þar í mjúkinn - framan af. Það rann hægt og rólega undan því uns allt komst á kaldan klakann, eins og sagt er.

Tímarnir eru breyttir og mennirnir með, eins og máltækið segir. Nú árar ágætlega hjá Steingrími J. VG hefur verið á uppleið í skoðanakönnunum á kostnað Framsóknar og Samfylkingar sem hafa verið að tapa þónokkru fylgi í skoðanakönnunum frá þingkosningunum 2003 þegar að þessir tveir flokkar voru með þingmeirihluta saman, en kusu ekki að vinna saman. Þeir dagar eru liðnir og þeir eru orðnir fáir spekingarnir sem leggja peningana sína undir það að Framsókn og Samfylking nái þingmeirihluta að vori.

Það telst ekki beinlínis líklegt nú um stundir, með báða flokka undir kjörfylginu í Gallup-könnunum og VG á uppleið. Enda sést vel að Steingrímur J. er orðinn borubrattur með sig. Það hefur verið merkilegt að fylgjast með viðbrögðum eftir prófkjör Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Sumir fagna, aðrir harma skell Sleggjunnar. Það var þungt högg sem Sleggjan fékk þar eftir fimmtán ára þingmannsferil. Leiðtogatapið var honum þungt sleggjuhögg en það að verða undir Herdísi á Króknum sínu verra.

Mér finnst vinstri grænir vera einkum þeir sem harma hlut Sleggjunnar vestra nú um stundir. Það er spurning hvort Sleggjan horfir í heimahagana til Steingríms J. og sér þar blóm í haga sinnar gömlu pólitísku trúar. Kristinn H. var eins og fyrr sagði eitt sinn þingflokksformaður Framsóknarflokksins í þessu stjórnarsamstarfi um tíma. Nú blótar hann mjög því samstarfi, sem áður færði honum völd og áhrifin. Það er oft margt skrýtið í henni veröld.

Það verður mjög athyglisvert ef þessi fyrrum þingflokksformaður Framsóknar í þessu stjórnarsamstarfi endar svo núna í þessum þingkosningum sem þingframbjóðandi VG eftir dóm grasrótarinnar í gömlu högunum heima.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

 Eftir að vera búin að lesa blogg og fréttir, skoða síður frambjónenda, hlusa á Silfur Egils og pæla í þingmönnum núverandim og tilvonandi og brátt fyrverandi ( fékk þessa þvílíka dellu um póletík ) þá kemur mér ekkert á óvart.  Svei mér þá ef nokkrir þarna vita í hvaða flokki þeir eru.  En ég var nú að pæla í því í dag að Kristinn H. færi undi feld núna og skellti sér svo í sérframboð í vor, en í eina sæng með VG ??  Ja þú segir nokkuð.  það verður missir ef hann verður ekki á þingi en það koma líklega nokkrir óþekkir inn  í hans stað í vor. 

 En þar sem þú nefnir að hann hefði fyrir áratug flúið Alþýðubandalagi, þá er ég að glugga í bókina um Margréti Frímannsdótttur. Ég hef alltaf haft mika trú á henni, enda hefur hún svo sannalega unnið vel. En þvílík afrek sem hún hefur unnið, bæði á þingi, við Samfylkinguna og veikindi. Þeir missa mikið þegar hún hættir á þingi.

Sigrún Sæmundsdóttir, 22.11.2006 kl. 00:50

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Heil og sæl

Þakka þér fyrir kommentið. Já, það verður fróðlegt að sjá hver pólitísk örlög Kristins H. verða. Þó að við séum oft ósammála tel ég að eftirsjá yrði af skoðunum hans af þingi. Það verður athyglisvert að sjá hvort hann fari í annan flokk eða fylki liði undir eigin merkjum.

Margrét Frímannsdóttir er mjög merkileg stjórnmálakona. Það verður mikill sjónarsviptir af henni fyrir Samfylkinguna. Hún hefur verið áberandi í sinni pólitík og mikil baráttukona sinna hugsjóna. Ég skrifaði þessa færslu um bókina hennar. Ég ætla mér að lesa hana fljótlega.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.11.2006 kl. 01:12

3 Smámynd: Sigrún Sæmundsdóttir

Sæll

 Takk fyrir að benda mér á þessa færslu þína.  Hef lítið verið í tölvusambandi svo að margt hefur farið framhjá mér, en fer að bæta úr því.

Sigrún Sæmundsdóttir, 22.11.2006 kl. 02:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband