Skynsemi í myrkrinu - græðgin og óhófið að baki?

Ólafur Jóhann Ólafsson kemst vel að orði í helgarviðtali Moggans um orkumál og einkum REI-málið margfræga. Græðgin og óhófið drap alla mögulega skynsemi í REI-málinu. Almenningi ofbauð spillingin og vinavæðingin sem var í forgrunni allra ákvarðana, hvernig skammta átti nokkrum vildarvinum úr sjóðum almennings og nota fyrirtæki almennings sem stökkpall fyrir auðmenn og til að maka krókinn fyrir sig sjálfa. Þar var lykilpunktur þess máls.

Enn veit reyndar enginn hvað snýr upp og niður í því máli. Þeir stjórnmálamenn sem réðu för í REI-málinu síðasta haust eru ekki lengur á hinu pólitíska sviði og reyndar flestir þeir yfirmenn sem umdeildastir voru í því ferli. Guðmundur Þóroddsson ekur reyndar enn um á jeppa og talar í síma í eigu borgarbúa og á þeirra kostnað þó hann hafi fengið 30 milljónir fyrir að fara, þar sem hann átti ekki lengur trúnað þeirra sem fara með umboð kjósenda.

Þvílíkur farsi var annars að horfa á þennan mann muldra sig í gegnum sína stöðu í Kastljósi á föstudag. Ætlar maðurinn ekki að skila þessum trúnaðargögnum sem hann á engan rétt á að valsa með út úr húsi með? Nú er helgin að verða liðin og allir bíða eftir að maðurinn skili því sem hann á engan rétt á að vera með í sínum fórum. Varla er við því að búast að fólk hafi samúð með þessum manni og ekki var hann að fiska eftir henni með Kastljósviðtalinu.

Orkuútrásin getur jafnvel verið fjári sniðug og kúl. En þar eiga einkaaðilar að gambla með fé ekki á að leggja undir á spilaborð viðskiptanna með fé almennings, setja undir fyrirtæki sem á að þjóna borgarbúum og tengdum aðilum. Þar er helsta deilan.

Eins og komið var fram í REI-málinu í fyrra er eðlilegt að véfengt sé fyrir hvern er unnið með þessari orkuútrás. Ekki eru það eigendur þessa borgarrekna fyrirtækis, þó menn eins og Guðmundur hafi spilað sig sem forstjóra í einkafyrirtæki.

Ólafur Jóhann talar þó, að því er virðist, af meiri einlægni en margir forsvarsmenn þessara fyrirtækja sem hafa tjáð sig um þessi mál lengi. Kannski vantar einlægnina og heiðarleikann í þennan hráskinnaleik er allt kemur til alls. 


mbl.is Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sjálfstæðismenn að ógleymdum Framsóknarmönnum voru aðal gerendur í þessu klúðri, það má ekki heldur gleymast.

Valsól (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 15:35

2 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Ég held að þú sért algjörlega að rangtúlka stöðu Guðmundar Þóroddsonar og hans hlut að málinu. Guðmundur tók skjöl sem eru fundargögn dreift á fundum stjórnar OR, sem mjög margir núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn hafa í sínum fórum. Ég held að þetta séu ekki merkileg gögn, og þetta mál sé algjör stormur í vatnsglasi. Varðandi jeppan, þá eru samningar samningar, lögfræðingur hefur túlkað sem svo að þetta sé  hluti af hans kjörum, ef það kemur fram að svo sé ekki, þá skilar hann bara bílnum og málið dautt. Ótrúlegt að láta embættismann taka alla sökina á máli, þar sem stjórnmálamenn héldu að þeir væru business menn og gerðu algjörlega í brækurnar, vægt til orða tekið. Það bera Sjálfsstæðismenn mikla ábyrgð. Tap borgabúa á þessu háttarlagi hefur verið gríðarlegt. Svipað og þegar Guðlaugur Þór og Inga Jóna töluðu niður verðmæti borgarinn í Línu.net málinu, ekki að ég nenni að reifa það mál hér núna.

Eggert Hjelm Herbertsson, 13.7.2008 kl. 17:44

3 identicon


Ef þett væru ekki merkileg gögn þá hefði núverandi forstjóri OR  ekki verið að ónáða vin sinn Guðmund og "biðja"  hann að skila þeim. Að þetta séu bara fundargögn er fullyrðing frá Guðmundi sem enginn annar hefur viljað staðfesta.
Varðandi þetta gífurlega tap þá var búið að eyða öllum hugsanlegum gróða fyrirfram með þessum kaupréttarsamningum.

GK (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 19:04

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk fyrir kommentin.

Valsól: Ég hef nú ekki beint verið að spara mig í skrifum síðustu mánuði gegn því sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur gerðu á valdatíma sínum með OR. Hef ekki varið eitt né neitt af þeirra verkum í þessu. Þeir verða að verja það sjálfir.

LF: Græðgi er kannski ágæt upp að vissu marki. Öllum metnaði verður að fylgja kraftur og einbeitni til að ná árangri. En í þessu máli fór þetta yfir öll mörk, algjörlega. Þetta var sukk sem fólki ofbauð.

Eggert: Guðmundur hefur nú loksins skilað gögnunum. Það eru góð tíðindi. Hinsvegar stend ég við þau orð að hann hafi ekki átt að fara með nein trúnaðargögn af þessu tagi úr húsi. Hann var hættur og átti ekki að halda utan um neitt bókhald eða verkefni þar af neinu tagi. Gögnin eru eign forstjóra Orkuveitunnar en ekki Guðmundar Þóroddssonar sem persónu. Að hann hafi ekki gert greinarmun þar á sýnir hvernig maðurinn vann árum saman, því miður.

GK: Nákvæmlega, tek undir þetta.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.7.2008 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband