The Dark Knight er algjörlega frábær mynd

The Dark Knight Jæja, loksins eftir margra mánaða bið er maður búinn að sjá The Dark Knight, nýjustu Batman-myndina og síðustu mynd Heath Ledger. Og myndin stóðst allar væntingar og gott betur en það. Algjörlega frábær í alla staði, vönduð og vel gerð og verðskuldar allt það lof sem hún hefur fengið og ekki síður metaðsóknina sem hefur komið henni á stall með mörgum eftirminnilegustu kvikmyndum síðustu áratuga í sögubókunum.

Var farinn að hugsa um það síðustu dagana hvort myndin væri að fá allt lofið aðeins vegna þess að þetta er lokapunkturinn á glæsilegum leikferli Heath, sem lést langt um aldur fram eða hvort að þetta væri bara sumarbóla án verðskuldaðra hæfileika á að verða eftirminnilegt meistaraverk. Þetta er hiklaust besta Batman-myndin. Handritið, tónlistin, klippingin og kvikmyndatakan er brilljans og heildarpakkinn allur eins og best verður á kosið.

Heath Ledger er leiftrandi og yndislega illkvittinn sem Jókerinn - hann lagði allt í þessa túlkun og færir okkur enn dýpri og kuldalegri karakter en Jack Nicholson gerði í fyrstu Batman-kvikmyndinni fyrir tveim áratugum. Þessi frammistaða verður ekki síður eftirminnileg en leiksigrar James Dean á sjötta áratugnum í East of Eden, Giant og Rebel Without a Cause, ógleymanlegum meistaraverkum sem halda minningu hans á lofti um eilífð. Dean dó ungur en afrek hans voru verðskuldaðir leiklistarsigrar sem eru í minnum hafðir.

Sama má segja um Jókerinn sem gnæfir yfir allt í myndinni. Þetta er myndin hans Heath, minnisvarði hans. Og hann á að fá óskarinn fyrir stórleik sinn, hvorki meira né minna. Það var auðvitað til skammar að hann fékk ekki verðlaunin fyrir tímamótatúlkun sína á Ennis í Brokeback Mountain. Hollywood á að heiðra minningu þessa hæfileikaríka og frábæra leikara með óskarsstyttu, ekki aðeins til minningar um ógleymanlega leiktúlkun merks leikara heldur sem minnisvarða um hvað hefði getað orðið.

mbl.is Leðurblökumaðurinn kominn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Daníel Sigurður Eðvaldsson

Ég var mjög sáttur með myndina. Ledger túlkaði Jókerinn mjög vel og kom hann mér vel á óvart, enda hafði ég litlan áhuga á fyrri myndum hans nema þá í Brokeback Mountain. Held að margir eiga eftir að muna eftir Ledger sem Jókerinn og það er fúllt að geta ekki fengið að sjá hann í öðrum bíómyndum. Eins og þú sagðir þá verður Jókerinn svo sannarlega minnisvarði hans næstu áratugina.

Að öðru leyti var ég mjög sáttur með myndina sjálfa. Góður leikur hjá öllum leikurum, vel tekin upp, stutt í húmorinn og skemmtilega útfærðar tæknibrellur. Hinsvegar það sem ég var ekkert svakalega sáttur með var aðeins lengdin á myndinni. Á tíma fór ég að spurja mig hvenær hún á eiginlega að enda. Hinsvegar getur það útskýrt það að ég fór í tíu bíó, enda búinn að vera á fótum síðan kl 8 í morgun og á hlaupum síðan þá. Að öllu leyti var ég samt sáttur og líkaði rosalega vel við myndina. Góð færsla hjá þér Stefán.

Daníel Sigurður Eðvaldsson, 23.7.2008 kl. 01:52

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentið Daníel - og góðu orðin.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 23.7.2008 kl. 02:10

3 Smámynd: Ómar Ingi

Rétt hjá þér Stéfan, Án efa besta kvikmynd ársins og Joker leikinn af Heath Ledger heitnum á skilið óskarstilnefningu.

Hlakka til að sjá þessa kvikmynd aftur og aftur og aftur

Ómar Ingi, 23.7.2008 kl. 13:06

4 identicon

Algerlega sammála með myndina, hún er frábær.

Hinsvegar fannst mér túlkun Jack Nicholson 1989 vera flottari. Mikið hype var á þeim árum um að hann hefði átt að fá Óskarinn fyrir það en fékk ekki. Það er bara staðreynd að eftir dauða Ledgers að þá fær hlutverkið meiri athygli og stundum soldill ofmetingur í gangi og örlar á smá dramatík. Ekki að ég ætli að taka e-ð af Ledger, Nicholson var bara betri fyrir minn smekk í túlkun á sama karakter.

Hlynur Gudlaugsson (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 14:40

5 identicon

Takk fyrir góða grein.

 Ég er ekki að reyna að vera með smámunarsemi en þar sem ég er búin að lesa sömu vitlausu staðhæfinguna í öllum blöðunum í dag þar sem er verið að tala um The Dark Knight verð ég að fá að koma þessu frá mér.

Þetta er ekki síðasta mynd hans Ledger. Við eigum eftir að fá að njóta hans í einni mynd í viðbót og er það myndin hans Terry Gilliam "The imaginarium of Doctor Parnassus". Vissulega er það ekki eins stórt hlutverk og Jókerinn þá er gott að vita að það er smá sem bíður okkar. Gaman að því að í staðin fyrir að fá nýjan leikara og byrja frá byrjun þá ákvað Terry að fá Johnny Depp, Colin Farrell og Jude Law til að leika sama karakter þar sem Söguþráðurinn bíður uppá það.

Hlynur Kristjánsson (IP-tala skráð) 23.7.2008 kl. 21:15

6 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Maður drífur sig um helgina, fannst Batman Begins sérlega góð og var límdur yfir henni, fór aðeins á hana vegna Nolan og Memento, er ekkert sérlega mikið fyrir hasarhetjumyndir yfirleitt nama söguþráður og útlit sé verulega bitastætt. Hlakka mikið til helgarinnar ef hún er betri en B. Begins.

Georg P Sveinbjörnsson, 24.7.2008 kl. 00:30

7 identicon

Alveg sammála, þetta er gjörsamlega ein af myndum ársins!

Það eina sem bjargaði henni frá að verða ein af "öllum hinum" ofurhetjumyndum sem verða frumsýndar í ár er frammistaða Heath Ledger. Þótt ég dirfist varla að segja það því ég er langt frá því að vera einhver aðdáandi hans sem leikara eða persónu og fór m.a.s. að sjá myndina með því hugarfari "Jæja, sjáum hvort að þessi margrómaði leikur hans standist nú allt 'hæpið' sem búið er að spinna".

En jaaaa hérna! Ég varð gjörsamlega kjaftstopp, hann var svo magnaður sem þessi karakter. (Hjúkkan var alger snilld, salurinn gargaði af hlátri!) Og já, myndin er frekar löng, tæpir þrír tímar ef mig misminnir ekki, en það virtist ekki vera vandamál hjá neinum af þeim sem sátu með mér í pakkfullnum salnum þessa þrjá tíma og voru nánast alveg hugfangin hverja mínútu.

Búin að spjalla mikið um þessa mynd við vini og vinnufélaga (og meira að segja ókunnugt fólk í biðröð í bankanum í gær þegar einhverjir félagar minntust á myndina...alger snilld) og það er nánast undantekningalaust að bæði þeir sem hafa séð og hafa ekki séð fá gæsahúð bara af að minnast á frammistöðu Jókersins...segir meira en mörg orð! 

 Á tímabili fór maður að vorkenna holdgervingum Bruce Wayne og erkifjenda hans í fyrstu Batman-myndarununni; Michael Keaton, Jack Nicholson, Jim Carrey, Val Kilmer, George Clooney, osfr. O jæja.

Aldrei munu þær myndir komast með tásveppina þar sem Christian Bale og félagar hafa leðurblökuhælana. Þær gömlu munu samt alltaf hafa sitt skemmtanagildi fyrir nostalgíufíkla eins og mig... en hver veit nema að eftir 15-20 ár finnist okkur Christian Bale og þessi frábæra Batman-runa sem við erum að sjá í dag orðin úrelt og hallærisleg? "Why so serious?" Hver ætli verði þá Jókerinn í framtíðinni? ;)

Bimma (IP-tala skráð) 24.7.2008 kl. 00:54

8 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir kommentin.

Gott að heyra mat ykkar á myndinni og leik Heath Ledger. Hvað mig varðar verður þetta síðasta myndin hans Heath, enda verður The imaginarium of Doctor Parnassus aldrei fullgerð eins og hún átti að vera. Það var of mikið eftir til að hún yrði fullkomin og þarf að klastra einum of mikið upp í hana til að þar fari sterk mynd með Heath. Auðvitað er það gott og blessð að það eigi að klára hana og verður vissulega gaman að sjá útkomuna, en þetta verður aldrei myndin sem lagt var upp með. Það er því miður bara staðreynd.

Takk sérstaklega fyrir flott komment, Bimma mín.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 24.7.2008 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband