Styttist í prófkjör - góður framboðsfundur

Sjálfstæðisflokkurinn Það var notaleg og góð stemmning á Hótel KEA í kvöld á fundi frambjóðenda í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn var af okkur í stjórn málfundafélagsins Sleipnis. Mjög vel var mætt á fundinn, en bæta þurfti við stólum í fundasalnum vegna fjöldans sem þar var saman kominn. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þennan mikla og lifandi áhuga flokksmanna koma svo vel fram í þessari góðu fundarsókn, en það er varla furða að svo sé, enda er þetta prófkjör mikilvægt okkur öllum sjálfstæðismönnum hér.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, heiðraði fundinn með nærveru sinni. Hófst framboðsfundurinn með þriggja mínútna framsögum frambjóðendanna níu og að því loknu drógu þau spurningu sem samdar voru af okkur í stjórninni. Höfðu frambjóðendurnir ekki séð spurningarnar fyrirfram og var því áhugavert að sjá viðbrögð þeirra við spurningunni og heyra svo auðvitað svarið. Sumir frambjóðendurnir voru heppnir með spurningar, aðrir ekki eins og gengur. Flestir komu þó vel frá aðstæðum, en flestir þurftu að sýna á sér nýja hlið.

Flestir frambjóðendur tjáðu sig um mál sem þeir hafa lítið fjallað um og það tryggði líflegt fundaform og fjarri því hefðbundið. Þessi fundur var því vel heppnaður og hressilegur. Það var einmitt markmið okkar stjórnarmanna í Sleipni að tryggja lifandi og léttan fund. Fengum við fréttamanninn Sigrúnu Vésteinsdóttur á bæjarsjónvarpsstöðinni N4 einmitt til að verða fundarstjóra til að tryggja lifandi og ferska fundarstjórn. Hún spurði beinskeytt meira út í málið sem frambjóðandinn var spurður um eftir svarið og því var haldið áfram og gengið eftir betri svörum kæmu þau ekki hjá frambjóðandanum á tilsettum tíma. Kom nokkrum sinnum til þess.

Fundurinn var tveir tímar að lengd. Greinilegt var að fundargestum leist vel á fundinn og snarpt og létt form hans. Engin dauð stund og við kynntumst öll bestu hliðum frambjóðendanna held ég, hreint út sagt. Við erum með virkilega góðan hóp fólks í boði og fróðlegt að sjá hvernig raðast. Voru fundarmenn ánægðir og heyrðum við góða umsögn um allar hliðar kvöldsins hjá þeim sem sátu fundinn og frambjóðendum leist vel á. Það var því góð stemmning á Hótel KEA.

Spennan magnast vegna prófkjörsins. Lokadagur baráttunnar er á morgun og á laugardagsmorgun opna kjörstaðir um allt kjördæmið. Á sunnudagskvöldið liggja úrslitin fyrir og þá hefur nýr kjördæmaleiðtogi verið formlega valinn af flokksmönnum. Það eru spennandi tímar framundan hér hjá okkur sjálfstæðismönnum í Norðausturkjördæmi. Þetta verður spennandi helgi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Stebbi.

Alltaf gaman að sjá nýjar hugmyndir að fundaformi he he ..

Þetta er öruggleg spennandi hjá ykkur, góðar kveðjur norður.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.11.2006 kl. 01:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband