Hvern velur Barack Obama sem varaforsetaefni?

BarackLjóst verður innan tveggja sólarhringa hvern Barack Obama velur sem varaforsetaefni sitt í kosningabaráttuna næstu 70 dagana. Flokksþing demókrata hefst í Denver í Colorado á mánudag og þegar er ljóst að Obama ætlar sér að eiga fyrsta kosningafundinn með varaforsetaefninu í Springfield í Illinois síðdegis á laugardag, þar sem hann tilkynnti formlega um forsetaframboð sitt í febrúar 2007.

Tilkynnt var síðdegis að Obama hefði tekið ákvörðun um valið en það yrði ekki gert opinbert strax. Bandarískir fjölmiðlar hafa fjallað það vel um valkosti Obama að þeir eru flestir orðnir vel kunnir, meira að segja þeim sem ekki þekkja vel til bandarískra stjórnmála. Þar hefur biðin verið löng og erfið og teygð í gegnum gúrkutíðina allt frá því Obama náði útnefningunni formlega í júníbyrjun. Hann hefur þó staðið allt tal fjölmiðlanna af sér og fikrað sig nær ákvörðun.

Eins og staðan er núna eru þrír taldir líklegri en aðrir til að ná útnefningunni. Mest er talað um Tim Kaine, ríkisstjóra í Virginíu, Joe Biden, öldungadeildarþingmann frá Delaware, og Evan Bayh, öldungadeildarþingmann frá Indiana. Traustustu veðmálin þar á ferð. Enn er þó hávær orðrómur um þann fjarlæga möguleika að Hillary Rodham Clinton, keppinautur Obama í hinni sögulegu forkosningabaráttu, verði fyrir valinu, á meðan margir sem vilja konu tala um Kathleen Sebelius, ríkisstjóra í Kansas.

Bayh, Biden og Kaine eru mjög ólíkir valkostir, hafa allir trausta styrkleika en líka áberandi veikleika í stöðunni fyrir Barack Obama. Förum yfir þá.

BidenJoe Biden
+ Með mikla og víðtæka þekkingu, einkum í utanríkismálum, er formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar og komið til greina sem utanríkisráðherra fyrir demókrata. Verið þingmaður í öldungadeildinni fyrir Delaware síðan Obama var tólf ára, árið 1973. Enginn efast um víðtæka reynslu hans og á hann er hlustað. Er þungavigtarmaður sem myndi færa Obama styrkleika í lykilmálaflokkum, sem honum vantar sárlega.

- Verið mjög lengi hluti af valdakerfinu í Washington, verið þar í innsta hring í hálfan fjórða áratug, síðan í forsetatíð Richards Nixon, og talinn táknmynd liðinna tíma af sumum, þó hann sé traustur að mörgu leyti. Gæti skaðað boðskap Obama um breytingar í DC. Er talinn lausmáll og gæti gefið höggstað á sér og framboðinu. Delaware hefur aðeins þrjá kjörmenn og skiptir ekki máli í kjörmannapælingum. Hefur ekki unnið undir stjórn annarra í marga áratugi. Er sex árum yngri en McCain, 66 ára síðar á árinu.

BayhEvan Bayh
+ Traustur valkostur í tæpri baráttu, unglegur og myndarlegur en samt hokinn af reynslu; verið í öldungadeildinni frá 1997 en þar áður ríkisstjóri í Indiana tvö tímabil. Studdi Hillary í forkosningaferlinu og tryggði henni nauman sigur í Indiana og gæti leikið lykilhlutverk í að græða sárin milli fylkinganna, sem enn eru til staðar. Með trausta stöðu í miðvesturríkjunum sem munu jafnvel ráða úrslitum. Gæti fært Obama sigur í Indiana, ellefu kjörmanna fylki sem repúblikanar hafa unnið í öllum kosningum frá 1936, nema einum, auk þess leikið lykilhlutverk í Ohio og Iowa. Myndi ekki skyggja á Obama.

- Studdi innrásina í Írak og allar helstu ákvarðanir Bush-stjórnarinnar í hinu umdeilda stríði áður en það hófst og á fyrstu stigum þess. Hefur ekki gengið í takt með Obama í málefnum Írak allt frá upphafi og gæti valið á honum vakið spurningar um hvort þeir séu samstíga og sammála í utanríkismálum. Gæti talist litlaus þrátt fyrir stjörnusjarmann og einum of fyrirsjáanlegur kerfiskarl. Verið í öldungadeildinni í rúman áratug og myndi fúnkera illa með breytingamaskínu Obama.

KaineTim Kaine
+ Er ekki hluti af innsta valdakerfinu í Washington og myndi tóna vel með Obama sem upphafsmaður nýrra tíma í höfuðborginni, myndi ljá breytingamaskínu Obama nýjan og leiftrandi kraft. Sem ríkisstjóri Virginíu gæti hann fært Obama sigur í fylkinu, sem demókrati hefur ekki unnið síðan Lyndon B. Johnson var kjörinn árið 1964 og hefur verið traust vígi repúblikana áratugum saman. Var fyrsti ríkisstjórinn sem lýsti yfir stuðningi við Obama utan Illinois.

- Situr sitt fyrsta kjörtímabil sem ríkisstjóri og hefur því litla pólitíska reynslu líkt og Obama. Hefur jafnan verið talið mikið veikleikamerki í bandarískum stjórnmálum að í forsetaframboði saman séu tveir menn á fyrsta tímabili. Hann gæti veikt framboðið í miðvesturríkjunum jafnmikið og hann myndi styrkja það í Virginíu, einu því mikilvægasta. Of lítið þekkt andlit til að fara með lítt reyndum forsetaframbjóðanda alla leið á sjötíu mikilvægum dögum.


Fínt að velta þessu fyrir sér. Hef verið viss um það frá upphafi að Obama myndi velja Bayh eða Biden. Þeir eru það traustir valkostir að það liggur beinast við. Sérstaklega er mjög áberandi hvað Bayh er traustur valkostur, varla er veikan blett á honum að finna. Hann hefur svo margt sem Obama vantar í þessum kosningum, auk þess þann sjarma og kraft sem honum vantar án þess þó að skyggja á hann.

Enn er talað um Hillary, skiljanlega. Kannanir sýna að rök hennar í baráttunni fyrir stuðningi ofurfulltrúanna í forkosningaslagnum eru að verða napur veruleiki. Obama var ekki sá draumavalkostur sem talið var lengstan part vetrarins og hann hefur mikla veikleika. Auk þess er blaðran sprungin og hann er ekki eins öflugur Messías eins og í byrjun ársins, áður en Wright-málið skall á. Allt sem Hillary sagði gegn honum hefur ræst og gott betur en það.

Auðvitað væri það traustast fyrir Obama að velja Hillary. Hún myndi færa honum fylgi sem sárlega vantar, með því yrði samstaða flokksins tryggð og Obama fengi trausta uppsveiflu. Hinsvegar myndi Hillary skyggja mjög á Obama, sem hefur veikst mjög í sumar, og gæti í raun tekið forystuhlutverk í framboðinu sem varaforsetaefni. Það er sem eitur í beinum Obama-hjónanna sem vilja upplifa sitt augnablik.

Svo tala sumir um Kathleen Sebelius. Það mun ekki gerast að hún verði valin, tel ég. Þá myndi Obama stuða allar konurnar sem börðust nótt og dag fyrir Hillary og hún yrði söguleg áminning um að vera konan sem fékk sess Hillary á þessu sögulega kosningaári. Er gjörsamlega dæmt til að mistakast og springa framan í Obama, eins frambærileg og Sebelius annars er.

Eitt er víst; Obama mun reyna að stuða sem fæsta með valinu, nógu veikur er hann nú samt. Því er langlíklegast að hann velji reyndan mann með sér og þar standa eftir aðeins Bayh og Biden. Finnst líklegra að hann velji Bayh. Hann er ungur og sjarmerandi en samt með mikla reynslu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Góð samantekt og athyglisverð/en ek veðja á Hillary /Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 22.8.2008 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband