Flokksþing demókrata í Denver: 1. dagur

dnc denver1Flokksþing demókrata hófst fyrir stundu í Pepsi Center-íþróttahöllinni í Denver í Colorado. Þetta er í fyrsta skiptið í heila öld, eða frá árinu 1908, sem demókratar funda þar í aðdraganda forsetakosninga. Þar hittast 4500 þingfulltrúar til að stilla saman strengi fyrir forsetakosningarnar þann 4. nóvember nk, eftir slétta 70 daga, og útnefna Barack Obama formlega sem forsetaefni flokksins á fimmtudag.

Bandarísku flokksþingin eru miklar fjölmiðlasamkomur, leikstýrðar eins og þaulæfðasta leiksýning og minnir frekar á óskarsverðlaunaafhendingu en stjórnmálasamkomu. Þar er engin málefnaumræða, eins skondið og það hljómar rétt fyrir mikilvægar forsetakosningar, en mun frekar halelúja-samkoma fyrir forsetaefni flokksins, til að kynna persónu hans, áherslur og afstöðu til lykilmála.

Á flokksþingum eru öll hin minnstu smáatriði æfð og fundurinn fer fram eftir handriti sem leikstjórar væru stoltir af að vinna eftir, enda allt í sínum skorðum. Þannig að þetta er ekki stjórnmálavettvangur með beinskeyttri umræðu heldur mun frekar söluherferð á frambjóðandanum og til að tryggja að flokkurinn fari sterkur til kosninganna og að tryggja markaðsherferð fyrir forsetaefnið. Auðvitað snýst þetta allt um stjórnmálabaráttu í grunninn en er mun frekar eitt allsherjar show.

Í dag snýst allt um að kynna fjölskyldumanninn Barack Obama og færa flokksmönnum og landsmönnum mildu ásýndina á honum. Þar verður reynt að tala gegn þeim sögusögnum að Obama sé snobbaður elítumaður sem líti niður á annað fólk og sé fjarlægur alþýðufólki. Fjallað verður um æskuár hans, hjónabandið, eiginkonuna, börnin og hvernig Obama varð að stjórnmálamanni og náði að verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu.

Förum yfir nokkra lykilpunkta fyrsta dagsins.

- Michelle Obama, eiginkona forsetaframbjóðandans, er aðalræðumaður kvöldsins. Hún reynir í tilfinningaríkri og fjölskylduvænni ræðu sinni að mýkja ekki aðeins ímynd eiginmanns síns, heldur sína eigin. Skv. könnunum er Michelle mun umdeildari í hugum bandarískra kjósenda en Cindy McCain og skaddaðist ekki síður af Wright-málinu en eiginmaður hennar. 

- Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, verður heiðraður. Kennedy greindist með heilaæxli í maí og er í meðferð vegna þess nú, auk þess að hafa farið í skurðaðgerðir. Fyrst átti Ted Kennedy að tala til flokksmanna af myndbandi en hann ákvað á síðustu stundu að mæta á svæðið, gegn ráðum lækna, og ávarpar þingið.

- Fjölskylda og vinir frambjóðandans kynna hann fyrir þinginu. Systir Barack Obama, Maya Soetero-Ng, mun tala um tengsl sín við bróður sinn og hvernig hann gekk henni í föðurstað á mikilvægu skeiði í lífi sínu. Craig Robinson, mágur frambjóðandans, mun kynna systur sína Michelle og tala um samskipti þeirra. Jerry Kellman, lærifaðir og vinur Obama, talar svo um persónu frambjóðandans.

- Auk þess tala t.d. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Jesse Jackson yngri, þingmaður í fulltrúadeildinni og stuðningsmaður Obama í gegnum þykkt og þunnt, og Claire McCaskill, öldungadeildarþingmaður í Missouri, sem studdi Obama á mikilvægum tímapunkti í baráttunni og tryggði sigur hans í fylkinu.

- Jimmy Carter, fyrrum forseti Bandaríkjanna, verður hylltur á þinginu og mannréttindabaráttu hans minnst. Carter fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2001.

Þetta er því mun frekar auglýsingmennska og markaðssetning á einum manni frekar en pólitísk rökræða. Oft er talað um að ein rödd flokksins og leiðtoga hans séu áberandi á íslenskum flokksþingum og landsfundum. Þeir sem það segja hafa greinilega ekki kynnt sér bandarísku þingin. Þar er pólitík aðeins markaðsmennska. En svona er þetta víst.

Þetta verður áhugavert og sögulegt flokksþing, enda fyrsti þeldökka forsetaefnið útnefnt og gæti markað upphafið á sögulegum þáttaskilum í bandarískum stjórnmálum eftir 70 daga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erna Hákonardóttir Pomrenke

Mikið væri hann John MacCain sniðugur ef hann veldi hana Hillary sem vara forsetaefni. Það væri nú bara ekkert svo galið. 'Eg held að Obama ráði ekkert við þetta. Þó sumum finnist MacCain of gamall er hann reynslunni ríkar. Sigur í hólm með Hillary.

Erna Hákonardóttir Pomrenke, 25.8.2008 kl. 22:59

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Mjög svo athyglisverð grein ,og gerir manni grein fyrir mörgu þarna, En þetta verður á brattan að sækja fyrir Obama,en fólkið vill breytingar,en eru þetta þær réttu????/Hef haft samband við fólk þarna í  úti sem segist ekki kjósa svartan mann sem forseta!!!!,en við spyrjum að leikslokum/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 26.8.2008 kl. 14:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband