Michelle mátar sig í hlutverki forsetafrúarinnar

Michelle ObamaMichelle Obama, eiginkona Barack Obama, mun eftir miðnættið ávarpa flokksþing demókrata sem aðalræðumaður fyrsta kvöldsins. Þar mun hún máta sig við hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna og reyna að styrkja ímynd sína og eiginmannsins, gera hana bæði fjölskylduvænni og traustari. Kannanir sýna að Michelle á langt í land með að fá á sig blæ hinnar traustu forsetafrúar.

Michelle hefur frá fyrsta degi leikið lykilhlutverk í kosningabaráttu eiginmanns síns, rétt eins og Hillary Rodham Clinton í baráttu Bill Clinton í forsetakosningunum 1992 og 1996, verið hans nánasti pólitíski ráðgjafi og aðalleikkona í að skapa umgjörð baráttunnar. Samkvæmt könnunum er Michelle mjög umdeild og mörkuð átökum í pólitískum eldi, landsmenn eru mun hræddari við hana en eiginmanninn og því þarf hún að sýna mjúku hliðina.

Obama og Kerry eiga það báðir sameiginlegt að eiga eiginkonu sem er mjög umdeild og þarf að fara í gegnum karakterbreytingu á flokksþinginu, snúa við blaðinu til að verða trúverðugar í hlutverki sínu og um leið styrkja ímynd eiginmannsins. Teresa Heinz Kerry flutti langa og hugljúfa ræðu á flokksþinginu í Boston árið 2004 til að kynna mann sinn en um leið tala sjálfa sig upp í hlutverkið eftir umdeild ummæli og eigin mistök í baráttunni. Henni mistókst að byggja þessa umgjörð þrátt fyrir að vera öll af vilja gerð að takast það. Hún varð einn veikasti hlekkurinn í framboðinu.

Nú þarf Michelle Obama að styrkja eigin ímynd til að byggja traustari undirstöðu fyrir eiginmanninn. Þess vegna er fjölskyldustemmningin svo mikil fyrsta kvöldið. Þetta er mál sem skiptir miklu á þessum tímapunkti í kosningabaráttunni. Michelle Obama þarf að sýna að hún sé efni í góða forsetafrú, sé einlæg kona, sé konan við hlið frambjóðandans en ekki bara pólitísk bardagakona í baklandi eiginmanns síns. Þetta er ímynd sem enn þarf að vinna í. Þetta segja kannanir og þetta staðfestist af þeim áherslum sem hún markar á fyrsta kvöldi þingsins.

Hún opnar þingið í þessu hlutverki og reynir að sýna að hún geti orðið forsetafrú Bandaríkjanna. Þess má geta að Laura Welch Bush þurfti ekki að leika þetta hlutverk á flokksþingum eiginmanns síns. Þar var hún trausti aðilinn í hjónabandinu og með annað hlutverk. Hún hafði trausta stöðu í skoðanakönnunum og kynningin á henni var sjálfsögð sem eiginkonu forsetaefnis. Hann þurfti frekar á þessari kynningu að halda en hún.

Fyrir stundu fékk ég tölvupóst frá Michelle í póstkerfi Obama-baráttunnar þar sem hún talar einlæglega um fjölskylduna og hugljúf mál. Og svo var hún áðan í viðtölum að segja fjölskyldusögur og sýna að hún sé nú einlæg og traust húsmóðir, en ekki bara hin umdeilda kona við hlið Barack Obama. Á henni fer fram karakterbreyting á þessu þingi. Þar þarf að mýkja og styrkja. Þetta er aðalverkefni þeirra hjóna í upphafi þingsins.

Margir Bandaríkjamenn muna helst eftir Michelle sem konunni sem var í forystu söfnuðar Jeremiah Wright, sem bölsótaðist út í Bandaríkin og tækifæri landsins í predikunum sínum, mannsins sem gifti þau hjónin og skírði börnin þeirra, og þá sem sagðist í fyrsta skipti vera stolt af því vera bandarísk í kosningabaráttu mannsins síns. Hún þarf heldur betur að fara í gegnum uppstokkun til að bæta stöðu sína, ná traustari stöðu sem konan á vaktinni.

Hlutverk forsetafrúar Bandaríkjanna hefur lengst af verið hið sama. Þar er jafnan konan við hlið eiginmannsins sem sér um heimilið og hlúir að forsetabústaðnum. Á þessu hafa þó verið undantekningar. Nancy Reagan og Hillary Rodham Clinton voru konur sem höfðu mikil pólitísk áhrif á forsetavakt. Verði Michelle Obama forsetafrú Bandaríkjanna og stenst prófið mikla bætist hún í þann flokk en verður ekki forsetafrú ala Laura Bush.


mbl.is Michelle Obama ræðir fjölskylduna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sporðdrekinn

Áfram Michelle! Við treystum á þig.

Sporðdrekinn, 26.8.2008 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband