Söguleg stund - Obama útnefndur forsetaefni

Barack Obama
Fyrir nokkrum mínútum útnefndi flokksþing Demókrataflokksins í Denver í Colorado Barack Obama sem forsetaefni flokksins í forsetakosningunum eftir 68 daga, þriðjudaginn 4. nóvember nk. Þetta eru söguleg tímamót í bandarískum stjórnmálum. Obama er fyrsta þeldökka forsetaefnið í sögu Bandaríkjanna og verður næstyngsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri. Aðeins John F. Kennedy var yngri, en hann var 43 ára gamall er hann var kjörinn forseti árið 1960.

Eftir kosningu á gólfinu í þingsalnum í Pepsi Center-íþróttahöllinni í tæplega klukkustund þar sem bæði Obama og Hillary höfðu verið útnefnd af stuðningsmönnum sínum og fengið atkvæði fylkjanna steig Hillary Rodham Clinton fram þegar röðin kom að New York og dró sig út úr kosningunni og bar fram tillögu um að Obama yrði forsetaefni demókrata án frekari kosningar. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar og þingforseti, bar tillöguna upp og var hún samþykkt samhljóða.

Hillary færir Obama útnefninguna
Með þessu hefur Hillary tryggt endanlega flokkssamstöðuna sem hún talaði fyrir í gær. Staða hennar hefur styrkst mjög í gegnum þetta ferli. Hún hefur lagt sig fram um að vinna að flokkshag umfram allt annað, stendur við dílinn - kemur út úr þessu ferli sem viss táknrænn sigurvegari. Hún hefur ekki skaðast sem stjórnmálamaður á tapinu í forkosningunum, hefur mikil pólitísk áhrif og heldur styrkleika sínum. Með framgöngu sinni í kvöld tryggir hún sig aftur sem forsetaefni ef Obama tapar.

Þegar að blökkumannaleiðtoginn dr. Martin Luther King lést fyrir fjórum áratugum átti hann sér draum um samfélag þar sem litaraft skipti ekki máli og þeldökkir hefðu sömu tækifæri í lífinu og hvítir. Sú barátta kostaði hann lífið. Á þessum sögulega degi í bandarískum stjórnmálum hefur Barack Obama látið drauma baráttumannsins frá Atlanta rætast með því að ná útnefningu Demókrataflokksins. Þetta eru söguleg tímamót.

Fyrir aðeins átta til tíu árum hefði engum órað fyrir því að fyrir lok fyrsta áratugar 21. aldarinnar myndi þeldökkur forsetaframbjóðandi ná alla leið í forkosningaferli stóru flokkanna, hljóta atkvæði hvítra kjósenda um gervöll Bandaríkin og sverja embættiseið sem valdamesti maður heims. Ef marka má kannanir er þó hvergi nærri öruggt að Obama nái alla leið og spennandi kosningaslagur framundan.

Á morgun eru 45 ár liðin frá því að dr. King tjáði draumsýn sína í Washington í hinni frægu ræðu. Á þeim degi þiggur Obama formlega útnefninguna. Í og með er það kaldhæðnisleg tilviljun, enda var tímasetningin þingsins ákveðin nokkru áður en Obama náði útnefningunni. Nú tekur þá alvaran við. Hálfur sigurinn er aðeins unninn fyrir demókrata og Obama - mikið verk er eftir. Kannanir sýna að ekkert er öruggt.

Sigur Obama í kvöld eru engin stórpólitísk tíðindi - löngu var vitað hvernig myndi fara. Þetta eru þó umfram allt söguleg tímamót. Hillary hefur í verki tryggt sameinaðan flokk. Nú er það Obama að sýna hvort hann hafi það sem þarf til að leiða draum dr. Kings allt á leiðarenda; í Hvíta húsið - blökkumaður verði valdamesti maður heims.

mbl.is Demókratar útnefna Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband