Flokksþing demókrata í Denver: 3. dagur

Jill og Joe BidenFlokksþing demókrata heldur áfram í kvöld í Denver. Í gær var reynt að tala upp samstöðuna. Hillary Rodham Clinton talaði flokksmenn saman með fítonskrafti og auk þess sóttu þungavigarmenn í flokknum að John McCain af mun meiri krafti en fyrsta þingkvöldið, þar sem mörgum fannst vanta markvissa pólitíska baráttu gegn andstæðingnum í kosningunum.

Hillary Rodham Clinton innsiglaði síðan endanlega samstöðu innan flokksins af sinni hálfu nú síðdegis og stóð við sinn hluta dílsins með því að gefa eftir rúmlega 1700 þingfulltrúa sína sem hún vann í forkosningunum. Þeir eru nú frjálsir að því leyti að þeir eru ekki bundnir henni að neinu leyti og geta kosið eins og þeir vilja í hinni formlegu útnefningakosningu, fylgja aðeins eigin sannfæringu. Bæði er það vottur um samstöðu og stuðning við Obama. Nú reynir á hversu margir hlýða samstöðukallinu frá Hillary.

Spunameistarar demókrata töldu annað kvöldið mun betur heppnað en það fyrsta, enda meiri pólitískur þungi og minna um pólitískt glys. Kannanir hafa ekki breyst mikið meðan þingið hefur staðið. Enn er staðan jöfn og sumar kannanir sýna forskot John McCain. Val á varaforsetaefni hefur ekki haft neitt að segja, skv. könnunum. Í kvöld fær valkostur Obama í baráttu næstu 70 dagana að tala og eins mun Bill Clinton reyna að tala upp þá samstöðu sem kona hans talaði um í gærkvöldi.

Förum yfir nokkra lykilpunkta þriðja þingkvöldsins.

- Formleg kosning á forseta- og varaforsetaefni Demókrataflokksins fer fram. Barack Obama verður þá formlega fyrsti þeldökki forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna sem nær útnefningu sem forsetaefni hjá stóru flokkunum. Hann náði útnefningunni í síðustu forkosningunum 3. júní en fær loks sess sem forsetaefni í kvöld.

Þar sem Hillary Rodham Clinton hefur gefið eftir kjörmenn sína má búast við samstöðukosningu, þar sem Barack Obama fær mun fleiri atkvæði en hann vann í hinum sögulegu forkosningum. Þá kemur endanlega í ljós hversu mikil samstaða er í flokknum og hversu margir styðja Hillary þrátt fyrir að hún hafi gefið eftir atkvæði sín.

- Varaforsetaefnið Joe Biden flytur formlegt útnefningarávarp sitt. Þetta verður þýðingarmesta ræða hins 65 ára gamla öldungadeildarþingmanns frá Delaware á ferlinum. Væntanlega mun hann þar afhjúpa hlutverk sitt í kosningabaráttunni, sem varðhundur framboðsins í árásum og átakapunktum gegn John McCain.

 Auk þess mun Biden reyna að tala sig upp í það hlutverk að vera hinn sterki stjórnmálamaður við hlið Obama, með reynsluna og kraftinn. Hann þarf að selja bandarískum kjósendum þá ímynd sína að vera hinn trausti reynsluhlekkur hins óreynda forsetaframbjóðanda í átökum næstu 70 dagana.

- Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, mun flytja ávarp. Beðið hefur verið eftir ræðunni mjög lengi. Hann var ósáttur með að vera úthlutað því að tala aðeins um þjóðaröryggismál og búist er við að hann muni gera það að engu og fara yfir víðan völl, sýna með því sjálfstæði sitt.

Auk þess er talið að Clinton muni tala sig upp úr átakamálum forkosningabaráttunnar þar sem eiginkona hans tapaði. Í gegnum samstöðutal muni hann minna á hversu vel hann skildi við samfélagið fyrir átta árum og bera saman við stöðuna nú, sér í vil.

- John Kerry, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts og forsetaefni demókrata árið 2004, mun flytja ávarp, auk þess Harry Reid, meirihlutaleiðtogi demókrata í öldungadeildinni og þingmaður í Nevada. Auk þess tala Evan Bayh, öldungadeildarþingmaður í Indiana, og Jay Rockefeller, öldungadeildarþingmaður í Vestur-Virginíu.

- Barack Obama kemur til Denver í kvöld. Hann hefur verið á ferð um nokkur lykilfylki síðustu dagana og fylgst með flokksþinginu úr fjarska. Nú þegar sögulegt útnefning hans er í sjónmáli kemur hann loksins á flokksþingið og verður sýnilegur þar. Útnefningarræðan er á morgun.

- Richard Daley, borgarstjóri í Chicago í Illinois, flytur ávarp. Auk þess tala Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, öldungadeildarþingmaðurinn Jack Reed og James Clyburn, fulltrúadeildarþingmaður í S-Karólínu.


Þetta verður kvöldið þar sem sagan er mörkuð með sögulegri kosningu á þeldökku forsetaefni og þar sem gráhærðir þrautreyndir menn í stjórnmálum, tveir menn sömu kynslóðar, bregða sér í ólík hlutverk. Annar talar upp samstöðu en hinn kynnir sig í nýju hlutverki og reynir að ná þeim sess að verða á forsetavakt næstu árin.

Þetta verður sannarlega áhugavert kvöld þar sem mun koma endanlega í ljós hvort samstaða demókrata sé staðreynd eða aðeins orðin tóm.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband