28.8.2008 | 22:17
Flokksþing demókrata í Denver: 4. dagur
Komið er að lokakvöldi flokksþings demókrata í Denver og því mikilvægasta. Í nótt mun Barack Obama formlega þiggja útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins og verða fyrsta þeldökka forsetaefnið í bandarískri stjórnmálasögu. Hann heldur tímamótaræðu á sínum stjórnmálaferli á Invesco-íþróttaleikvangnum í Denver þar sem tæplega 80.000 manns komast í sæti og kynnir áherslur sínar á lokaspretti kosningabaráttunnar.
Staðan í kosningabaráttunni nú er önnur en demókratar eflaust stefndu að þegar Barack Obama náði útnefningu flokksins 3. júní. Hann hefur ekki forskot í könnunum, virðist ekki hafa náð neinni marktækri fylgisaukningu á valinu á Joe Biden sem varaforsetaefni og virðist vera að missa stuðning hjá óháðum kjósendum. Í könnunum í þessari viku hafa frambjóðendurnir mælst annað hvort hnífjafnir eða John McCain hefur forystu.
Fyrst nú í dag sést einhver uppsveifla en hún er mjög hefðbundin miðað við að flokksþingið stendur. Þetta eru sláandi niðurstöður fyrir demókrata sem ættu að öllu eðlilegu að hafa mikið forskot miðað við að repúblikanar hafa ráðið Hvíta húsinu í tvö kjörtímabil og eiga óvinsælasta forseta Bandaríkjanna í sögu skoðanakannana. Þrátt fyrir allar kjöraðstæður demókrata til að klára þessar kosningar hefur John McCain raunhæfa möguleika á að sigra kosningarnar. Þetta eitt og sér hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir frambjóðanda breytinganna.
Barack Obama þarf í ræðu sinni ekki aðeins að kynna sig og áherslur sínar. Hann þarf að selja landsmönnum framboðið sem hann leiðir, bæði sig og Biden. Eins og kannanir standa núna þarf Obama að tala hreint út um lykilmál, utanríkis- og efnahagsmál, það sem mestu skiptir fyrir demókrata að tækla í þessari stöðu. Hann má heldur ekki missa sig í tæknilegu blaðri um smáatriði. Barack Obama þarf að skipta um gír, ekki aðeins kynna sig sem frambjóðanda breytinganna heldur og mun frekar sýna að framboðið hafi reynslu til að taka við á fyrsta degi.
Förum yfir nokkra lykilpunkta fjórða og síðasta þingkvöldsins.
- Barack Obama flytur ræðu á Invesco-íþróttaleikvangnum og þiggur útnefninguna. Leggur línurnar fyrir lokasprett kosningabaráttunnar, kynnir sig og áherslur sínar. 45 ár eru í dag liðin frá hinni sögulegu ræðu dr. Martin Luther King í Washington þar sem hann tjáði draumsýn sína um jafna stöðu hvítra og þeldökkra. Því munu sagnfræðilegir tónar eflaust einkenna ræðu Obama um leið og hann horfir til framtíðar - talar um breytingarnar sem hann vill tryggja í Washington.
- Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna, flytur ávarp. Gore hlaut fleiri atkvæði en George W. Bush á landsvísu í forsetakosningunum 2000 en tapaði kosningunum í kjörmannasamkundunni eftir sögulega baráttu fyrir 25 kjörmönnum Flórída í dómstólum í fylkinu og Hæstarétti Bandaríkjanna. Gore er traust söguleg tenging við fyrri tíma innan Demókrataflokksins, er mikils metinn innan flokksins og á alþjóðavettvangi sem stjórnmálamaður og friðarverðlaunahafi Nóbels.
- Framlags Dr. Martin Luther King í sögu Bandaríkjanna verður minnst á afmælisdegi draumaræðunnar margfrægu. Sýnd verður myndklippa um dr. King. Börn Dr. Kings, Martin Luther King III og Bernice King munu heiðra minningu föður síns.
- Howard Dean, formaður Demókrataflokksins, og Bill Richardson, ríkisstjóri í Nýju-Mexíkó, munu flytja ræður.
- Tim Kaine, ríkisstjóri í Virginíu, ávarpar þingið. Mikið var rætt um Kaine sem varaforsetaefni. Demókrati hefur ekki sigrað í Virginíu síðan Lyndon B. Johnson var kjörinn árið 1964.
- Dick Durbin, öldungadeildarþingmaður fyrir Illinois - vinur og félagi Barack Obama árum saman, mun flytja ræðu og kynna Barack Obama.
- Vegleg tónlistaratriði verða flutt. Stevie Wonder og Sheryl Crow munu syngja. Auk þess mun óskarsverðlaunaleikkonan Jennifer Hudson syngja þjóðsönginn.
Þetta verður eflaust veglegt og eftirminnilegt kvöld, bæði fyrir demókrata og alla áhugamenn um stjórnmál. Mikilvægt er fyrir demókrata að ljúka þinginu með stæl. Obama þarf að kynna sig og áherslur sínar af krafti, sýna kontrastana á sér og McCain, auk þess sýna kjósendum bæði eitthvað nýtt og eftirminnilegt, ofan á stjörnuljómann og nýjabrumið sem færði honum útnefninguna.
Sumir hafa reyndar gagnrýnt Obama mjög fyrir umgjörðina á Invesco-leikvanginum. Þar hefur verið reist mikil sviðsmynd sem helst minnir á grískt hof og heilaga biblíuumgjörð. Spunameistarar á vegum demókratar óttast mest að augnablikið mikla fyrir Obama springi framan í hann og almennir kjósendur telji þetta bruðl og hann fjarlægist enn frekar venjulegt fólk.
Öllu mánudagskvöldinu var varið í að kynna hann sem venjulegan mann og færa hann niður á jörðina, hann væri einn af fólkinu en ekki elítumaður. Messíasarumgjörð kvöldsins gæti fælt einhverja frá. En er á hólminn kemur er þetta allt undir Obama komið. Hann þarf að toppa sig í kvöld og veit það mætavel.
McCain hrósar Obama | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.8.2008 kl. 00:07 | Facebook
Athugasemdir
Hvernig nennir þú þessu....almáttugur
Jón Ingi Cæsarsson, 28.8.2008 kl. 23:46
Nú var ég ekki svo mikill repúblikani? Aumingja þú Jón minn. Ég hef áhuga á þessu, alltaf haft áhuga á bandarískri pólitík og vil skrifa um þetta. Þú ræður svo hvort þú lest.
Stefán Friðrik Stefánsson, 28.8.2008 kl. 23:49
hehe.... ég nenni því alveg en furða mig á úthaldinu að nenna að skrifa um Bandaríkin og stjórnmálin þar.... Bandaríkin hafa aldrei höfðað til mín að neinu marki.
Jón Ingi Cæsarsson, 29.8.2008 kl. 00:50
Halli gamli þakkar fyrir þessar góðu og fínu upplýsingar,þær eru frábærar/þessar kosningar taka öllu fram,heimurinn fylgist með þessu af miklum áhuga /maður hefur verið þarna við 6 kosningar forseta USA en þvi miður ekki núna/en við flest viljum breytingar þarna/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 29.8.2008 kl. 13:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.