Óstaðfest: Sarah Palin varaforsetaefni McCain

Sarah Palin Óstaðfestar sögusagnir herma að John McCain hafi valið Söruh Palin, ríkisstjóra í Alaska, sem varaforsetaefni sitt. Enn hafa engar traustar staðfestingar fengist á valinu, en því er haldið sem algjöru hernaðarleyndarmáli hver verði valinn og kynntur í Ohio nú síðdegis. Miklar sögur um næturflug Palin til Ohio með einkaflugvél hafa lekið út og hefur algjörum leyndarhjúp verið slegið um ferðina á meðan sumir fullyrða að Palin sé enn í Alaska.

Mér finnst það mjög merkileg ákvörðun hjá John McCain ef það er rétt að Sarah Palin verði varaforsetaefnið. Með því slær hann á traustustu valkostina í stöðunni; Romney og Pawlenty og fer sínar eigin leiðir. Velur konu, unga og trausta konu sem hefur ekki verið lengi á sviðinu en nýtur mikillar virðingar. Það eitt að McCain velji konu mun verða stórmerkilegt ef satt er. Aðeins ein kona, Geraldine Ferraro, hefur áður náð í forystu forsetaframboðs í sögu Bandaríkjanna.

Palin er 44 ára gömul, varð ríkisstjóri í Alaska með því að fella sitjandi ríkisstjóra repúblikana í forkosningum og síðan sigra fyrrum ríkisstjóra demókrata í sögulegri kosningu. Hún er fimm barna móðir, á þar af eitt barn með Downs heilkenni og ákvað að eiga það þrátt fyrir að vita um það. Hún er traust íhaldskona og myndi fara létt með að færa McCain íhaldsfylgið sem hann vantar að tryggja sér.

Ef John McCain velur konu með sér er það söguleg ákvörðun. Hún yrði fyrsta konan í framboði fyrir Repúblikanaflokkinn í forsetakjöri og myndi tryggja sig sem traust forsetaefni síðar. Þetta færir John McCain gullið tækifæri til að ná kvennafylginu og það sem meira er; ná óánægðum kjósendum Hillary Rodham Clinton á sitt band.

McCain fer langt með að vinna þessar kosningar bara með því að gera það sem Obama þorði ekki, velja konu með sér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband