Flokksþing repúblikana í St. Paul: 2. dagur

Sarah Palin Flokksþing repúblikana heldur áfram í kvöld í St. Paul. Förum yfir nokkra lykilpunkta annars þingkvöldsins.

- Formleg kosning á forseta- og varaforsetaefni Repúblikanaflokksins fer fram. John McCain verður þá formlega elsti forsetaframbjóðandinn í sögu Bandaríkjanna sem nær útnefningu sem forsetaefni hjá stóru flokkunum og Sarah Palin fyrsta konan sem er útnefnd varaforsetaefni í nafni Repúblikanaflokksins.

- Varaforsetaefnið Sarah Palin flytur formlegt útnefningarávarp sitt. Þetta verður þýðingarmesta ræða hins 44 ára ríkisstjóra frá Alaska, konunnar við hlið John McCain í þessu framboði og eina konan í þessum forsetakosningum. Hún verður að kynna pólitískar áherslur sínar, hver hún sé og hvaðan hún komi og síðast en ekki síst ná að tækla árásir gegn henni á síðustu dögum.

- Mitt Romney, fyrrum ríkisstjóri í Massachusetts, flytur ávarp. Hann var lengi vel talinn öruggur um að verða varaforsetaefnið en hann háði harkalega baráttu við McCain um útnefningu flokksins. McCain valdi hann ekki en væntanlega bíður Romney á hliðarlínunni og stefnir að framboði síðar, þó hann tali upp McCain og Palin. Talið er að hann muni ráðast harkalega að Obama-hjónunum, einkum Michelle í ræðu sinni.

- Rudy Giuliani, fyrrum borgarstjóri í New York, flytur lykilræðu flokksþingsins. Allt síðasta ár leit út fyrir að Giuliani yrði forsetaefni repúblikana en hann vann að lokum engar forkosningar og hætti baráttu sinni eftir forkosningarnar í Flórída, þar sem lagði allt undir og fékk mikinn skell. Hann lýsti þá þegar yfir stuðningi við McCain og hefur leikið stórt hlutverk í baráttu hans, farið í mörg viðtöl og verið áberandi í innsta hring hans síðustu mánuði. Talið er öruggt að hann muni ráðast að Barack Obama og jafnvel setja hakkavélina í gang af krafti. Talið er að hann gangi lengst allra í að ráðast að Obama.

- Mike Huckabee, fyrrum ríkisstjóri í Arkansas, flytur ávarp. Huckabee vann forkosningarnar í Iowa í janúarbyrjun og tókst að vinna nokkrar forkosningar í baráttunni og hélt henni áfram allt þar til McCain náði útnefningunni í marsmánuði. Hann tók slaginn lengra en margir áttu von á og fór að lokum í taugarnar á McCain, sem velti aldrei fyrir sér þeim möguleika að Huckabee yrði varaforsetaefnið.

- Meg Whitman og Carly Fiorina flytja ávörp. Báðar hafa verið áberandi í starfsliði McCain í baráttunni og voru báðar orðaðar við að verða varaforsetaefni. Whitman var virk í starfsliði Mitt Romney þar til hann dró framboð sitt til baka í febrúar.


Þetta verður kvöldið þar sem sagan er mörkuð með sögulegri kosningu á fyrstu konunni í forsetaframboð af hálfu repúblikana. Og áður en hún gerir sviðið að sínu á stærstu stund ferilsins munu þrautreyndir menn innan flokksins taka slaginn við Obama og jafnvel ganga mjög langt í árásum á hann.

Þetta verður sannarlega áhugavert kvöld þar sem mun virkilega reyna á Söru Palin og hversu traustur ræðumaður og stjórnmálamaður hún er. Palin þarf að flytja trausta ræðu og tala af krafti til að slá við skítkasti gegn henni síðustu dagana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband