Fjölmiðlastríð í skugga Breiðavíkurharmleiks

Ég verð að segja það alveg eins og er að mér mislíkar mjög að horfa á fjölmiðlastríðið sem hafið er á milli Breiðavíkurdrengjanna og forsætisráðuneytisins. Mér finnst þetta mál sorglegra en svo að það sé deiluefni milli stjórnvalda og þeirra sem máttu þola hreint helvíti, óskiljanlegt ofbeldi og barsmíðar í viðkvæmri æsku sinni. Kominn er tími til þess nú að stjórnvöld geri vel við þá sem máttu þola þetta helvíti og klári málið með sóma en ekki því að hefja fjölmiðlastríð.

Finnst mjög leitt að enn hefur það ekki gerst að stjórnvöld hafi beðið formlega afsökunar á því ógeði sem gerðist í Breiðavík í nafni betrunarvistar fyrir brothætt ungmenni sem fóru úr einu helvítinu í annað miklu verra, allt í nafni þess að það ætti að koma skikki á líf þess. Ógeðið er verra en orð fá lýst og mikilvægt að þessu sorglega máli, harmleiknum sem átti sér stað í skjóli íslenska ríkisins, ljúki svo að allir geti verið sáttari en var áður en málið var opinberað.

Aldrei verður hægt að lækna öll sár en óþarft er að rífa sár fortíðarinnar upp með þeirri ónærgætni og kuldalegheitum sem einkennir skeytasendingar milli aðila síðustu dagana. Ég er einn þeirra sem lít ekki á þetta mál sem eitt málanna í staflanum hjá stjórnvöldum. Þetta er verra en orð fá lýst og mikilvægt að það fái sess við hæfi. Og mikilvægt er að þeir sem þurftu að upplifa þetta helvíti geti gert upp málið og fái viðeigandi skaðabætur.

Ég gleymi aldrei Kastljósþættinum þar sem hulunni var svipt af þessu skelfilega máli. Það var bæði ógleymanlegt og svo innilega sorglegt augnablik að upplifa. Æ síðan hef ég velt fyrir mér hvort ríkið muni ekki bæði biðja þessa menn afsökunar og borga þeim mannsæmandi skaðabætur til að reyna að bæta fyrir að þeir voru lagðir í rúst. En það vakna spurningar þegar svona er komið málum.

Nú er kominn tími til að klára þetta mál með sóma - ekki verður það gert með því að ýfa upp hin gömlu sár fortíðarinnar.

mbl.is Harma framgöngu forsætisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Æi Stefán minn, getum við ekki hætt að tala um þetta mál! Ég sé hérna á viðbrögðum nokkurra Sjálfstæðismanna að þeim finnst nú þetta vera leiðinda umræða.

Enda finnst honum Geir ósmekklegt að vera að leka þessu út í fjölmiðla. "Af hverju töluðu þeir ekki við okkur fyrst?"- spurði hann voða sár.

Enginn einn stjórnmálaflokkur bar ábyrgð á þessum sorgaratburði í samfélagi okkar. Hinsvegar er málið nú á borði ríkisstjórnar Geirs Haarde til uppgjörs. Og þjóðin mun fylgjast vel með lyktum þess. Þetta mál er nefnilega stærðarmæling á mannslund og samfélagsþroska þeirra sem um það fjalla nú. 

Árni Gunnarsson, 5.9.2008 kl. 00:50

2 Smámynd: Páll Rúnar Elíson

Vel mælt takk fyrir það.

Breiðavíkur málið er stórt mál og hvernig það verður skráð    Sagnfræðilega í þjóðarbók okkar Íslendinga á eftir að koma í ljós Þetta verður alltaf ljótur blettur á sögu okkar,því er það mikilvægt að á þessu verði tekið með ábyrgð og mannsgæsku að leiðarljósi.

Hv Pallielis. 

Páll Rúnar Elíson, 5.9.2008 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband