John McCain fer í landsföðurhlutverkið í St. Paul

John McCain Komið er að lokakvöldi flokksþings repúblikana í St. Paul og því mikilvægasta. Í nótt mun John McCain formlega þiggja útnefningu sem forsetaefni Repúblikanaflokksins. Hann heldur mikilvægustu ræðu stjórnmálaferilsins í Xcel-íþróttahöllinni. Verkefni hans er að kynna sig sem umbótamann sem færir flokkinn í nýjar áttir, sýnir sjálfstæði við óvinsælan forseta án þess þó að stuða íhaldsarminn í flokknum.

McCain verður elsti forseti Bandaríkjanna ef hann nær kjöri eftir sextíu daga; 72 ára gamall og þarf í ræðu sinni að sýna að hann sé kannski gamall í árum en ungur í anda og sé tilbúinn í verkefnið og hafi reynsluna sem þurfi. Eins og sést hefur í gegnum allt flokksþingið er reynslan hans mikilvægasti styrkur og auðvitað verið fjallað um hana allt frá fyrstu ræðunni í höllinni og hann mun sjálfur kóróna þann mikilvægasta kjarna í röksemdum fyrir því að landsmenn treysti honum fyrir Hvíta húsinu.

Er mest spenntur yfir því að sjá hvað hann segir um Barack Obama. Hef grun um það að hann muni frekar tala um áherslur sínar og gera mikið úr reynslu sinni sem forsetaefnis frekar en ráðast mjög að Obama sem slíkum. Palin tók greinilega það verkefni að sér síðustu nótt. McCain mun reyna að vera landsföðurlegur og höfða til kjósenda sem hinn trausti reynslujaxl á mikilvægum tímum.

Verður líka áhugavert að sjá hvort hann tali eitthvað um Bush forseta. Varla hefur verið minnst einu orði á forsetann á flokksþinginu. Sjálfur var hann mjög fjarlægur og sást aðeins í nokkurra mínútna ræðu frá Hvíta húsinu. Annars er eins og hann sé ekki til. Þetta er augljóslega nálgun McCain á stöðu forsetans. Tala eins og hann sé ekki þarna og reyna að sýna fólki hvað hann geti nú gert þetta vel án þess að vera að flækja Bush-árunum átta í stöðuna.

Merkilegt spil. Fróðlegt að sjá hvort það virkar. Ekki er um það deilt að McCain er miklu landsföðurlegri en Bush og miklu reyndari í alþjóðastjórnmálum. Hann þarf enga starfsþjálfun í forsetaembættið og mun auðvitað sýna sig sem reynsluboltinn mikli á örlagaríku kosningaári.

Þetta verður eflaust veglegt og eftirminnilegt kvöld, bæði fyrir repúblikana og alla áhugamenn um stjórnmál. Mikilvægt er fyrir repúblikana að ljúka þinginu með stæl. McCain þarf að tækla helstu lykilmál baráttunnar og sýna að hann er ekki framlengingarsnúra á Bush-árin átta.

Því má búast við að hann sýni sjálfstæði við þá sem ráða för í Hvíta húsinu og hann hafi kraft til að gegna embættinu þó hann sé á áttræðisaldri. Þetta er það sem hann þarf að tækla fyrst og fremst.

mbl.is Ávarpar flokksþingið í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Það hefur lítið farið fyrir the maverick McCain. Hann virðist hafa látið mikið af sínum stefnumálum í æ stækkandi minnipokann og ljóst að hinn evangelíski en háværi minnihluti flokksins hefur svínbeygt hann til hlýðni. Sennilega er um að kenna hækkandi aldri og lönguninni eftir hásætinu. 

Hlustaði á góðan þátt á National Public Radio í dag þar sem talað var við einn þeirra sem ritað hefur ævisögu McCain. Honum fannst æ minna eftir af sjálfstæði hans og þeim góða eiginleika að geta teygt sig yfir miðlínuna til andstæðinga sinna og æ meira bergmál frá hægri kantinum. Val hans á nær algerlega óreyndum og ákaflega afturhalsdssinnuðum ríkisstjóra útnárans Alaska vekur spurningar um hvort maðurinn sé virkilega fær um að stjórna Bandaríkjunum og vekur mann til umhugsunar um hvort hætta sé á 4 ára framlengingu Bush-Cheney-Rove júntunnar.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 5.9.2008 kl. 04:11

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð grein hjá þér, Stefán Friðrik, þú hefur staðið þig vel í fréttaskýrandahlutverkinu. Um ræðu McCains í nótt/gærkvöldi fjalla ég í þessum stutta pistli á Vísisbloggi, en ýtarlegar hér á Moggabloggi: McCain reynir að ná til miðjunnar, í anda sátta, samvinnu og breytinga. – Með kveðju og þökk til þín – og góðri kveðju til míns venzlamanns Þorvarðar.

Jón Valur Jensson, 5.9.2008 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband