Súmmering: Stjörnustund repúblikana í St. Paul

John McCain og Sarah Palin
Annað kvöldið á flokksþingi repúblikana var mikil stjörnustund fyrir flokk sem flestir töldu fyrir nokkrum misserum að væri dæmdur til að tapa forsetakosningunum á þessu ári vegna óvinsæls forseta og slæmrar stöðu í efnahagsmálum. Val John McCain á varaforsetaefni hefur heppnast mjög vel - Sarah Palin var hinn stóri sigurvegari flokksþingsins og kom með stjörnuljóma og ferskleika á flokksþingið. Athyglin er öll á henni. Nú velta bandarískir kjósendur því fyrir sér af alvöru hvor verði fyrsti kvenforseti í sögu Bandaríkjanna; Hillary Rodham Clinton eða Sarah Palin.

Frúin frá Alaska átti þetta kvöld algjörlega. Og samkvæmt könnun CBS í kvöld er McCain búinn að vinna upp forskot Barack Obama eftir flokksþing demókrata. Ótrúlegur viðsnúningur. Kannanirnar eru þó ólíkar og sýna misjafna stöðu. Allt stefnir þó í spennandi forsetakosningar. Valið á Palin er orðið að þáttaskilum í kosningabaráttunni. Hún hefur þann ljóma og ferskleika sem McCain sárlega vantaði. Honum vantaði ekki margra áratuga reynslu í Washington eins og Obama þegar hann valdi varaforsetaefni. Hann tók áhættu en virðist hafa lagt vel undir.

Förum yfir helstu punkta annars þingkvöldsins í St. Paul.

Palin-fjölskyldan
- Sarah Palin kom, sá og sigraði. Þvílík ræða. Andstæðingar eru enn í losti eftir stjörnustundina hennar. Allt í einu eru rök vinstrisinnuðu og frjálslyndu bloggaranna um reynsluleysi hennar og hún geti ekki haft áhrif á kosningabaráttuna fokin út í veður og vind. Þegar er farið að líkja henni við tvíeykið magnaða Reagan og Thatcher. Einn sagði að hún væri Margaret Thatcher með Klondike-hreim og í fjölskylduvænni útgáfu og Michael Reagan, sonur Reagans forseta, sagðist sjá föður sinn endurborinn í henni. Skrifaði grein á vef sinn undir yfirskriftinni Welcome Back Dad.

Og það var auðvitað mikil stund þegar Palin var á sviðinu með fjölskyldu sinni; fimm börnum, tengdasyni (sem er orðinn heimsfrægur á tveim til þremur dögum) og eiginmanninum. Hin fullkomna bandaríska fjölskylda sem á sín vandamál og áskoranir eins og allir í þessum heimi. Sarah Palin hélt á fimm mánaða gömlum syni sínum sem er með Downs-heilkenni og bræddi hjörtu allra með frammistöðu sinni. Þegar McCain spurði þingfulltrúa hvort hann hefði ekki valið rétt varaforsetaefni ætlaði þakið að fara af höllinni. Slík voru fagnaðarlætin.

Mike Huckabee
- Þrír reynslujaxlar innan flokksins fluttu frábær ávörp. Mike Huckabee var alveg frábær og átti línu kvöldsins áður en stjarnan Palin kom á svið. Hann sagði með hæðnisglotti að Sarah Palin væri alls ekki óreynd; hún hefði eftir allt saman fengið fleiri atkvæði sem bæjarstjóri í Wasilla í Alaska en Joe Biden fékk til að verða forseti Bandaríkjanna í forkosningum demókrata. Killer lína, algjörlega eitruð í gegn. Huckabee er einlægur og traustur ræðumaður. Með einlægum stíl tók hann sviðið og sannaði að engin tilviljun var að hann náði einhverjum árangri í forkosningunum.

Rudy Giuliani
- Rudy Giuliani var algjörlega frábær. Það sem karlinn var eitraður og pottþéttur. Hann hakkaði Obama í sig, hafði einlæglega gaman af því og var með hárfínar og magnaðar setningar. Á góðum degi er Rudy Giuliani einn besti ræðumaður í heimi. Hann sýndi alla sína bestu takta og minnti okkur á hversu traustur hann er. Þetta er jú maðurinn sem hélt utan um New York á örlagastundu þegar tvíburaturnarnir féllu. Hann er kannski gloppóttur en það er jú Bill Clinton líka. Ekki verður því neitað að karlinn er traustur og fáir betri en hann að tala um aðalatriðin.

Mitt Romney
- Mitt Romney náði ekki forsetaembættinu þrátt fyrir alla peningana sem hann á. Ræðan hans í St. Paul sýndi okkur af hverju. Hann er sjarmerandi maður en þó mjög gloppóttur og getur gert mikil pólitísk mistök. Þetta var ekki sérstaklega góð ræða, þó inn á milli væru hinir ágætustu punktar. Fannst hann langsístur af þremenningunum. Held að McCain sjái ekki átakanlega eftir því að hafa sleppt því að velja Romney sem varaforsetaefni.

McCain-Palin
- John McCain var svo formlega útnefndur forsetaefni flokksins eftir ræðu Söru Palin. Loksins tókst McCain að ná á leiðarenda í því verkefni að fá stuðning flokksins og er í seilingarfjarlægð við Hvíta húsið. Hann háði eftirminnilega rimmu við George W. Bush fyrir átta árum og tapaði eftir eitt eftirminnilegasta áróðursstríð seinni tíma í bandarískum stjórnmálum. Þrátt fyrir að vera talinn af framan af baráttunni náði hann útnefningunni og nú reynir á hvort hann komist alla leið. Hann kom fram á sviðið í blálok kvöldsins og leið greinilega vel með Palin.


Flokksþing repúblikana hefur gengið vel. Þar hefur tekist að koma með alvöru pólitík og tala hreint út um málin. Pólitíski tónninn er miklu beittari á flokksþingi repúblikana en hjá demókrötum. Þarna er komið beint að efninu og ráðist á andstæðinginn án hiks. En framundan er stóra stundin. John McCain mun eiga erfitt með að toppa Söru Palin, svo mikið er víst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorvarður Ragnar Hálfdanarson

Ég er nú ekki alveg eins bergnuminn og þú yfir ræðunum. Þetta var að mestu hefðbundinn ræðumennska úr horni the Grand Old Party, afurð the Republican Noise Machine. Fáir deila með þér aðdáun þinni á Giuliani. Þrátt fyrir nokkurn árangur gegn glæpum í NY þá stendur Giuliani uppi sem rotinn og spilltur hagsmunapotari. Hann talar fjálglega um 9/11 en segir lítið um áhugaleysi sitt til að vernda heilsu þeirra sem unnu í rústunum eða bjuggu nálægt Ground Zero.

Það sem vantaði í ræðurnar og vantaði sárlega voru málefni. Það fer ekki fram hjá okkur sem búum hér ytra að fólkið á götunni hefur áhyggjur af versnandi efnahagsástandi, krísu á húsnæðismarkaði, óhóflegu bruðli í Írak og hækkandi heilbrigðistryggingum. Á þetta var lítið minnst og ljóst að árásartaktík Repúblíkana er aðalmeðalið í þessum kosningum en málefnin skipta minna máli.

Niðurstaða: Mikil hávaði en lítið innihald.

Þorvarður Ragnar Hálfdanarson, 5.9.2008 kl. 04:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband