Framtíð Geirs í stjórnmálum ræðst í vetur

ghh3Mjög mun reyna á Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í vetur. Að mínu mati mun frammistaða hans á þeim tíma ráða því hversu lengi hann verði í stjórnmálum, hvort honum tekst að leiða Sjálfstæðisflokkinn út úr efnahagslægðinni og inn í næstu alþingiskosningar. Margar áskoranir blasa við flokknum, innri og ytri vandamál sem þarf að vinna úr áður en haldið verður í kosningar. Landsfundur eftir ár verður átakafundur um lykilmál að óbreyttu.

Greinaskrif Óla Björns Kárasonar í Þjóðmálum voru þörf og góð. Ég var sammála mjög mörgu í greiningu hans og skrifum. Eftir fimmtán ára veru í Sjálfstæðisflokknum fann ég samhljóm í mörgu því sem Óli Björn sagði, ekki aðeins um menn heldur og mun frekar um málefni Sjálfstæðisflokksins, stöðu mála á þessum örlagatímum. Ég fer ekki leynt með það að mér finnst flokkurinn hafa fjarlægst mig á síðustu mánuðum. Er ég svo sannarlega ekki einn um þá skoðun.

Mikilvægt á þessum tímapunkti er að mál síðustu mánaða verði gerð upp, ekki aðeins hjá fréttaskrifurum heldur og þeim sem hafa verið í innsta hring Sjálfstæðisflokksins um árabil. Slíkt er ekki veikleikamerki heldur styrkleikamerki fyrir okkur öll. Mikilvægt er að ólíkar raddir heyrist og öll átakamálin séu gerð upp. Óli Björn fer vel yfir styrkleikana og veikleikana nú.

Öllum er ljóst að mikil pólitísk mistök hafa verið gerð hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík síðasta árið, ekki síst alvarleg mistök af hálfu forystu Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Þetta hef ég margoft farið yfir í skrifum á þessum vef. Ég talaði alveg hreint út í þeim efnum, enda taldi ég að þögn væri fjarri því rétta úrræðið þá. Vandinn í borginni var heimatilbúinn, einkum þegar forystan greip ekki inn í hann.

Geir gerir rétt í því að koma fram og tala um málin á opnum fundi í Valhöll, hreint út og afgerandi. Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með hvernig Geir hefur komið fram, verið önugur og úr fókus stundum. Auðvitað eru þetta erfiðir tímar.

En það sem mestu skiptir er að leiðtogar þjóðarinnar tali til hennar í vandræðum, mun frekar en góðæristímum. Þjóðin verður að vita að einhver sé við stýrið þegar kreppir að.

Fyrir Geir skiptir máli að komast út úr þessum ólgusjó. Annað hvort taka landsmenn leiðsögn hans eða hafna henni í þessum ólgusjó. Þar ræðst framtíðin.

mbl.is Ekki rétt að tala um kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Hlustaði á Geir í gær, og dag í silfri Egils,mér finnst hann vera bara nokkuð góður i tilsvörum og svaraði bera flestu ef ekki öllu sem máli skiptir/Við verðum að flýta okkur hægt/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 14.9.2008 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband