McCain heldur forskotinu - hræðsla demókrata

John McCain og Sarah PalinJohn McCain hefur nú í tæpa viku haft forskot í baráttunni um Hvíta húsið. Hann hefur nú haft lengur forskot en svo að það megi bara teljast sem táknræn fylgissveifla vegna flokksþings repúblikana. Augljóst er að valið á Söru Palin hefur breytt gangi baráttunnar og ekki aðeins styrkt framboðið heldur Repúblikanaflokkinn almennt.

Æ augljósara verður að stjörnuframmistaða Söru Palin í St. Paul voru mikil þáttaskil í þessari kosningabaráttu. Haldi þau flugi næstu vikurnar er alveg ljóst að þau eiga góðan séns á að vinna Hvíta húsið. Nú hefur McCain náð forskotinu í kjörmannamælingunni á electoral-vote.com og mælist sem sigurvegari. Þetta er í fyrsta skiptið sem það gerist eftir að ég fór allavega að fylgjast með síðunni eftir að ljóst var hverjir myndu berjast um Hvíta húsið fram í nóvember.

Eins og staðan er núna hefur Obama aðeins náð tveimur fylkjum af repúblikunum frá því í forsetakosningunum 2004; Colorado og Iowa. Það gerir sextán kjörmenn. Staðan er núna þannig að McCain hefur 270 kjörmenn en Obama 268. Kosningunum 2004 lauk með því að Bush hlaut 286 en Kerry 252. Kerry missti reyndar einn, sem studdi John Edwards í kjörmannasamkundunni. Árið 2000 var þetta tæpt eins og allir muna; Bush með 271 en Gore 267. Hann lenti í því sama og Kerry, missti einn kjörmann.

Fjöldi demókrata var farinn að búast við því snemma í sumar að leiðin væri greið fyrir Barack Obama í Hvíta húsið. Gárungarnir segja að hann hafi verið farinn að velja gluggatjöldin í forsetaskrifstofunni. Hann nýtti sumarið illa og greinilegt er að fjöldi demókrata telja nú heimsreisu Obama í júlí, sem átti að vera til að hífa upp reynslu hans í utanríkismálum, mikil mistök. Svo er greinilegt að flestir telja valið á Joe Biden sem varaforsetaefni mikil mistök. Meira að segja Biden sjálfur hefur viðurkennt það. Með Hillary sér við hlið hefði Obama minnkað mjög líkurnar á að McCain veldi Palin og hefði rammað inn kvennafylgið.

Í þessari frétt á Politico er farið nokkuð vel yfir hræðslu demókrata við að hið sama og hefur gerst skuggalega oft áður sé að endurtaka sig; að Obama verði misheppnaður frambjóðandi frá Norðurríkjum Bandaríkjanna rétt eins og John Kerry og Michael Dukakis. Gleymum því ekki að báðir núlifandi forsetar Bandaríkjanna af hálfu demókrata komu úr suðurríkjunum; þeir Bill Clinton (Arkansas) og Jimmy Carter (Georgía). Svo er greinilegt að demókratar óttast að leikurinn frá 2000 og 2004 sé að taka á sig sömu mynd árið 2008, ári sem demókratar áttu að eiga sviðið.

Ég velti því reyndar fyrir mér hvernig fylgismælingarnar verði næstu vikuna. Haldi McCain forskotinu næstu sjö dagana er ljóst að staðan hefur breyst umtalsvert og þungamiðjan í baráttunni færst á Söru Palin frá Barack Obama. Því er ekki undarlegt að demókratar vilji stöðva sóknarþungann sem hún hefur fært forsetaframboði repúblikana. Obama hefur ekki verið vanur að vera í vörn í þessari baráttu og er eiginlega ekki mjög skemmtilegur í því hlutverki. Hann hefur virkað sem úr fókus og er að fóta sig í nýrri baráttu eftir að Palin kom inn á sviðið.

Þessi frétt á vef Financial Times vakti líka athygli mína; sú staðreynd að demókratar séu farnir að óttast að hnignandi gengi Obama fari að skaða demókrata í þingbaráttunni. Ótrúlegur viðsnúningur og merkilegt að finna hversu demókratar eru orðnir hræddir við að vera komnir í tapaðan slag. Bendi allavega á þessar tvær ágætu fréttir um hræðslu demókrata við stöðuna. Þær eru ekki aðeins áhugaverðar heldur upplýsandi um hvað gerist bakvið tjöldin. Flestir vilja heimildarmennirnir ekki tala undir nafni en eru orðnir óttaslegnir um framhaldið.

Kannski fer það svo að demókratar sjá mjög eftir því að hafa ekki valið frambjóðanda reynslunnar sem forsetaefni; sjálfa Hillary Rodham Clinton. Við getum átt von á því að þau fyrstu sem stökkvi fram ef Obama tapar eftir fimmtíu daga verði Clinton-hjónin. Þau verða ekki lengi að notfæra sér tómarúmið sem verður innan Demókrataflokksins ef Obama mistekst að ná í Hvíta húsið og munu minna alla þá sem sviku þau á viðkvæmum tímapunkti á hversu mikil drottinssvik það hafi verið.


mbl.is McCain með forskot á Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Prýðileg greining á stöðunni. En þú gleymir einu geysimikilvægu atriði: Kynþáttamálinu. Það er mjög útbreidd sjálfsblekking, ekki síst meðal margra hvítra, (vinstrisinnaðra) Bandaríkjamanna að sambúð kynþáttanna sé nú í hinu besta lagi. Staðreyndin er hins vegar, að allt logar undir niðri, þótt yfirborðið virðist slétt og fellt og það er ekki tilviljun að Ku Kux Klan styður Obama. Þeir vita, að verði hann kjörinn kemur þetta gamla, nánast óleysanlega vandamál aftur upp á yfirborðið af fullum þunga. Það er heldur ekki gefið, að margir þeirra hvítu, sem nú segjast styðja Obama muni í rauninni gera það, þegar í kjörklefann kemur. Mér sýnist einsýnt að Repúblikanar vinni þennan slag og valið á Palin var snilldarbragð.

Vilhjálmur Eyþórsson, 12.9.2008 kl. 21:39

2 identicon

þetta er orðin dálítið einleit umfjöllun hjá þér Stefán. Ég bið þig um að horfa á þetta myndband hér sem sýnir JOHN MCCAIN sjálfan nota frasann "you can put a lipstick on a pig, but it's still a pig" ... tekur um mínútu að horfa.

Og hvað finnst þér um þessa "smear" takta hjá repúblikönum - að taka eitthvað úr samhengi og blása það upp ...??? Þetta eru repúblikanar í hnotskurn: forðast málefnin, og eru með óhróðursherferðir gegn keppinautunum. Ég bið þig, horfðu á þetta:

http://www.youtube.com/watch?v=nOk2X7lDfqw

Og ef þú hefur þolinmæði, horfðu alla vega á fyrstu mínútuna eða svo í þessu vídeói:

http://www.youtube.com/watch?v=3p8b5woFEvQ

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 22:45

3 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Takk kærlega fyrir gott komment Vilhjálmur og góða viðbót.

Doddi: Einhliða? Hvað er rangt í þessum skrifum? Annars er eðlilegt að allir hafi sínar skoðanir. Ég hef ekki orðið var við að þú hafir skrifað annað en mjög vilhallan boðskap fyrir Obama. En það er auðvitað vonlaust að vera alveg skoðanalaus í þessum skrifum. Það er þó alveg ljóst að demókratar hafa misst forystuna í þessum slag og eru í vörn. Ertu kannski að segja að fréttaskrif Politico og Financial Times séu einhliða líka? Er þetta ekki bara staðan eins og hún er núna?

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 12.9.2008 kl. 22:48

4 identicon

Ég veit að þú ert meiri reppi og ég er meiri demmi ... (mér finnst svo gaman að sletta ... ) en spurningin sem ég hefði viljað koma fram í síðasta kommenti og það sem þú hefðir vel getað kommentað á: Hvað finnst þér um þessi myndbönd?

Hvað finnst þér um það að repúblikanar sífellt nota hræðslutaktík og skítaáróður og snúa orðum Obama upp á versta veg, en það hafa komið fram myndbönd sem sýna John McCain nota sama frasa, og það er pínlegt að sjá John McCain í The View þættinum segja að hann hafi notað frasann til að tala um health care (en ekki Hillary Clinton) en Obama hafi verið að tala um Palin.

Hvað finnst þér um þetta? Nú skrifaðir þú færslu um að Obama hefði kallað Palin svín ... kallaði þá McCain Clinton svín??? 

Vörn demókratana er ekki meiri en svo að Obama frábiður svona taktík þar sem hann veit að fólkið þolir ekki svona pólitík. Hvað með að tala um málefnin frekar en að blása upp sárasaklaust komment og búa til auglýsingu!! sem segir að Obama hafi verið að "móðga" Palin???

Ég skora á þig að kíkja á færslu hjá mér sem ég skrifaði um þetta (þó svo að orðalagið falli þér ekki að geði kannski hjá mér) en myndböndin ... horfðu á þau og segðu mér svo hvort færslan þín um að Obama hafi kallað Palin svín eigi jafnmikinn rétt á sér ... 

Hafðu það annars gott - áfram Liverpool!

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 00:45

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Áhugaverð grein hjá þér, Stefán. Og merkilegt sem þú segir hér: "Svo er greinilegt að flestir telja valið á Joe Biden sem varaforsetaefni mikil mistök. Meira að segja Biden sjálfur hefur viðurkennt það," – sem ég hafði ekki heyrt.

Þorsteinn, Doddi, "einleita umfjöllunin" á fréttinni um varalitaða svínið var í þeirri vængstýfðu frétt sem heyra mátti í Stöð 2 að kveldi 11. og lesa í Fréttablaðinu, þar sem einungis var minnzt á ummæli Obama og McCains (löngu áður), en alveg sleppt að minnast á hin nýlegu orð Söru Palin um "varalit" í öðru samhengi á flokksþinginu. Orð Obama leyfi ég mér ekki að túlka sem sem viljandi niðrun um Söru Palin þar út í frá, en a.m.k. lýstu þau ekki hyggindum eða pólitísku næmi af hans hálfu.

Jón Valur Jensson, 13.9.2008 kl. 01:53

6 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Doddi: Ég held að báðir aðilar séu komnir á fullt í áróður og þá taktík sem þú ert að lýsa. Held að enginn sé saklaus um það. Við sáum þetta vel 2000 og 2004, báðar kosningabarátturnar voru mjög persónulegar í pólitískum árásum. Mér fannst Obama ekki komast vel frá þessu, einkum eftir líkingu Söru Palin með varalitinn örfáum dögum áður. Hann hefði getað notað aðra líkingu og komið betur út. Held að hann hafi misst þetta út úr sér í hita leiksins. McCain hafði notað sömu líkingu áður. Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Hillary, svo að ég ver svo sannarlega ekki notkun þessa í sömu andrá og nafn hennar bar á góma.

Jón Valur: Biden sagði þetta á framboðsfundi í vikunni. Sagði að Hillary hefði örugglega verið betri valkostur en hann sjálfur. Er ekki hissa á því. Biden er gjörsamlega horfinn í þessum forsetaslag. Aðeins sex til tíu fréttamenn fylgja honum eftir og hann er mjög einmana. Hann er alveg sóló í baráttunni og hefur lítið komið fram með Obama.

Hér eru þessi margfrægu ummæli Bidens. Bendi líka á góða grein á fréttavef CNN um stöðu Bidens í skugga baráttunnar. Greinin heitir einfaldlega: "Biden goes from hot to not since Palin came along". Heldur betur orð að sönnu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 13.9.2008 kl. 03:49

7 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þetta er góð umfjöllun hjá þér Stefán og skemmtileg. Hvað varðar þessi ósmekklegu ummæli sem Barack Hussein hreytti úr sér varðandi varalituð svín, þá veit ég að fjölmargar konur í Bandaríkjunum taka þau sem persónulega árás. Þessi ummæli sýndu ekki bara hug Baracks til Söruh Palin, heldur til kvenna almennt. Islamskt uppeldi þessa sonar myrkrahöfðingjans (al-Ilah) hefur víðar komið fram, en nú ættu menn ekki að láta blekkjast lengur.

Loftur Altice Þorsteinsson, 13.9.2008 kl. 12:00

8 identicon

Getur einhver sagt mér af hvaða plánetu sem hann Loftur Alice kemur frá?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 12:51

9 identicon

@Loftur Altice : Þú ert greinilega nógu fávís til að hafa misskilið gjörsamlega meininguna þegar Obama notaði þetta orðatiltæki til að lýsa yfirlýsingum republikana um "breytingar" og lepur upp lygarnar í auglýsingunum um að þessi ummæli hafi verið til að lýsa Palin. Það findna er að McCain beindi nákvæmlega sama orðatiltæki að Hillary fyrir nokkru síðan en var þá að tala um heilbrigðismálastefnu hennar.

En talandi um lygar og útúrsnúninga McCain... http://www.thecarpetbaggerreport.com/flipflops

V (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 17:55

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Málefnafátækt stuðningsmanna þessa Barack Hussein er átakanleg, en líklega eðlileg miðað við átrúnaðargoðið. Hann hefur verið nefndur tóm konfekt-askja og Hillary Clinton hefur sagt að hann flytji stöðugt sömu ræðu, sem einhver gaukaði að honum árið 2004.

Er ekki dálítið langsótt fyrir aðdáendur þessa lukkuriddara, að taka það til sín persónulega, að Barack Hussein skuli móðga kvennmenn í Bandaríkjunum ? Reynið að taka því karlmannlega að Barack mun lúta í gras fyrir John McCain. Miðað við málstað ykkar er samt fullkomlega skiljanlegt, að þið leynið ykkur bak við dulnefni.

Loftur Altice Þorsteinsson, 14.9.2008 kl. 20:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband