Sundrung frjálslyndra - dauðvona flokkur

Kristinn H. GunnarssonEkki verður annað séð en Frjálslyndi flokkurinn sé dauðvona. Hann er að klofna upp og ganga frá sjálfum sér á þeim tímum þegar sóknarfæri stjórnarandstöðuflokka ætti að vera sem mest. Miðstjórn flokksins er farin að sækja sér ægivald yfir Guðjóni Arnari Kristjánssyni, formanni flokksins, og skipa honum fyrir verkum með eftirlaunafrumvarpið og senda út skilaboð um hvernig gera eigi hlutina. Hvergi annarsstaðar tíðkast að miðstjórnin drottni yfir formanni og tali niður til hans.

Og svo er greinilega verið að veita Kristni H. Gunnarssyni náðarhöggið sem þingflokksformanni. Dagar hans í því hlutverki eru greinilega taldir og fylkingin að baki Jóni Magnússyni farin að sækja sér ægivald í flokknum. Ef marka má skilaboðin frá miðstjórninni er þess ekki langt að bíða að hópurinn sem styður Jón og sennilega Magnús Þór Hafsteinsson sæki sér full yfirráð yfir flokknum. Farið er að tala um Guðjón Arnar sem fortíð í pólitík, bæði af þeim sem hafa varið hann eða stutt.

Ég held að þessi flokkur muni deyja pólitískt þegar Guðjón Arnar lætur af formennsku. Honum var það að þakka að flokkurinn náði flugi. Með persónufylgi sínu fyrir vestan náði Guðjón Arnar kjöri með glæsibrag í alþingiskosningunum 1999 og tók Sverri Hermannsson með sér inn. Án þessa kjarnafylgis í gamla Vestfjarðakjördæmi hefði Frjálslyndi flokkurinn aldrei náð flugi. Þegar Guðjón Arnar fer út úr pólitík fer undirstaða flokksins með honum.

Þetta er þegar að verða eins og fjölskylda sem berst um ættargóssið, fjölskyldusilfrið og fallegu málverkin á veggjum forfeðranna. Þegar átökunum lýkur verður allt sem innanhúss er orðið verðlaust og gott betur en það. Magnús Þór er pólitískt landlaus, situr ekki á þingi og hefur veikst gríðarlega í sessi sem varaformaður.

Erfitt er um það að spá hver nær yfirráðum í þessum glundroða en ljóst er að Kristinn H. er búinn að mála sig út í horn með því að bakka ekki upp innflytjendastefnuna. Fróðlegt verður það ef Kristinn H. endar í Samfylkingunni eftir áratug á flokkaflakki, eftir að Alþýðubandalagið geispaði golunni og rann inn í Samfylkinguna.

Þá fór Kristinn H. í Framsókn til að standa vörð um stöðu sína en fór þaðan við illan leik eftir að hafa misst stuðning allra fylkinganna þar - orðinn pólitískt landlaus. Þá bjargaði Guðjón Arnar Kristjánsson honum frá pólitískum endalokum og hann hélt þingsætinu með eftirminnilegum hætti.

Kannski fer hann heim. Ef Kristinn H. yfirgefur flokkinn sem hefur þegar snúið við honum baki er hann kominn í fjórða flokkinn á sautján ára þingferli. Slær þá meira að segja við Hannibal Valdimarssyni.


mbl.is Össur býður Kristin H. velkominn í Samfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Sigurjónsson

Jón Magnússon = Leiðindi.

Þetta byrja þegar Jón kom í flokkinn og hrakti Margréti burt.

Jens Sigurjónsson, 17.9.2008 kl. 18:40

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sumt af því sem þú segir Stefán er því miður rétt. Ekki væri sanngjarnt að hafna árangri Guðjóns Arnars í uppbyggingu Frjálsl. fl. Hinsvegar verður að ætlast til þes af honum að hann sé sýnilegur á félagsfundum flokksins og þó ekki síður að hann hlusti á gagnrýnisraddir flokksmanna, taki þar á málum og treysti innra starf flokkins. Þessar fáu línur mínar segja miklu meiri sögu en þú og aðrir hafa hugmund um. Þess vegna er það grunnfærni ef þér að tala um átök um eitthvert fjölskyldugóss. Ég tala fyrir munn fjölmargra þegar ég segi að hin mikli órói sem nú er orðið vandamál frjálslyndra stafar einfaldlega af því að Guðjón Arnar hefur forðast að ræða þessi mál við okkur og taka á þeim. Og ég þekki engan flokksmann sem hefur látið í ljósi neitt vantraust á pólitískar áherslur Guðjóns Arnars né önnur þau störf sem hann hefur unnið í fullu umboði okkar. Að þessu stóra vandamáli slepptu tel ég mig vita það að öllum þykir vænt um hann og við hörmum það mikla slys sem er fyrirsjáanlegt hjá okkur. Einmitt vegna örfárra en mikilvægra mála sem hann hefur kosið að horfa framhjá.

En sýnilega er mörgum skemmt sem utan við standa. 

Árni Gunnarsson, 17.9.2008 kl. 19:46

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hinn alltof hái þröskuldur hér á landi fyrir lágmarksfylgi til að ná manni á þing, eða sem svarar þremur þingmönnum, hefur verið settur á í Þýskalandi og Tyrklandi til að minnka möguleika öfgaflokka, nýnasista í Þýskalandi og öfgamúslima í Tyrklandi, til að koma mönnum á þing.

Hér á landi kann þetta að virka öfugt ef svo fer að þeir sem ráða ferðinni í Frjálslynda flokknum fara að óttast það að falla út af þingi vegna þessa þröskuldar og keyra af þeim sökum á innflytjendamálin og fara þar út á kant.

Slíkur málflutinginur hefur skilað flokkum erlendis ákveðnu lágmarksfylgi sem oftast er fyrir hendi þar sem hlutfall innflytjenda og erlends vinnuafls er hátt.

Ómar Ragnarsson, 17.9.2008 kl. 20:02

4 Smámynd: Hilmar Dúi Björgvinsson

já maður spyr sig.....hvar endar Kristinn ferilinn?

Hilmar Dúi Björgvinsson, 17.9.2008 kl. 20:21

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það er misskilningur að Jón Magnússon eigi þar hlut að máli, því flestar óánægjuraddirnar hafa verið mun lengur í flokknum en Jón. Það er ekki heiðarlegt að hengja bakara fyrir smið.

Tek undir með Árna. Það þarf að hlusta á grasrótina.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 17.9.2008 kl. 23:00

6 Smámynd: Jens Guð

  Það er alrangt hjá nafna mínum Sigurjónssyni að Jón Magnússon hafi hrakið Margréti úr FF.  Það er mikilvægt að þetta sé á hreinu. 

  Margrét taldi sig eiga að erfa FF eftir að pabbi hennar dró sig í hlé vegna aldurs.  Hún var framkvæmdarstjóri flokksins en taldi sig eiga rétt á varaformannssætinu.  Fyrst var hún reyndar að spá í formannssætið en mat réttilega að framboð gegn sitjandi formanni,  Guðjóni Arnari,  væri of áhættusamt. 

  Hún taldi sig aftur á móti eiga möguleika gegn Magnúsi Þór þar sem hún gæti notað skrifstofu FF sem sína kosningaskrifstofu.  Öðrum þótti það vera ósanngjarnt gagnvart Magnúsi Þór.  Margrét var því leyst frá störfum sem framkvæmdarstjóri til að þau tvö stæðu jafnt að vígi.

  Jón Magnússon kom þar hvergi nærri.  Á landsþinginu tapaði Margrét fyrir Magnúsi Þór.  Munurinn var miklu meiri en svo að Jón Magnússon eða aðrir úr Nýju afli hafi ráðið úrslitum.  Magnús hafði áður staðið af sér mótframboð  með svipaðri útkomu.  Bakland hans er einfaldlega traust.

  Það er ekki rétt að tala um að fylking á bakvið Jón Magnússon sé að sækja sér ægivald í FF.  Miðstjórn FF var einfaldlega að koma skilaboðum frá grasrót flokksins,  hinum almenna flokksmanni,  á framfæri við forystuna núna á mánudagskvöldið.  Það sama gerðu Eyfirðingar með nýlegri áskorun til Sigurjóns Þórðarsonar um að bjóða sig fram til formanns á landsþinginu í janúar.     

Jens Guð, 18.9.2008 kl. 04:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband