27.9.2008 | 00:49
Eftirminnilegar kappræður í Bandaríkjunum
Lokasprettur kosningabaráttunnar vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum þann 4. nóvember nk. hefst formlega eftir miðnættið þegar Barack Obama og John McCain mætast í fyrstu kappræðum sínum í háskólanum í Oxford í Mississippi. Kappræðurnar eru síðasta tækifæri frambjóðendanna að ná til hins óákveðna kjósanda með málflutning sinn og stefnu.
Samkvæmt könnunum eru allt að 15% landsmanna óákveðin í afstöðu sinni enn og kappræður kvöldsins gætu orðið til þess að þeir taki afstöðu, enda rætt um mikilvægasta málið nú um stundir, efnahagsmálin. Kannanir hafa oft sýnt að allt að 20% Bandaríkjamanna taki jafnvel afstöðu eftir því hvernig frambjóðendurnir tjá sig um málefnin í kappræðunum. Deilt er þó um mikilvægi kappræðnanna.
Í þessum fyrstu kappræðum kosningabaráttunnar, þar sem Obama og McCain hittast í fyrsta skipti til að ræða saman í baráttunni um Hvíta húsið standa frambjóðendurnir við ræðupúlt. Spyrill kvöldsins er fréttastjórnandinn Jim Lehrer úr þættinum NewsHour á PBS. Þetta er í tíunda skipti sem Lehrer er spyrill í kappræðum bandarískra forsetaefna. Fyrirkomulagið hefur verið nær hið sama allt frá upphafi árið 1960. Þeir eru spurðir til skiptis í 90 mínútur og flytja tveggja mínútna lokaorð að því loknu.
Í fyrsta skipti er þeim nú heimilt að spyrja hvorn annan í fyrstu kappræðunum og mega skiptast á skoðunum að vild. Í annarri kappræðunni, 7. október, verður um að ræða opinn fund með óákveðnum kjósendum sem spyrja frambjóðendur spurninga. Verða þátttakendur þar valdir af handahófi af Gallup. Er þeim frjálst þar að taka til máls og ræða saman um spurningar. Í seinustu kappræðunni verður um að ræða svipað fyrirkomulag og í þeirri fyrstu.
Í svo jafnri og spennandi baráttu geta kappræðurnar því haft lykiláhrif. Margir stjórnmálaskýrendur telja þó að kappræðurnar séu aðeins einn áfangi á langri vegferð og hafi ekki úrslitaáhrif. Þess eru þó dæmi að frambjóðendur hafi klúðrað kappræðum eða styrkt þar svo mjög stöðu sína að frammistaðan hafi haft lykiláhrif á það sem tók við. Í síðustu tveim kosningum voru Gore og Kerry taldir standa sig betur en töpuðu samt fyrir Bush, svo áhrif kappræðnanna eru mjög umdeilanleg.
Ég vil í nokkrum orðum fara yfir nokkrar eftirminnilegar kappræður frá fyrri tíð.
Fyrstu kappræðurnar í bandarískri sjónvarpssögu fóru fram fyrir nákvæmlega 48 árum, að kvöldi 26. september 1960. Richard M. Nixon, þáverandi varaforseti, og John F. Kennedy, öldungadeildarþingmaður í Massachusetts, tókust þar á. Kennedy kom þar mun betur undirbúinn til leiks; hann var vel farðaður og með mun betri tök á sjónvarpsforminu á meðan Nixon var sveittur, ófarðaður og þreytulegur - vanmat þar mjög mátt sjónvarpsins.
Frammistaða þeirra hafði að flestra mati úrslitaáhrif á hvernig kosningarnar fóru. Kennedy var kjörinn forseti, sigraði naumlega í atkvæðamagni en hlaut góða kosningu í kjörmönnum. Nixon tók tapið mjög nærri sér, líkt og báðir varaforsetarnir sem töpuðu síðar mjög naumt; Hubert Humphrey árið 1968 og Al Gore árið 2000. Hann tapaði tveim árum síðar ríkisstjórakosningu í Kaliforníu og flestir töldu feril hans búinn.
JFK var myrtur í Dallas í nóvember 1963 og varaforsetinn Lyndon Johnson kláraði kjörtímabilið og vann svo stórsigur 1964. Nixon tókst að eiga endurkomu; vann Hvíta húsið naumlega átta árum síðar í baráttu við Humphrey varaforseta Johnson-stjórnarinnar, sem hlaut útnefninguna eftir morðið á Bobby Kennedy og hitaþing demókrata í Chicago þar sem götuóeirðir settu mark sitt á stöðuna í flokknum.
Nixon sagði af sér árið 1974 vegna Watergate-hneykslisins, fyrstur forseta.
Eftirmaður Nixons á forsetastóli, Gerald Ford, hafði þá sögulegu pólitísku stöðu að vera aldrei kjörinn af þjóðinni í forsetakjöri. Hann hafði tekið við varaforsetaembættinu eftir afsögn Spiro Agnew haustið 1973 og tók við forsetaembættinu þegar Nixon féll á Watergate. Hann þótti klaufalegur stjórnmálamaður í meira lagi og Lyndon B. Johnson sagði eitt sinn um Ford að hann gæti ekki tuggið tyggigúmmi og gengið samtímis.
Í kappræðunum við Jimmy Carter, fyrrum ríkisstjóra í Georgíu, gerði Ford þau miklu mistök að sýna veikleika sína og þekkingarleysi í utanríkismálum. Max Frankel, blaðamaður New York Times, bar fram mjög gáfulega spurningu um dómínerandi stöðu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu. Ford svaraði einfeldningslega með því að neita að Sovétríkin hefðu slíka stöðu í austurhluta Evrópu.
Auk þess benti forsetinn á að þetta myndi aldrei geta gerst í sinni forsetatíð. Frankel nýtti sér klaufaskap forsetans og kom með hnyttið komment eftir svarinu. Klaufalegt svarið kostaði Ford að margra mati forsetaembættið.
Ronald Reagan, fyrrum ríkisstjóri í Kaliforníu, var árið 1980 elsti maðurinn sem átti möguleika á forsetaembættinu. Hann nýtti sér veikleika Carters forseta í kosningunum og sneri honum upp úr veikleikunum með hnyttnum tilsvörum í eftirminnilegum kappræðum örfáum dögum fyrir kosningarnar.
Reagan vann stórsigur í kosningunum og batt enda á veiklulega forsetatíð Carters sem átti aldrei roð við hinum sjötuga Hollywood-leikara - hæfileikar hans á leiklistarsviðinu léku lykilhlutverk að margra mati.
Reagan var í essinu sínu í forsetakosningunum 1984 og jarðaði Walter Mondale, varaforseta Carter-tímans í kappræðum að kvöldi 21. október. Aðspurður um hvort aldur hans, en hann var 73 ára, skipti ekki máli í baráttunni og fyrir næstu fjögur ár svaraði hann með bros á vör að hann ætlaði ekki að gera aldur að kosningamáli, þar sem hann ætlaði ekki að nota æsku og reynsluleysi Mondale til að gera lítið úr honum.
Ummælin slógu í gegn og urðu einkennandi fyrir baráttuna um Hvíta húsið það árið. Mondale, sem hafði sér við hlið fyrstu konuna í varaforsetaframboði, Geraldine Ferraro, átti ekki séns í forsetann og beið háðuglegan ósigur og vann aðeins í heimafylkinu Minnesota og DC. Reagan sat á forsetastóli tvö kjörtímabil og var tæplega 78 ára gamall er hann lét af embætti í janúar 1989.
Framan af kosningabaráttunni 1988 þótti Michael Dukakis, ríkisstjóri í Massachusetts, öruggur um sigurinn og hafði sumarið 1988 17% forskot á George H. W. Bush, varaforseta Reagan-stjórnarinnar. Hann missti forskotið úr höndunum eftir klaufalega frammistöðu í ágústmánuði þess árs og glutraði sigurstöðu niður í háðuglegt tap.
Að margra mati tapaði hann kosningunum vegna svarsins við kappræðuspurningu Bernard Shaw á CNN um dauðarefsingar. Spurði Shaw hvort Dukakis styddi dauðarefsingu ef konu hans, Kitty, yrði myrt og nauðgað. Svarið þótti fjarlægt og kuldalegt, eins og lesið upp úr bók, og kostaði hann mörg atkvæði. Bush vann og hlaut meirihluta atkvæða.
Varaforsetakappræðurnar eru jafnan lítt eftirminnilegar. Þær eftirminnilegustu áttu sér þó stað árið 1988. Þar áttust við Dan Quayle, lítt reyndur öldungadeildarþingmaður frá Indiana, og reynslujaxlinn Lloyd Bentsen, öldungadeildarþingmaður frá Texas. Talað var um hvort Quayle væri nógu sjóaður fyrir varaforsetaembættið og hann svaraði m.a. svo að hann hefði álíka reynslu og John F. Kennedy er hann var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1960.
Bentsen leit brosandi á Quayle er hann svaraði spurningunni. Í kjölfarið sagði hann ískaldur við Quayle að hann hefði þekkt Jack Kennedy, hefði verið vinur hans og pólitískur félagi. Quayle væri sko enginn Jack Kennedy. Ummælin urðu fleyg og fylgdu Quayle eftir. Quayle varð varaforseti en þótti pólitískur klaufi par excellance og stafaði meira að segja orðið potato vitlaust í skólaheimsókn og er helst minnst fyrir ummæli Bentsens og kartöflukunnáttuna.
Efnahagsmálin urðu lykilmál kosningabaráttunnar 1992. Bill Clinton, ríkisstjóri í Arkansas, sótti þar fram sem ferskur vindblær gegn Bush forseta og gerði veika stöðu efnahagsmála að lykilmáli sínu og varð sameiningartákn andstöðunnar gegn forsetanum og gremjunni með stöðu mála. Í svari við spurningu þeldökkrar konu í kappræðum um hvernig efnahagsstaðan hefði áhrif á hann persónulega sýndi Bush hvað hann var fjarlægur.
Forsetinn náði ekki að svara einfaldri spurningu einlægt og ákveðið. Clinton greip tækifærið; talaði beint til konunnar og fjölda annarra Bandaríkjamanna sem fundu fyrir því sama; höfðu misst vinnuna og lífsviðurværi sitt. Bush sat hjá orðlaus og vandræðalegur. Í baráttunni var líka rifjað upp að Bush hafði svikið helsta kosningaloforð sitt 1988; Read my lips, no new taxes, og demókratar gerðu meira að segja rapplag með þeim orðum hans.
Í fyrrnefndum kappræðum við Clinton og Ross Perot leit gamli Bush á klukku sína. Myndir af honum að líta á klukkuna voru birtar út um allt strax eftir að kappræðunum lauk. Litu myndirnar út eins og forsetinn nennti þessu ekki og gæti ekki beðið eftir að komast burt. Andstæðingarnir voru fljótir að notfæra sér þetta og sögðu að tími hans væri liðinn. Lánleysi gamla Bush í þessum kosningum var algjört og allan tímann ljóst að Clinton myndi rúlla honum upp.
Eins og fyrr segir höfðu kappræðurnar 2000 og 2004 lítil sem engin áhrif á úrslitin. Fyrstu kappræðurnar 2000 á milli Bush og Gore urðu helst eftirminnilegar fyrir það hversu oft Gore stundi ergjulega eða ræskti sig eftir svörin hjá Bush og einn tók það allt saman í langa klippu af stunum varaforsetans. Árið 2004 var helst rifist um hvort Bush hefði verið með tengingu í eyra við einhvern, enda vakti undarleg bunga á baki forsetans nokkra athygli, án þess að traust niðurstaða fengist í málið. Bush auðvitað neitaði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Facebook
Athugasemdir
Góð f grein og merkileg!!!!/mín skoðun er að þetta hafi verið jafnt á komið með þeim/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 28.9.2008 kl. 00:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.