Samstaða á örlagastundu

Mjög mikilvægt er fyrir Sjálfstæðisflokkinn að trúnaðarmenn innan hans hafi komið saman í dag og farið yfir erfiðustu viku í sögu þjóðarinnar í lýðveldissögunni. Mikill einhugur er innan flokksins með forystu hans, sem hefur staðið sig vel í erfiðum verkefnum þessa síðustu daga sem markar væntanlega hið nýja Ísland. Þetta eru erfiðir tímar og mikilvægt að samstaða sé á milli flokkanna um aðgerðir. Þetta er ekki tími fyrir pólitískt hnútukast, nú þegar barist er fyrir heill og hag þjóðarinnar allrar.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur staðið sig vel í kastljósi fjölmiðla, innlendra sem erlendra hér í þessari viku. Ræða hans í Valhöll í morgun var mjög góð samantekt á stöðu þjóðarinnar og mikilvægustu áherslum í ljósi hennar. Nú reynir á Sjálfstæðisflokkinn á krossgötum þjóðarinnar þegar útrásinni og góðærinu er lokið með svo skelfilegum hætti. Sem stærsti flokkur landsins leitar fólk til hans um forystu á þessum vandasömu tímum rétt eins og áður þegar allt lék í lyndi.

Á þeim árum þegar ég var virkur í innra starfi Sjálfstæðisflokksins sá ég vel hversu mikilvægur Kjartan Gunnarsson var Sjálfstæðisflokknum. Hann stýrði skrifstofu flokksins mjög vel og hélt utan um mikilvægustu þræðina í formannstíð fjögurra forystumanna flokksins í vel á þriðja áratug. Kjartan er mikils metinn innan flokksins og orð hans skipta miklu máli fyrir okkur öll. Hann hefur orðið fyrir þungu áfalli persónulega vegna falls Landsbankans og ekkert óeðlilegt að hann tali um stöðuna.

Ég sé að gefið er í skyn að Kjartan Gunnarsson hafi ráðist að einhverjum í ræðu sinni og gefið er í skyn vinslit hans við Davíð Oddsson. Því hefur hann neitað opinberlega eftir dramatískan fréttaflutning. Sterk staða Kjartans varð ljós á þessum fundi, rétt eins og síðasta landsfundi þegar hann hlaut yfirburðarkosningu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Tár felld á flokksráðsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er undarlegt að stjórnarmaður í LÍ sem verður lögsóttur á fullu ásamt stjórnendum og stjórn á næstu árum af hluthöfum og erlendum viðskiptavinum t.d. góðgerðarstofnunum í Bretlandi skuli ekki gera sér grein fyrir ábyrgð sinni sem stjórnarmaður í fjármálastofnun sem hefur farið ógætilega og skapað óreiðu í samskiftum okkar við önnur lönd, þótt hann hafi sjálfur tapað er ábyrgð hans jafn mikil og annarra stjórnarmanna, þeir munu því miður að öllum líkindum fá fangelsisdóma og skaðabótakröfur sem munu jafnvel gera þá enn fátækari. Kjartan virðist í afneitun ennþá sem er skiljanlegt og sama gildir um kveðjubréf Björgólfs og viðtal við Sigurjón

Einar (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 02:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband