McCain vs. Obama > 5 dagar

Obama-McCain
Harkalegar málefna- og persónuárásir milli John McCain og Barack Obama einkenna kosningabaráttuna í Bandaríkjunum á lokasprettinum. Þegar aðeins 5 dagar eru þar til kjósendur ganga að kjörborðinu er baráttan orðin að óvægnu og harkalegu áróðursstríði sem virðist sífellt verða neikvæðari eftir því sem á líður. Frambjóðendurnir eru á fleygiferð um lykilríki baráttunnar, þar sem úrslitin munu ráðast. Obama hefur pálmann í höndunum á meðan McCain berst í kappi við tímann við að snúa taflinu við.

Allar kannanir gera ráð fyrir því að Barack Obama verði kjörinn forseti Bandaríkjanna. Munurinn hefur þó minnkað mjög síðustu dagana á landsvísu og virðist stefna í spennandi lokasprett baráttunnar. Mesti vandi McCain nú er þó sá að hann er undir í ríkjum sem Bush forseti vann árið 2004 og tryggðu endurkjör hans. Barack Obama nægir að sigra í öllum ríkjum sem John Kerry vann fyrir fjórum árum og bæta Ohio við þann hóp. Fari svo hefur hann hlotið 272 kjörmenn og sigrað í baráttunni.

McCain verður fyrst og fremst að sigra í Ohio og Flórída (ríkjunum sem tryggðu sigur Bush 2000 og 2004) eigi hann að eiga raunhæfa möguleika á að komast í Hvíta húsið. Við það bætast Missouri (enginn repúblikani hefur komist í Hvíta húsið í manna minnum án þess að sigra þar), N-Karólínu (repúblikanar hafa unnið þar síðan Carter varð forseti 1976), Virginíu (repúblikanar hafa unnið frá 1964 er Johnson vann þar í stórsigri á Barry Goldwater á landsvísu) og Indiana (kosið repúblikana frá 1936).

Ekkert annað kemst að í kosningabaráttunni nema efnahagsmálin. Stóri viðsnúningurinn varð þegar hrunið hófst. Utanríkis- og varnarmál, sterkasti málaflokkur McCain hafa ekki komist að (enginn talar núna um Írak eða Afganistan - þetta er kosningabarátta um innanríkismál). McCain hefur þurft að tækla efnahagsmálin, sem eru ekki sterkasti hlekkur hans pólitískt og hefur orðið á mikil mistök í málflutningi. Með Mitt Romney sem varaforsetaefni hefði hann betur getað tæklað þessi mál.

Stærsti vandi McCain er sá að framboðinu hefur gengið illa, síðan efnahagskreppan skall á, að ná til óháðra kjósenda. Valið á Söru Palin styrkti hann innan Repúblikanaflokksins en hefur ekki tryggt stuðning óháðra. McCain ætlaði með valinu sennilega fyrst og fremst að styrkja flokksgrunninn. Honum tókst það en aftur á móti hefur honum ekki tekist að ná til óháðra kjósenda með sama hætti og í forkosningunum. Sá hópur tryggði honum útnefninguna á mikilvægum tímapunkti.

Þegar við bætist að Obama hefur mikið af peningum úr að spila verður slagurinn mjög erfiður. Repúblikanar eiga undir högg að sækja um allt land. Þeir eru við völd í Hvíta húsinu og sú vonda ára fylgir þeim í öllum kosningaslagnum. George W. Bush hefur ekki sést í kosningabaráttunni og kom heldur ekki á flokksþing repúblikana. Hans vald og áhrif er löngu gufað upp. Þegar við bætist vond staða hans í könnunum og efnahagskreppan vill enginn láta sjá sig með honum.

Hálftíma auglýsing Obama í gær var vegleg og flott. Hinsvegar vaknar spurningin um hvort þetta peningaaustur komi niður á framboðinu. Bush var gagnrýndur mjög síðast fyrir að eyða miklu og spandera í allar áttir. Nú hefur taflið snúist við. Obama hefur fulla vasa fjár á meðan McCain hefur úr mun minna að spila og þarf að horfa í hvern eyri. Peningar skipta mjög miklu og svo gæti farið að hálftímaauglýsingin hafi úrslitaáhrif í kosningabaráttunni.


Ferðadagatal dagsins

McCain
verður í allan dag í Ohio; heldur framboðsfundi í Defiance, Sandusky, Elyria og Mentor. Nýjustu kannanir sýna að McCain er undir í Ohio - munurinn á bilinu 4 til 8 prósentustig. Ohio verður mikilvægt fyrir McCain og mun ráða úrslitunum með einum eða öðrum hætti.

Obama hóf daginn á framboðsfundi í Sarasota í Flórída. Al Gore, sem tapaði naumlega í Flórída fyrir átta árum, og Clinton-hjónin munu taka mikinn þátt í baráttunni þar. Obama kom fram á framboðsfundi í gær í Flórída með Clinton forseta - í fyrsta skiptið sem Clinton kom fram opinberlega með Obama á kosningafundi. Clinton-hjónin eiga traustan fylgishóp í Flórída og mikilvægt fyrir hann að virkja þau með sér í baráttuna. Síðar í dag verður hann á framboðsfundi í Virginíu og endar daginn í Columbiu í Missouri.

Varaforsetaefnin Palin og Biden verða á sömu slóðum í dag - bæði verða í Pennsylvaníu og Missouri.

Ferðalög frambjóðendanna segja allt um mikilvægi þessara ríkja - þau verða öll í lykilhlutverki. Missouri hefur löngum verið mjög mikilvægt og Flórída gæti aftur orðið sami örlagavaldur og fyrir átta árum. Sumir horfa til ríkja á borð við Colorado og Nýju Mexíkó. Mikil bjartsýni er þó að telja þau í slagnum. Nær öruggt er að Obama vinni þar. McCain verður því að eiga fullkominn lokasprett til að eiga möguleika.

Og þó; nú er óhætt að segja að Bradley-áhrifin (þegar blökkumaðurinn Tom Bradley, borgarstjóri í LA, tapaði ríkisstjórakosningu í Kaliforníu þvert á allar kannanir) muni ráðast og hvort þau skipti virkilega máli.


mbl.is Palin næsta forsetaefni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband