McCain fer af velli sem sannur heiðursmaður

McCain-hjónin
John McCain flutti mjög einlæga og trausta ræðu þegar hann viðurkenndi ósigur sinn í forsetakosningunum í nótt. Mér fannst honum takast mjög vel upp í að ljúka baráttu sinni með glæsibrag og sem sannur heiðursmaður. Held að þetta sé besta ræða sem ég hef heyrt hjá McCain. Þar komu vel fram helstu kostir hans sem persónu og stjórnmálamanns, þeir kostir sem mér fannst því miður gleymast í baráttunni eftir að hann náði útnefningunni, eins kostulegt og það reyndar hljómar.

McCain tók tapið algjörlega á sig og viðurkenndi sín mistök í kosningabaráttunni. Vissulega voru mistökin mörg og mjög afdrifarík á langri vegferð en ekki verður um það deilt að örlagapunktur kosningabaráttunnar varð auðvitað efnahagslægðin í september. Eftir það voru úrslit kosninganna í raun ráðin, þó hann héldi áfram af miklum krafti og reyndi að storka örlögum flokksmaskínunnar sem var stórlega sködduð eftir átta ára forsetatíð George W. Bush.

Í raun má segja að McCain hafi tapað kosningunum á lokaspretti baráttunnar, þegar framboðið var endanlega afskrifað, en lykiltímasetning endalokanna varð þegar efnahagskreppan skall á. Eftir það var nær vonlaust að vera í framboði sem fulltrúi þeirra sem fara með völd. Tímasetningin hafði allt að segja og vonlaust að snúa því örlagahjóli við á örfáum vikum. Repúblikanar í fyrrum traustum þingsætum féllu og skellur repúblikana er mjög mikill.

McCain tók talsverða áhættu með valinu á Söru Palin. Með því var hann í raun að segja að Palin hefði verið valin til að styrkja innstu kjarna Repúblikanaflokksins og sækja fólk til verka sem hafði orðið fráhverft flokksstarfinu eftir að McCain sigraði Mitt Romney, fulltrúa hinna ráðandi afla innan flokksins í forsetatíð Bush. Sjálfur stólaði hann á að sækja hina óháðu kjósendur sem færðu honum útnefninguna. Efnahagslægðin gerði út af við þessa strategíu.

Repúblikanaflokkurinn gengur í gegnum mikla uppstokkun þegar Bush fer úr Hvíta húsinu og þarf að byggja upp allt innra verk sitt og umgjörð. Kannski þarf hann á því að halda. Demókrataflokkurinn fékk svipaðan skell eftir að Bill Clinton fór úr Hvíta húsinu og náði að byggja mjög vel upp á þeim rústum. Hann þurfti þá líka virkilega að endurnýja sig. Sama tekur við hjá repúblikunum - leitað verður að svipuðum fulltrúa framtíðar og Obama var fyrir demókrata.

En McCain getur farið hnarreistur af velli þrátt fyrir tapið. Þetta var ekki aðeins tap hans heldur flokksins sem stofnunar. Aðstæður voru einfaldlega þannig að repúblikanar gátu ekki gengið að neinu vísu og voru í baráttu sem var fyrirfram töpuð með mann sem einn hefði getað landað sigri. Tapið verður þeim erfitt en þeir rísa á þeim rústum, rétt eins og demókratar gerðu. Tap verður alltaf lexía fyrir flokk í vanda.

mbl.is McCain lofar Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband