Mun Sarah Palin rísa upp á rústum repúblikana?

Sarah Palin
Ein stærsta spurningin í kjölfar forsetakosninganna í Bandaríkjunum er hvort Sarah Palin, ríkisstjóri í Alaska, muni gefa kost á sér sem forsetaefni repúblikana í kosningunum 2012. Hún var nær algjörlega óþekkt þegar John McCain valdi hana sem varaforsetaefni sitt og hlaut eldskírn sína pólitískt í átökunum þá 70 daga sem hún var við hlið hans. Áður en efnahagslægðin skall á voru raunhæfar líkur á að Palin yrði varaforseti en þær vonir gufuðu upp í skugga efnahagskreppunnar þegar McCain hafði í raun tapað forsetakosningunum og náði ekki stuðningi óháðra.

En Palin fékk ókeypis auglýsingu og kynningu í þessum forsetakosningum og er orðin heimsþekkt. Ræða hennar á flokksþinginu í St. Paul stimplaði hana inn sem einn af framtíðarleiðtogum Repúblikanaflokksins hvort heldur er í starfinu á landsvísu eða sem leiðtogaefni í valdakerfinu í Washington. Hún naut þess klárlega að mörgu leyti að vera algjörlega utan við valdakerfið í Washington sem er rúið trausti en tapaði að sumu leyti líka fyrir reynsluleysi sitt í utanríkismálum. Samt hafði hún álíka litla þekkingu á því og Obama og Clinton þegar þeir fóru í forsetaframboð.

Eitt kom áþreifanlega í ljós í kosningabaráttunni. Sarah Palin sameinaði repúblikana til að vinna fyrir flokkinn, hún tryggði þátttöku þeirra sem þoldu ekki John McCain og fundu ekki farveg til þátttöku í kosningabaráttunni eftir að hann sigraði Mitt Romney. En hún varð mjög umdeild og sumir líktu henni við George W. Bush, sem var ríkisstjóri áður en hann fór í forsetaframboð. Hún færði McCain það sem honum vantaði áþreifanlega fyrir flokksþing repúblikana; fólksfjölda á framboðsfundum og áþreifanlega ánægju flokksmanna með að leggja flokknum lið á erfiðu kosningaári.

Örlög kosningaslagsins réðust meðal óháðu kjósendanna sem völdu breytingar í stað reynslunnar. Barack Obama sigraði þrátt fyrir að hafa ekki verið lengi á sviðinu og með litla ferilskrá í utanríkis- og varnarmálum. Hann ávann sér styrk og stuðning innan flokksins með einlægni og baráttugleði. Kannski verður Sarah Palin framtíðarstjarna fyrir repúblikana. Það verður vissulega undir henni sjálfri komið. Hún hefur persónulega styrkleika sem geta nýst repúblikunum nú þegar John McCain er úr myndinni.

Kannski verður ræða Söru Palin í St. Paul álíka sterkt leiðarljós fyrir innsta kjarnann í Repúblikanaflokknum og ræðan hans Barack Obama var fyrir demókrata á flokksþinginu í Boston. Tíminn einn mun leiða í ljós hver framtíð repúblikana verði á þessum þáttaskilum sem fylgja svíðandi tapi og miklu persónulegu áfalli fjölda forystumanna. Margir núllast út í þessu óveðri og helst þeir sem hafa verið of lengi á sviðinu. Kannski þurfa repúblikanar fulltrúa nýrra tíma rétt eins og demókratar.

mbl.is Næstu skref Palin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég bara trúi ekki að Bandaríkjamenn mundu láta það gerast, manneskjan er gjörsamlega út úr heiminum hún er svo glórulaus.

Jón Gunnar Bjarkan, 6.11.2008 kl. 08:01

2 Smámynd: 365

Ef Sahra Palin er sterkasta vopnið í dag sem Rebúblíkanar bjóða fram, þá er eitthvað að í flokknum.  Þessi persóna er algjör hörmung bæði í hugsun og talanda.  Ef henni verður haldið á lofti á næstu fjórum árum þá verður fljótt að reytast af þeim fylgið.

365, 6.11.2008 kl. 10:56

3 Smámynd: Oddur Ólafsson

Nei, hún er ekki framtíðarstjarna.

Þeir gátu ekki telft henni fram.  Hún vissi of lítið.

Hún gat ekki talið upp hvaða lönd voru í NAFTA og hún áttaði sig ekki á muninum á Suður Afríku og Afríku.  Hún hélt að Afríka væri land.  Þar fyrir utan var hún ekki með ýmsar stjórnskipulegar staðreyndir á hreinu.

Það komu líka í ljós hjá henni persónuleikabrestir undir pressu og hún er bara búin að vera í stjórnmálum.

Oddur Ólafsson, 6.11.2008 kl. 11:14

4 Smámynd: Guðmundur Auðunsson

Í alvöru, finnst þér Obama og Palin vera svipaðir karkaterar? Palin er gersamlega óhæf, ekki vegna þess að hún sé kona, vegna þess að hún sé ung eða vegna þess að hún hafi litla reynslu. Hún einfaldlega sýndi það í kosningabaráttunni að hún var alveg úti á þekju. Hafði litla hugmynd um hvað hún var að tala og sýndi takmarkaða tilburði til að geta lært nýja hluti. Um þetta eru hugsandi repúblikanar líka sammála. Obama skaut upp á stjörnuhimininn á óvæntan hátt eins og Palin en í stað þess að springa eins og flugeldur og falla strax aftur til jarðar, þá hélt hann áfram að rísa og sýndi með því hversu mikið er spunnið í hann. Alveg þveröfugt við Obama. Annars vona ég persónulega að repúblikanar séu nógu vitlausir til að tilnefna Palin, hún getur ekki unnið neinar forsetakosningar.

Guðmundur Auðunsson, 6.11.2008 kl. 11:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband