Afsögn Bjarna er áfall fyrir Guðna Ágústsson

Enginn vafi leikur á því að afsögn Bjarna Harðarsonar af Alþingi er mikið pólitískt áfall fyrir Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins. Ekki aðeins var Bjarni einn nánasti pólitíski samherji Guðna í miklum átökum um Evrópumálin innan flokksins heldur líka þingmaður sama kjördæmis og hann. Þessi afsögn styrkir sennilega Bjarna sem persónu en veikir um leið Guðna til lengri tíma litið. Æ augljósara er að Guðni er að verða einangraður innan Framsóknarflokksins í Evrópumálum og stefnir í harkalegt uppgjör þar.

Félagar mínir innan Framsóknarflokksins telja tímaspursmál hvenær Guðni verði formlega undir í Evrópumálunum í helstu flokksstofnunum og telja öruggt að Valgerður Sverrisdóttir muni gefa kost á sér til formennsku, gegn Guðna, þegar á næsta flokksþingi sem áætlað er snemma á næsta ári. Það verður fyrsta flokksþingið með formannskjöri síðan Jón Sigurðsson var kjörinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar í ágúst 2006 og Guðni hlaut endurkjör sem síðar færði honum formennskuna þegar Jón komst ekki inn á þing.

Þar verður tekinn slagurinn um forystuna og ekki síður um Evrópumálin, sem eru að verða örlagaríkt mál fyrir Framsóknarflokkinn. Stjórnarandstöðuvist hefur ekki styrkt stöðu Framsóknarflokksins eða formannsins Guðna. Honum virðist ómögulegt að komast yfir 10% þröskuldinn, sem hann fór undir í forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Halldórsarmurinn missti völdin í flokknum þegar Jón var tilneyddur til að fara af sviðinu eftir að mistakast að ná kjöri á þing og halda ráðherrastólnum.

Þessi armur notar hvert tækifæri sem gefst til að ráðast að Guðna og niðurlægja hann. Þessi stefna hefur sést vel á kjördæmisfundum framsóknarmanna þar sem fjögur kjördæmisfélög hafa tekið afgerandi Evrópukúrs og haft að engu tilmæli formannsins um að fara varlega. Uppgjör er augljóslega framundan. Afsögn eins traustasta stuðningsmanns formannsins vekur því athygli og vangaveltur um pólitíska stöðu hans.

mbl.is Guðni: Bjarni axlar ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Evrópusambandið er bara skjól sem spillingaröflin í Framsókn nota til að komast aftur yfir flokkinn sem þau einu sinni gátu svo auðveldlega notað til að skamta sér milljarða úr 'eignasafni' ríkisins. Að halda að einhver muni kjósa Valgerði og félaga til valda er fáránlegt. Það stefnir nú allt í kosningar þar sem hægriflokkarnir verða með undir 40% samanlagt fylgi.

Héðinn Björnsson, 11.11.2008 kl. 16:55

2 Smámynd: Bumba

Ja detti nú fótur. Með beztu kveðju.

Bumba, 12.11.2008 kl. 00:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband