Örlagavindar á Skaganum - pólitísk uppstokkun

Ályktun stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Akranesi er vissulega stórmerkilegt innlegg í umræðuna - ekki aðeins vegna þess að þar er sleginn nýr tónn í málflutningi í flokksstarfinu heldur þegar litið er til þess hvaðan hún kemur. Þetta er pólitískt bakland úr heimabæ Ingu Jónu Þórðardóttur, eiginkonu formanns Sjálfstæðisflokksins, og systur hennar Herdísar Þórðardóttur, alþingismanns, sem tók sæti á þingi þegar Einar Oddur varð bráðkvaddur langt um aldur fram. Þaðan kemur líka Ragnheiður Ríkharðsdóttir, alþingismaður, sem hefur tekið af skarið heldur betur.

Þarna er mörkuð stefna sem hlýtur að endurspegla einhvern vilja úr fjölskyldu eiginkonu forsætisráðherrans. Mér finnst annað óhugsandi en þetta sé liður í einhverri atburðarás bakvið tjöldin. Allavega, mun þetta vekja spurningar um hvort nánustu stuðningsmenn forsætisráðherrans séu að fara á Evrópulínuna og skipta um áherslur í aðdraganda einhverrar ákvörðunar. Ég bíð spenntur eftir því hvort forysta Sjálfstæðisflokksins sé tilbúin til að taka u-beygju án landsfundar.

Þetta er öflug ályktun, engin tæpitunga töluð á Skaganum frekar en venjulega og þarna kemur fram afgerandi skoðun á því hvað eigi að gera. Ég tel allt í lagi að fólk í flokksstarfinu hafi skoðanir og tjái þær hreint út. Alla tíð meðan ég var virkur í forystu flokksfélaga hér á Akureyri og í ungliðastarfinu á landsvísu tjáðum við okkur hreint út, ekki alltaf í takt við flokksforystuna og ráðherra flokksins. Þegar ég var formaður Varðar vorum við með líflegar ályktanir.

Ég hef alla tíð verið á þeirri skoðun að áherslur í flokksstarfinu séu fyrst og fremst mótaðar á landsfundi. Þar er vettvangurinn fyrir heiðarlega og trausta umræðu um málefni. Þar er unnið í öllum málaflokkum sem skipta máli. Eigi að ræða Evrópumálin og kanna stöðuna með tilliti til þess að móta afstöðu til Evrópusambandsins þarf að ræða það á landsfundi.

Ég sem sjálfstæðismaður sætti mig ekki við að afstöðu flokksheildarinnar til Evrópusambandins sé breytt eða hún stokkuð upp án þess að fram fari umræða á landsfundi og kosning um stefnuna. Þetta er lykilatriði í mínum huga. Ólíkt sumum öðrum flokkum sætti ég mig ekki við að svo mikilvæg ákvörðun sé tekin á lokuðum kontór úti í bæ, án flokksumræðu.

Ég hef sagt það hér áður að ég vil flýta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þetta eru örlagatímar í sögu þjóðarinnar og það þarf að koma saman og fara yfir lykilmálin. Þar verður afstaðan til málanna sem mestu skipta mótuð og forystan fær sitt kjör. Mér finnst eðlilegt að fara yfir allt í því samhengi og mjög eðlilegt er að forystan láti reyna á styrk sinn.

Hvað varðar afstöðu flokksfélaga minna á Akranesi til forystu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins er ég hiklaust þeirrar skoðunar að eigi einn að fara eigi allt settið að fara og öllu mokað út í allsherjar uppstokkun og yfirferð. Þetta er miklu stærra mál en svo að einn maður eigi þar að bera ábyrgð.

Reyndar lýsi ég eftir valdamesta manni landsins, Jóni Sigurðssyni, formanni Fjármálaeftirlitsins og varaformanns bankaráðs Seðlabankans. Af hverju lætur þessi maður ekki ná í sig og af hverju er ekki þjóðarkrafa að hann svari fyrir sofandagang Fjármálaeftirlitsins. Sá hefur sloppið billega.

Staða samfélagsins er þannig að ekkert er lengur sjálfsagt - allt á að vera rætt hreint út og án hiks. Við getum ekki lokað augunum og stungið höfðinu ofan í sandinn. Þess vegna eiga allir flokkar að halda landsfundi sem fyrst og stokka upp sín mál.

mbl.is Stjórnendur Seðlabankans víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það á ekki að hengja einn mann, ég er sammála þér í því. Það væri fáránlegt. Þeir sem bera á því ábyrgð hvernig fyrir okkur er komið eiga að axla sína ábyrgð.

Ég held því miður að það náist engin sátt um það í Sjálfstæðisflokknum að ganga í ESB og taka upp evru. Fyrir allt of mörgum er þetta orðið eins og trúaratriði. Eða eins og DO sagði einhveratíma: "Fyrr skal ég dauður liggja en við göngum í ESB".

Fyrir menn eins og mig sem ekki vill kjósa Samfylkinguna þá verður að bjóða upp á nýjan valkost sem er nýr hægrisinnaðan borgaraflokkur sem vill ganga í ESB og taka upp evru.  Ég vil vera með í að stofna slíkan flokk.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 14.11.2008 kl. 01:21

2 identicon

Ég er ekki alveg viss að ég viti afstöðu þína til þessarar álýktunar, Stebbi. Með, móti eða bara þarftu tíma til að hugsa fram yfir landsfund?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 14.11.2008 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband