Hélt forsetinn Hillary í gíslingu á Bessastöðum?

Hillary Rodham Clinton
Eitt af því merkilegasta í bókinni um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, er frásögnin af fundi Hillary Rodham Clinton, verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og þáverandi forsetafrúar, með Ólafi í október 1999 þegar hún kom hingað til landsins á kvennaráðstefnuna Konur og lýðræði í Reykjavík. Þar er gefið í skyn að Ólafur Ragnar hafi haldið Hillary á Bessastöðum mun lengur en skipulögð dagskrá gerði ráð fyrir til að skaprauna Davíð Oddssyni.

Ég fékk í dag tölvupóst, eins og eflaust fleiri, þar sem gefið er í skyn að Ólafur Ragnar hafi skipulega reynt að koma í veg fyrir að Hillary kæmist í kvöldverðarboð forsætisráðherra til heiðurs henni í Perlunni á réttum tíma og hún orðið mjög reið vegna málsins, enda hafði hún ekki tíma til að skipta um föt og kom í veisluna í þeim fötum sem hún hafði verið í frá brottför í Washington.

Merkileg lýsing sem vert er að halda til haga.

"Hillary Clinton, forsetafrú Bandaríkjanna, kom hingað til lands í heimsókn í október 1999 til að taka þátt í ráðstefnunni um konur og lýðræði við árþúsundamót. Davíð Oddsson forsætisráðherra bauð til mikillar veislu í Perlunni, forsetafrúnni til heiðurs. Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands var hins vegar ekki boðið í veisluna og hefndi hann sín rækilega vegna þess – strax við komu Hillary Clinton til landsins.
 
Flugvél forsetafrúarinnar lenti seinnipart dags á Keflavíkurflugvelli. Dagskráin var þannig að Hillary ætlaði að koma við á Bessastöðum í tæpan hálftíma, fara þaðan á hótelið til að hafa fataskipti og mæta svo í veislu Davíðs.
 
Allt gekk eins og í sögu á Bessastöðum, en þegar fór að styttast í heimsóknartímanum, þá bauð Ólafur Ragnar Hillary inn á skrifstofu sína, lokaði og tók hana á eintal. Hálftíminn leið og klukkan gekk áfram, en ekkert bólaði á forsetanum eða bandarísku forsetafrúnni. Þegar kortér var liðið til viðbótar bankaði einhver starfsmaðurinn á dyrnar og opnaði, til að minna á að komið væri yfir tímann. Ólafur Ragnar bandaði honum hins vegar út og hélt áfram að tala yfir Hillary.
 
Eftir annað kortér var aftur bankað, enda nú kominn hálftími yfir áætlaðan heimsóknartíma. Aftur bandaði Ólafur Ragnar starfsmanninum í burtu og út um gættina heyrðist hann segja, áður en hurðinni var lokað: “And now, let me tell you this.”
 
Fylgdarlið forsetafrúarinnar var við það að springa af bræði, en áfram var lokað inn á skrifstofu Ólafs Ragnars. Enn og aftur var bankað, og enn og aftur vísaði forsetinn viðkomandi út og aftur heyrðist hann taka til máls og segja: ”And then, let me tell you this.”
 
Það var svo ekki fyrr en komið var klukkutíma framyfir tímann sem dyrnar loks opnuðust á skrifstofu forsetans og hann fylgdi frú Clinton til dyra. Það mátti sjá rjúka úr henni af reiði, en hún beit saman tönnum og passaði að vera diplómatísk.
 
Svo var keyrt af stað í loftköstum, því forsetafrúin var orðin of sein í heiðurskvöldverð forsætisráðherra í Perlunni vegna þessarar tafar. En hún komst auðvitað ekki á hótelið til að skipta um föt, en það var á upprunalegu dagskránni. Fyrir vikið sat hún eins og illa gerður hlutur í veislunni í krumpaðri ferðadragt sem hún hafði farið í við brottförina frá Washington. Hinar konurnar voru hins vegar uppstrílaðar í sínum fínustu kjólum, þannig að næsta víst er að heiðursgesturinn var ekki beint að fíla sig í veislunni miklu."

Var einhver að tala um sandkassaleik á Bessastöðum?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þessi frásögn móðgandi fyrir Hilary Clinton. Hún er ákveðin manneskja og hún hefði aldrei leikið eitthvert fórnarlamb né heldur verið í einhverju þóknarahlutverki gagnvart Ólafi Grímssyni, hún hefði hreinlega staðið upp á tilsettum tíma og sagt eitthvað á þessa leið; Jæja, Ólafur, nú þarf ég að drífa mig, við tölum betur saman seinna. Hefði hún viljað vera lengur, þá hefði hún haft ástæðu til þess. Hvers vegna ekki bara að spyrja hana sjálfa? Þó Ólafur Ragnar geti drekkt hverjum sem er í orðskrúði, þá er Hilary Clinton lífsreynd og ákveðin manneskja.

Nína S (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:37

2 identicon

Í ljósi alls þess sem hefur gengið á í samfélaginu undanfarið, spyr ég ... who cares?

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 21.11.2008 kl. 22:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband