Háðung stjórnarandstöðunnar - Sleggjan í SF?

Niðurstaða vantraustskosningarinnar á Alþingi í kvöld er mikil háðung fyrir stjórnarandstöðuna. Tillagan þjappaði þingmönnum stjórnarflokkanna saman á meðan stjórnarandstöðunni mistókst að koma fram sem ein sterk heild og varð fyrir því gríðarlega áfalli að einn þingmaður í hennar hópi sneri baki við tillögunni. Ég velti því fyrir mér í kjölfarið hvort vestfirska sleggjan, Kristinn H. Gunnarsson, hafi endanlega gefist upp á Frjálslynda flokknum og sé á leið í Samfylkinguna - styrki þar með enn frekar þingmeirihlutann, sem er tveir þriðju þingmanna.

Hafi stjórnarandstaðan ætlað að höggva skörð í samstöðu stjórnarflokkanna með tillögu sinni og koma fram sem sterk eining fyrir breytingar mistókst það algjörlega. Hvergi í umræðunni komu fulltrúar stjórnarandstöðunnar fram með lausnir eða tillögur í aðrar áttir en stjórnarflokkarnir hafa staðið að. Út í hött er að kjósa við þessar aðstæður, það verður að bíða betri tíma. Ekki er ráðlegt að bæta pólitískri upplausn saman við þá efnahagslegu. 

Eftir atkvæðagreiðsluna er veik stjórnarandstaða mun veikari - hún gat ekki einu sinni komið fram sem sterk heild og einn sterkur hópur. Þar er meira að segja flótti skollinn á frá því verkefni að vera í stjórnarandstöðu. Sú niðurstaða er áfall stjórnarandstöðunnar. Tillaga þeirra snerist að lokum upp í tap þeirra sjálfra.

mbl.is Vantrauststillaga felld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sammála þér Stefán stjórnarandstaðan er mun veikari.

Kristinn H. verður kominn í sf innan fárra daga.

Óðinn Þórisson, 24.11.2008 kl. 20:03

2 Smámynd: Rúnar Haukur Ingimarsson

Ég held að engum hafi innst inni fundist líklegt að stjórnarliðar hefðu kjark til að endurspegla vilja þjóðarinnar og styðja vantraustið. Sé heldur ekki alveg þá hver háðung þeirra er en það er ljóst að núverandi stjórn situr í okkar umboði sem kusu þessa flokka ( ég er einn af þeim ).

En er ekki líka ljóst að meirihluti þjóðarinnar vill þessa stjórn frá og vill kjósa að nýju ? Ef Sollu Samfó finnst ekkert vit í að kjósa núna á aðventu þá er það ekkert mál, við kjósum bara í vor en það þýðir samt ekki að hún þurfi að sitja sem fastast. Þjóðstjórn í bland með sérfræðingum er það eina raunhæfa í stöðunni og líklegt til að koma okkur út úr þessu.

Rúnar Haukur Ingimarsson, 24.11.2008 kl. 20:10

3 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Maður verður nú að segja að eins glöggur maður og þú Stefán Friðrik skulir ekki virða lög landsins meira en þetta ,það er löglegt að bera þessa vantrausttillögu fram samkvæmt stjórnarskrá,og ekkert athugavert við Það,þetta með Kristinn kemur okkur ekkert á óvart/sem sjálfstæðismönnum ber okkur að virða lýðræðið/Kveðja Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 24.11.2008 kl. 23:37

4 identicon

Við vitum það öll að vantrauststillagan var fyrirfram dæmd til að verða felld. Það þarf ekkert að ræða það neitt fjálglega. Stjórnin þjappar sér saman og þingmenn hennar virðast ekki hafa neina sjálfstæða skoðun aðra en flokksins. Þannig eru málin bara. Og ekki orð um það meir. Hitt er annað mál að stjórnin hlustar ekki á fólkið, þjóðina, hunsar eða gerir lítið úr  spurningum þjóðarinnar, eða tala loðið og óljóst og blablabla. Kosningar? Það eina af viti sem kom út úr svörum ráðamanna á fundinum í kvöld var t.d. opið prófkjör. Jú, gott mál. Hvaða úrræði höfum við? Er hægt að hleypa nýju fólki að við stjórnvölinn innan flokkanna? Efast um það. Það er ekki nema von að margir íhugi að yfirgefa þetta land.

Nína S (IP-tala skráð) 25.11.2008 kl. 00:08

5 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Átta menn sig ekki á því að það er aðeins einn maður sem hefur vald til þess að rjúfa þing og boða til kosninga. Sá maður er Geir Haarde.

Þó að Samfylkingin sliti stjórnarsamstarfinu er ekkert sem segir að það yrðu kosningar, vegna þess að Geir Haarde gæti þá bara samið við Framsókn eða VG um að halda þessu áfram út kjörtímabilið, eða þar til skoðanakannanir gæfu honum tilefni til að fara í kosningar.

Ég er satt að segja undrandi á því að fólk skuli ekki átta sig á þessu. Og hverju hefði Samfylkingin þá áorkað?  Jú, að gera Valgerði Sverrisdóttur eða Ástu Möller að félagsmálaráðherra í stað Jóhönnu.

Hmmm .... hugguleg tilhugsun. Ég segi nú svona.

Þetta er ekki eins einfalt mál og menn vilja vera að láta. Og mér fannst Kristinn H. kjarkaður að greiða atkvæði eins og hann gerði.  Hann má eiga það að hann verður ekki sakaður um popúlisma.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 25.11.2008 kl. 00:09

6 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég myndi ekki kalla það gríðarlegt áfall, ekki einu sinni áfall, að Kristinn H. skyldi greiða atkvæði gegn vantrauststillögunni.

Það veit enginn, hvorki utan né innan þings, hvort hann er í stjórnarandstöðu eða stjórn, hvaða flokk sem hann hefur villst í, ég held hann viti það allra síst sjálfur.

Theódór Norðkvist, 25.11.2008 kl. 00:44

7 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Guðjón aumkaði sig yfir þessum frænda sínum sem var flóttamaður og baðst ásjár. Kristinn á eftir að ganga í Sjálfstæðisflokkinn. Ef hann gerir það fer hann að greiða atkvæði eins og Frjálslyndir.

Sigurður Þórðarson, 25.11.2008 kl. 14:22

8 Smámynd: Héðinn Björnsson

Ég veit ekki betur en að það sé forsetinn sem rjúfi þing og ef Samfylkingin hefði samþykkt vantrausttillöguna hefði verið mjög ólíklegt að hann hefði ekki gert það. Samfylkingin er í stjórn með íhaldinu af því að hún vill vera í stjórn með íhaldinu. Samfylkingarfólk verður að fara að horfast í augu við að það er stefna flokks þeirra og væri líka stefna forustunnar eftir kosningar t.d. vegna stjórnarskrárbreytingar. Þetta er staðan og það er ómaklegt að reyna að kenna fólk í öðrum flokkum um.

24. gr. Stjórnarskrár: Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, [áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið], enda komi Alþingi saman eigi síðar en [tíu vikum] eftir, að það var rofið. [Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.]

Héðinn Björnsson, 25.11.2008 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband