Pólitísk endurkoma Davíðs í kortunum

Davíð Oddsson og Geir H. Haarde
Yfirlýsing Davíðs Oddssonar um pólitíska endurkomu er mjög afgerandi. Verði hann neyddur til að axla ábyrgð á vanda sem er í raun á ábyrgð ríkisstjórnarinnar mun hann snúa á ný í stjórnmál. Ég undrast það ekki, enda myndi hann þá taka slaginn og ljúka ferlinum með því að byggja nýja stöðu á öðrum vettvangi. Þetta gerði dr. Gunnar Thoroddsen eftir að hann hafði tapað forsetakosningum árið 1968 og orðið hæstaréttardómari en ákvað að snúa aftur þegar dr. Bjarni Benediktsson lést árið 1970. Hann varð áhrifamaður fram á áttræðisaldur og náði forsætisráðherraembættinu sjötugur að aldri. Ein merkilegasta pólitíska endurkoman í íslenskri sögu.

Davíð segir tvennt með þessari yfirlýsingu; ef hann verður neyddur af ríkisstjórninni til að taka á sig skellinn muni það þýða ósjálfrátt að hann taki slaginn við þetta fólk og freista þess að taka frumkvæðið í baráttunni. Auk þess er hann auðvitað að gefa í skyn að sú barátta verði mjög hörð og hann spari sig hvergi í uppljóstrunum og lykilupplýsingum. Í þessu getur falist fyrirboði um endurkomu í forystu Sjálfstæðisflokksins eða stofnun nýs flokks fari svo að Sjálfstæðisflokkurinn taki upp afgerandi Evrópustefnu á landsfundi í næsta mánuði. Þetta eru því auðvitað mikil tíðindi, en þurfa ekki að koma að óvörum eftir orð sumra síðustu dagana.

Sumir segja að Davíð Oddsson hafi aldrei hætt í pólitísku starfi og verið á sviðinu allan tímann. Hann hefur auðvitað mikla nærveru, er sigursælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar að mjög mörgu leyti, enginn hefur lengur verið forsætisráðherra en Davíð og hann hefur verið í forystusveit í íslensku samfélagi í raun síðan hann varð oddviti borgarstjórnarflokksins árið 1980. Hann hefur alltaf talað í fyrirsögnum og átt auðvelt með að ná sviðsljósinu. En samt fannst mér hann láta eftirmönnum sínum í forystunni fá mjög gott svigrúm til að vinna málin áfram og þvældist lítið fyrir þeim innan flokksins í beinu starfi hans. En Davíð er Davíð. 

Þessi yfirlýsing er fyrirboði um að hann ætli sér ekki að fara þegjandi af sviðinu ef í harðbakkann slær, ætli að berjast alla leið. Svo verður að velta fyrir sér hvað gerist í Sjálfstæðisflokknum á næstu mánuðum. Öllum er ljóst að skilaboð Davíðs eru einföld. Hann muni ekki sætta sig við að taka skellinn fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins í efnahagshruninu.

mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvoru megin hryggjar ert þú Stebbi?

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 09:23

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Vel skrifaður pistill, Stefán. Og ótal spurningar vakna.

Með góðri kveðju, 

Jón Valur Jensson, 4.12.2008 kl. 09:36

3 Smámynd: Dunni

Heyrðu frændi.

Er ekki stóri skellurinn afleiðing af efnahagsstefnu ríkistjórnar Davíðs allt frá Viðeyjarstjórninni? Hverjir hafa verið með puttana í mótun efnhagsstefnunnar, peningamálastefnunnar og einkavæðingu bankanna?

Er það ekki Davíð Oddsson?  Sá hann ekki um afdrifaríkustu mistök lýðveldissögunnar þegar hann fékk alla seðlabanka heimsins upp á móti sér með þjóðnýtingu Glitnis.

Hann átti að taka á sig sökina strax morguninn eftir þau mistök sem rúðu íslesnku ríkistjórnina og Seðlabankann öllu trausti um heim allan og lánalínum var snarlokað og sumum tvílæst.

Davíð þarf að þekkja sinn vitjunartíma.  Tími hans er liðinn í íslenskum stjórnmálum. Hann hefði getað gengið með höfuðið hátt út úr pólitíkinni. En hann valdi sér aðra leið.  Leiddur af hroka og mannfyrirlitningu hverfur hann af sviðinu í fylgd lífvarða sem verja hann fyrir lýðnum sem ekki lengur elskar hann heldur hatar. 

Það er leitt. 

Dunni, 4.12.2008 kl. 10:26

4 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Þetta er ekki rétt: " .... hann láta eftirmönnum sínum í forystunni fá mjög gott svigrúm til að vinna málin áfram og þvældist lítið fyrir þeim innan flokksins í beinu starfi hans."

Að Davíð sé Davíð er staðreynd sem verður dýrkeyptari með degi hverjum.
Þegar menn setja sjálfa sig ofar öllu, alltaf, er eiginleiki sem kallast mikilmennskubrjálæði. Árið 2008 eiga bæði vísindi og reynzla okkar í gegnum mannkynssöguna að vera búin að kenna okkur að forðast að hafa slíka menn í valdastöðum. -Í lýðræðisþjóðfélagi á það ekki að vera vandamál.

Þorsteinn Egilson, 4.12.2008 kl. 12:15

5 Smámynd: Óðinn Þórisson

Sjálfstæðislokkurinn er með í dag um 20% fylgi - þetta er eitthvað sem menn verða að taka mjög alvarlega.
Það eru ýmsir sem telja að Geir geti ekki breytt þessu, kanski minnugir borgarbullið þar sem margir vilja meina að Geir hafi brugðist við allt of seint.
Það er svo aftur annað mál hvort að við eigum einhvern betri til að taka við - ég læt aðra um að stinga þá upp á einhverjum öðrum til að leiða flokkinn.
Hvort Davíð sé á leið í pólitík aftur er eitthvað sem tíminn leiðir bara í ljós en eitt er ljóst að þetta útspil Davíð að segiast koma aftur í pólitík ef honum verði vikið úr bankastjórastólnum þá mun það hafa mjög mikil áhrif á Sjálfstæðisflokkinn.
Ekki skal ég segja en það er alveg klárt mál að Davíð er einn ef ekki áhrifamesi pólitíkus okkar tíma og endurkoma hans verður ef af henni verður verulega spennandi að fylgjast með.
Geir mun aldrei víkja Davíð - það er alveg ljóst.

Óðinn Þórisson, 4.12.2008 kl. 13:04

6 identicon

DO er bara einn hættulegasti, sjálfumglaðasti og hrokafyllsti maðurinn á Íslandi í dag. Hver vill bekenna sig við hann og segjast styðja hann fullkomlega?

Myndir þú gera það, Stebbi?

Doddi - Þorsteinn G. Jónsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:13

7 identicon

Sæll Stefán,

mjög góður pistill hjá þér eins og endranær og gaman verður að sjá hvað gerist á næstu misserum.

Þetta er jú mjög stór yfirlísing hjá Davíð. Skiljanleg að því leytinu til að hann er nú búinn að vera blóraböggul alls sem hefur á mis farið, jafnvel þó svo það eigi sér enga tengingu við pólitíska ferilinn hans eða embætti Seðlabankans.

Niðurlagið hjá þér gæti varla verið betur orðað, ,,Hann muni ekki sætta sig við að taka skellinn fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins í efnahagshruninu."

Páll Arnar Guðmundsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 13:40

8 identicon

Æ ... þetta er bara sorglegt svo ekki sé meira sagt.  Það er ekkert eins dapurlegt og þegar fólk þekkir ekki sinn vitjunartíma.  Davíð var góður á sínum tíma, en hans tími er einfaldlega ekki núna.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband