Friðsöm mótmæli - lærdómur skemmdarverkanna

Ég fagna því að mótmælendur eru með friðsamlega mótmælastöðu á Austurvelli og hafa lært sína lexíu af því sem gerðist síðustu nótt. Með því að breyta baráttuaðferðum og átta sig á að aðrar áherslur og friðsamlegri geta skilað þeim árangri og því að tekið sé mark á skoðunum þeirra hafa þeir sannað að þeir eru að tala af skynsemi en ekki heimsku. Mér fannst dapurlegt að mótmælendur breyttust í árásargjarna vitfirringa sem réðust að lögreglumönnum, sumir hreinlega til þess að valda þeim skaða.

Svo er líka gott að mótmælendur hafi áttað sig á því að áfengi og mótmæli eiga enga samleið. Ég hef heyrt margar sögur af því hvernig síðasta nótt var og fannst nóg um. Skrílslætin fóru yfir strikið síðustu nótt og ekki hægt að líta öðruvísi á en reynt hafi verið að drepa suma lögreglumenn með því að kasta í þá þungum steinhnullungum. Slíkt grjótkast er ekkert gamanmál, heldur hreinlega manndrápstilraun. Þeir mótmælendur sem snerust til varnar lögreglunni eiga hrós skilið fyrir sitt verk.

En allir hafa rétt á sínum skoðunum - setja verður þó mörk á milli skoðana og ofbeldis.

mbl.is Mótmælt í góðri sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Jónsson

Stefán, þið sem hafið ekki verið á staðnum þurfið að fara að taka orð okkar hinna trúanleg. Það eru ekki mótmælendurnir sem hafa verið á bakvið þetta ofbeldi, heldur að mestu góðkunningjar lögreglunnar og svo nokkrir unglingar.

Lögreglan hefur meira að segja gengist við því og viðurkennt að það sæki í þá aðilar sem þeir kannast við og vilja nýta þetta tækifæri til þess að fá útrás fyrir reiði sína gagnvart þeim, líklega vegna þess að nú er tekið vægar á þeim í hópnum heldur en annars væri gert.

Í kvöld sigraði skynsemin og þroskin þann hóp, gjörsigraði hann.

Ég fer afar glaður í bólið núna.

Baldvin Jónsson, 23.1.2009 kl. 01:58

2 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

"Mér fannst dapurlegt að mótmælendur breyttust í árásargjarna vitfirringa sem réðust að lögreglumönnum, sumir hreinlega til þess að valda þeim skaða."

Þú ert greinilega ekki vel að þér sem átti sér stað þarna ? eða er það nokkuð ? Lögreglan er sjálf búin að staðhæfa að þetta voru EKKI MÓTMÆLENDUR heldur góðkunnngjar lögreglunnar í leit að STIMPINGUM OG LÁTUM... Þetta var lið á örvandi efnum og dópistahópar.

Ég veit það vel ... því að stærstur hluti  raunverulega mótmælenda eru friðsamir því ég þekki þessa einstaklinga persónulega og er í þessum hópi sjálfur. 

Brynjar Jóhannsson, 23.1.2009 kl. 01:59

3 identicon

Ég er búnað vera mjög virkur í mótmælunum undanfarna daga og það eru ekki mótmælendur sem grýttu lögreglu og voru með þessar "óeirðir" heldur hálffullir unglingar með töffarastæla sem ætluðu sér eitt og þa var að valda skemmdum og evra með vesen.

Kennum ekki fleiri hundruð friðsamra mótmælenda um fávitaskap 15-20manns.

jóhann friðrik unnsteinsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 02:11

4 Smámynd: Ólafur Eiríksson

Lært sína lexíu?

Hvaða rugl er þetta Stefán, þetta var ekki sama fólkið og stóð í grjótkasti við lögguna eftir miðnætti í gær. (fyrradag) 

Ólafur Eiríksson, 23.1.2009 kl. 02:16

5 Smámynd: Tómas Ingi Adolfsson

Mér finnst þú tala svolítið á þeim nótum að "mótmælendur" séu bara einn og sami hópurinn. Ég held að í kvöld hafi ekki verið neinir einstaklingar sem hafi breytt aðferðum sínum. Hins vegar tók ég ekki eftir ólátaseggjunum í kvöld. Þetta litu eingöngu út fyrir að vera mótmæli hins friðsama hóps mótmælenda sem hefur alltaf haldið sig við friðsamar aðferðir. Ég held líka að engir þori að beita lögreglu ofbeldi af fyrra bragði ef flestir eru merktir borðum sem gefa til kynna að fólk samþykki ekki ofbeldi.

Tómas Ingi Adolfsson, 23.1.2009 kl. 02:35

6 Smámynd: Rúnar Þór Þórarinsson

"Lært sína lexíu?!" Þú ert í meira lagi bjartsýnn ef þú heldur að fólk sé svo miklir hálfvitar að falla fyrir svona rugli. Þetta eru engin geimvísindi.

Þeir samlandar okkar sem stóðu vaktina við mótmæli undanfarna 2 sólarhringa hafa lyft grettistaki og fellt ríkisstjórnina eftir langan aðdraganda Radda Fólksins og annarra þrýstihópa. Svona kórdrengir eins og þú gerið engum gagn. Án þeirra værum við enn í sömu sporum og fyrir viku - Ríkisstjórnin glottandi að reyna að humma þetta fram af sér og beina athygli fólks að einhverju öðru með því að egna það gegn hvert öðru.

Nokkrir einstaklingar fóru yfir strikið  í gærkvöldi, en það voru ekki "glæpamenn og innbrotsþjófar" eins og lögreglan lætur í veðri vaka.Bróðir minn var þar t.d. og hann er 44 ára þriggja barna faðir í fullri vinnu.

Hefðu kórstjórarnir þínir í ríkisstjórninni eitthvað vit í kollinum væru þeir löngu búnir að hlusta á fólkið og stíga niður. Nú er svo komið að þrjóska og blinda þeirra hafa máð út mörkin milli skoðana og ofbeldis. Það er stjórnvöldum að þakka að ofbeldi er skoðun. Þúfan sem velti hlassinu var ofbeldið.

Það er lexían sem þjóðin lærði. Ástæða þess að ekkert ofbeldi er í kvöld er að þjóðin er almennt róleg, vel meinandi og yfirveguð og nú þegar klærnar hafa verið sýndar og hjólin farin að snúast, er sjálfsagt að leyfa fólki að taka saman föggur sínar.

En læri alþingismenn ekki sína lexíu á þessu, þá kemur fólk tvíelft til baka og þá verður ekkert elsku mamma væl í gangi er ég hræddur um.

Reyndu nú að koma þessu inn í hausinn á þér og þínum viljirðu verða að einhverju gagni við að móta hið nýja Ísland sem mun rísa úr þessum öskurústum.

Rúnar Þór Þórarinsson, 23.1.2009 kl. 02:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband