Mjög vænleg staða fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Mér finnst það mjög góð tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á þessum tímapunkti, þegar hann fer í stjórnarandstöðu í fyrsta skipti eftir átján ára stjórnarsetu. Slíkt er styrkleikamerki fyrir flokkinn og gefur til kynna að hann eigi mörg tækifæri í kosningabaráttunni og geti komið sem sigurvegari út úr henni, ef honum ber gæfa til að stokka upp forystusveit sína og þingflokkinn á næstu vikum í prófkjöri og landsfundi í kjölfarið.

Stóru tíðindi könnunarinnar eru þó að fylgið er á fleygiferð og margir taka ekki afstöðu. Mikið verk er framundan fyrir stjórnmálaflokkana að höfða til kjósenda og ljóst að sjaldan ef aldrei hefur lausafylgið verið meira. Því er spennandi kosningabarátta framundan og augljóst að margt á eftir að gerast á næstu 80 dögum.

Veganesti ríkisstjórnarinnar er ekki beysið á fyrstu dögunum. Aðeins helmingur landsmanna styður hana þegar í upphafi áður en reynir á hana og gefur það til kynna að stjórnarskiptin séu landsmönnum ekki mjög að skapi og hún eigi eftir að ganga í gegnum mikinn öldusjó, því varla mun fylgið aukast.

mbl.is Sjálfstæðisflokkur stærstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hippastelpa

Ég myndi nú ekki byrja að fagna ef ég væri þú. 365 miðlarnir hafa nú ekki verið þekktir fyrir vandaðar skoðanakannanir, þær eru yfirleitt ekki þannig að Capacent myndi kvitta uppá þær. Illa hannaðar og leiðandi spurningar og  ófaglega unnið úrtak hafa nú frekar það sem maður býst við úr þeim herbúðum. Það er náttúrulega ekkert mál að fá svona útkomu ef þú hannar könnunina "rétt" og hringir í "rétta" fólkið. Ég hef ekki nokkra trú á að það sé sannleikskorn í þessu. Ég skal éta það ofan í mig ef Capacent kemur með slíkar niðurstöður úr sínum könnunum en fram að því held ég því fram að þetta sé tómt bull og propaganda.

Hippastelpa, 3.2.2009 kl. 22:06

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég er ekki að fagna neinu. Þetta er góð mæling á þessum tímapunkti eftir allt sem gengið hefur á. Gallup sýndi svipaða mælingu í lokaviku mánaðarkönnunar sinnar. Þar var Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 30% fylgi og bætti mjög við sig eftir að ríkisstjórnin féll. Kannanir eru bara viðmiðun og pælingar fyrir stjórnmálaáhugamenn en enginn stóri sannleikur. Eina könnunin sem skiptir máli er sú sem fram fer eftir 80 daga á kjörstað. En Sjálfstæðisflokkurinn á vissulega mikla möguleika, en þá verða flokksmenn að skipta alveg út forystunni og stokka upp þinglistana, það er alveg klárt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.2.2009 kl. 22:10

3 Smámynd: Hippastelpa

Nei þetta er ekki rétt hjá þér. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 24% fylgi, Samfylking með 22% og Vinstri Grænir með 30% fylgi. Þú getur séð þetta inná Capacent.is undir rannsóknir.

Hippastelpa, 3.2.2009 kl. 22:29

4 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Þú ert ekki mikill tölfræðingur Stefán.  15% aðspurðra treystu sér til að nefna stuðning við Sjálfstæðisflokkinn.

Einhvern tíman þótti sjálfstæðismönnum heilmikil vitneskja fólgin í því að telja auð atkvæði sérstaklega vegna mikilla skilaboða á bak við þau.

Sigurður Ingi Jónsson, 3.2.2009 kl. 22:46

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Þetta er alveg rétt hjá mér. Þetta er skiptingin yfir allan heila mánuðinn, en könnuninni er skipt niður í vikuflokka og í síðustu vikunni var Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 30% fylgi. Fylgið rokkaði mjög allan mánuðinn.

Lestu fréttina hér

Þar segir orðrétt: "Fylgi Sjálfstæðisflokksins var nokkuð stöðugt framan af mánuðinum í 22-23% en eftir að tilkynnt var um stjórnarslit tók fylgið kipp í síðustu viku mánaðarins og mæltist fylgið rúm 31% vikuna 26.-29. janúar."

Stefán Friðrik Stefánsson, 3.2.2009 kl. 22:55

6 Smámynd: Hippastelpa

Sjálfstæðisflokkurinn var með 31% vikuna 26.-29. janúar. Það er víst rétt og því þarf ég að ÉTA þetta ofan í mig.

Að mínu mati eru þessi 30% þjóðarinnar með "beaten wife syndrome", .... allt betra en óþekkt ástand sama hversu slæmt núverandi ástand er? Ég einfaldlega trúi því ekki að nokkur maður geti sagt það af sannfæringu að þetta fólk sem hefur verið við stjórnvölinn hafi staðið sig vel og eigi skilið að fá sitt umboð endurnýjað.

Býst svo sem ekki við að þú birtir þetta né svarir. Þessar upplýsingar vekja hreinlega hjá mér óhug. 

Hippastelpa, 3.2.2009 kl. 23:42

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Sigurður Ingi: Ég tala um skiptingu fylgis á þá sem taka afstöðu. Sú mæling skiptir mestu máli. Á kjördegi skipta þeir engu sem sitja heima og vilja ekki taka afstöðu.

En auðvitað eru mjög margir sem taka ekki afstöðu og það eru stærstu tíðindi þessarar könnunar. Lausafylgið hefur sjaldan ef aldrei verið meira en í upphafi þessarar baráttu.

Þetta kemur allt fram í þessum skrifum svo ég skil ekki þessa útúrsnúninga hjá þér.

Stefán Friðrik Stefánsson, 4.2.2009 kl. 00:22

8 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það vakti eitt fyrir mér að rifja upp hvernig Sjálfstæðisflokkurinn heimtaði að auð atkvæði yrðu talin sér við forsetakosningarnar 2004 með það eitt að markmiði að innvígðir og innmúraðir gætu staðfest vanþóknun sína á Ólafi Ragnari. Mér þykir ekki til mikils ætlast að sjálfstæðismenn sitji við sama borð og þeir ætla öðrum.

Sigurður Ingi Jónsson, 4.2.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband