Sturla og Herdís hætta á þingi - uppstokkun í NV

Með ákvörðun Sturlu Böðvarssonar og Herdísar Þórðardóttur um að hætta þingmennsku gefst gott tækifæri fyrir sjálfstæðismenn í Norðvesturkjördæmi að stokka vel upp framboðslista sinn og bjóða upp á nýtt fólk í þingframboði fyrir kjördæmið og yngja upp forystusveitina. Mjög líklegt er að Einar Kristinn Guðfinnsson taki við leiðtogasætinu. Fyrir síðustu kosningar var stillt upp lista sjálfstæðismanna í Norðvestri, eina kjördæminu í þeim kosningum, enda sátt um Sturlu, Einar Kristinn og Einar Odd.

Einar Oddur Kristjánsson lést tveimur mánuðum eftir að hann náði endurkjöri í þingkosningunum í maí 2007 og var mikill sjónarsviptir af honum úr pólitísku starfi. Herdís Þórðardóttir tók við þingsæti hans - hún hefur nú greinilega tekið þá ákvörðun að hún vilji frekar sinna öðrum verkefnum en setu á Alþingi. Hún hefur verið lítið í umræðunni og ekki verið í sviðsljósi fjölmiðlanna, né heldur tekið mikið til máls á þingi.

Sturla Böðvarsson hefur verið einn öflugasti forystumaður Sjálfstæðisflokksins í gamla Vesturlandskjördæmi og síðar Norðvesturkjördæmi síðustu áratugi. Hann varð ungur sveitarstjóri í Stykkishólmi og síðar bæjarstjóri þar í fjöldamörg ár áður en hann tók við leiðtogasæti Friðjóns Þórðarsonar árið 1991.

Sigur hans í eftirminnilegu prófkjöri í hinu nýja Norðvesturkjördæmi árið 2002 var umdeildur og leiddi til þess að skipulagsreglum flokksins var breytt varðandi prófkjör, eins og kunnugt er, en mjög fá atkvæði réðu úrslitum um hvort hann eða Vilhjálmur Egilsson vann prófkjörið og hvor færi þá ella niður í fimmta sætið.

Sturla hefur verið umdeildur í pólitík mjög lengi, en staðið sig vel alla tíð, alveg síðan hann var samgönguráðherra. Sem forseti Alþingis hefur hann verið mjög vinnusamur og komið hlutum í verk. Honum tókst eftir margra ára deilur um breytingar á þingsköpum að koma þeim í gegn og hefur breytt starfi þingsins mjög.

Þetta var honum launað með því að verða bolað af stóli þingforseta með löglegri en ómerkilegri aðferð á þingfundi fyrr í vikunni, ákvörðun sem greinilega hefur verið endanleg ástæða þess að hann víkur af vettvangi stjórnmálanna. Þingmenn sem áður mærðu Sturlu og lofuðu í bak og fyrir sviku hann í kjörinu.

Sturla kveður pólitíkina með tæpitungulausri og mjög öflugri ræðu um aðkomu forseta Íslands að stjórnarskiptum og skilyrðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Ég tek undir kjarnyrtar lýsingar hans á því. Forsetinn fór langt út fyrir sitt verksvið með sínu verklagi, sem var honum til skammar.

mbl.is Sturla og Herdís hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband