Raddir fólksins þagna - mótmælaaldan búin

Þá hafa hinar svokölluðu raddir fólksins þagnað, áður en ríkisstjórnin hefur staðið við margfræg loforð sín um skjaldborg handa heimilum landsins og fyrirtækjunum. Ég held að það sé nær óumdeilt að þessi mótmæli voru alla tíð mjög pólitískt lituð og markaðssett sem málpípa vissra pólitískra aðila. Þögn þeirra núna í aðdraganda kosninganna vekur athygli, enda hefur ríkisstjórnin ekkert gert að ráði sem kallar á þögn fólks nema þá að afhjúpa pólitískan stuðning við sömu aðila.

Aldrei var þessum mótmælum beint að forseta Íslands, sem var manna öflugastur í að verja útrásarvíkingana, né heldur að Samfylkingunni, sem sat í ríkisstjórn þegar hrunið varð. Raddir fólksins þáðu svo kaffiveitingar á Bessastöðum og með ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Eftir þær kaffiveitingar varð þessi samkoma ótrúverðug og botninn fór endanlega úr henni. Síðasta laugardag voru innan við hundrað á svæðinu og heldur enginn Hörður.

Ég held að síðar meir verði þetta metið pólitískt bragð þar sem vissum sjónarmiðum vinstriflokkanna var fyrst og fremst komið á framfæri. Aðstandendur mótmælanna staðfestu það vel með vinnubrögðum sínum og með því að vilja ekki halda áfram baráttu sinni þegar vinstriflokkarnir settust saman í ríkisstjórn og þiggja veitingar hjá þeim embættismanni sem var hin eina og sanna klappstýra útrásarvíkinganna.

mbl.is Hlé á fundum Radda fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikil er fáfræði þín og rörsýn, Stefán Friðrik. Þú talar í klisjum og fullyrðir hluti sem þú veist ekkert um.

Varst þú á Austurvelli í vetur þegar þúsundir mættu á fundina? Sástu fjölbreytilega mannlífsflóruna þar, fólk með alls konar stjórnmálaskoðanir, á öllum aldri, með ólíkan bakgrunn... fólk með réttlætiskennd sem einfaldlega var misboðið.

Mótmælafundirnir hafa aldrei - ég endurtek: ALDREI - snúist um íslenska flokkapólitík, heldur réttlæti og mannréttindi.

Fólk sem aðhyllist "viss trúarbrögð" getur ekki skilið slíkar hugsjónir og slíkan þorsta eftir réttlæti því ranglætið virðist því í blóð borið.

Fundunum hefur verið haldið áfram þrátt fyrir að tæpir tveir mánuðir séu liðnir síðan ný ríkisstjórn tók við, enda engin tengsl milli ríkisstjórnarinnar og Radda fólksins.

Það væri æskilegt, svo ekki sé meira sagt, að sannleikurinn sé hafður í heiðri þegar fjallað er um jafnmikilvæg mál.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.3.2009 kl. 01:00

2 identicon

Þeir mega ekki vera að því. Allir á landsfundi.

Jón Tynes (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 01:37

3 Smámynd: Neddi

Stebbi minn, voru vinstri flokkarnir s.s. að mótmæla sjálfum sér þessar vikur sem liðnar eru síðan að nýja stjórnin tók við?

Neddi, 21.3.2009 kl. 10:01

4 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Lára Hanna: Af hverju var þessum mótmælum aldrei beint að forsetanum? Af hverju þáðu forsvarsmenn þessara mótmæla veitingar hjá valdhöfum sem þeir höfðu verið að mótmæla. Þetta er bara staðreynd. Það þýðir ekkert að reyna að neita þessu. Eftir stóðu ótrúverðug mótmæli, enda var fólk meira og minna hætt að mæta þó fjarri því væri búið að ná öllum markmiðum. Svo er það líka mjög augljóst hver var drifkrafturinn, fyrst og fremst dó þetta þegar vinstristjórnin tók við, enda hættu vinstri grænir þá að mestu að mótmæla. Þetta sást vel hér á Akureyri.

Stefán Friðrik Stefánsson, 21.3.2009 kl. 12:37

5 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Getur ekki veriðað málum hafi verið forgangsraðað eftir mikilvæg? Ef ég man þetta rétt þá voru kröfurnar: ríkisstjórnina burt, stjórn frjámálaeftirlitsins burt, stjórn seðlabankanns burt og kosningar í vor.

Þetta hefur allt gengið eftir þannig og því ástæðulaust að halda áfram - ekki satt?

Þetta var eins í búsáhaldabyltingunni, þá hættu menn að mótmæla þegar ljóst var að stjórnin félli, enda meginkröfunni fullnægt. 

Forsetinn er smámál í samanburði við hin - bara taka á honum í næstu lotu. Veitingar??? þekki ekki það mál en bendi að að það er nú alveg hægt að hafa samskipti milli fylkinga. Minni á Geir Jón og neftóbakið...

Þetta er ekki flóknara en svona

Haraldur Rafn Ingvason, 21.3.2009 kl. 14:26

6 identicon

Sæll Stefán

Þú virðist vera anski upptekinn af forsetanum, ég er alveg sammála þér að auðvitað ætti klappstýra númer 1 að víkja, en held að fólk hafi líka bera ekki nennt að eyða orku í að mótmæla þessari dúkku, kannski ættum við bara að drífa okkur á Bessastaði:/

Kv. Arnar

Arnar (IP-tala skráð) 21.3.2009 kl. 14:26

7 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Forsvarsmenn Radda fólksins pöntuðu viðtöl við ýmsa ráðamenn - ráðherra, saksóknara og forseta Íslands - til að t.d. afhenda áskorun vegna Icesave-reikninganna (forsætisráðherra), fjármálaráðherra til að afhenda honum áskorun um að segja af sér, saksóknara til að krefjast rannsóknar á falli Glitnis og forsetans til að ræða möguleika á utanþingsstjórn. Þetta var eðlilegur hluti af mótmælunum. Mjög einfalt er að kynna sér umfjöllun um þetta á vefsíðu Radda fólksins - raddirfolksins.org.

Hvort þeir hafi þegið vatn og brauð eða kaffi og með því á þessum fundum veit ég ekki og finnst það engu máli skipta frekar en hvaða veitingar t.d. fjölmiðlafólk þiggur á fréttamannafundum ráðherra og/eða annarra stjórnvalda.

Það sem stendur eftir er það sem Haraldur Rafn bendir á - meginkröfurnar náðust í gegn einmitt vegna þess að mótmælin voru trúverðug.

Ég veit ekki af hverju fólk hætti að mæta á fundina. Ég hætti ekki að mæta því mér finnst svo ótalmargt eftir. Kannski er fólk bara þreytt og þarf að safna kröftum rétt eins og gerðist í desember. Þá fækkaði á fundunum en eftir áramótin mætti fólk aftur í þúsundatali og mótmælti sem aldrei fyrr.

Kannski telur fók að í kosningunum í apríl felist von - von um betri langtímastjórn, manneskjulegra samfélag og langtímahvíld Sjálfstæðisfólksins. Hluti mótmælenda hefur stofnað Borgarahreyfinguna og er nú upptekið við að undirbúa framboð.

Allir sem vilja vita að Hörður Torfason tengist engum stjórnmálaflokki og hefur aldrei gert. Sá sannleikur hentar ekki öllum og hann er því vel falinn og aur mokað yfir Hörð og honum gerðar upp skoðanir og tengsl sem aldrei hafa verið fyrir hendi.

Einn ágætur félagi í VG sagði fyrir mörgum vikum að því miður hefði VG aldrei haft möguleika á að safna þvílíkum fjölda saman eins og mætti á Austurvöll. Ég efast ekki um að það sé rétt, enda tengdust mótmælin aldrei neinum stjórnmálaflokkum þótt áhangendur vissra trúarbragða hafi lagt sig í líma viðað telja fólki trú um það.

Hafa skal það sem sannara reynist - alltaf - það er trúverðugra.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.3.2009 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband