Lélegar útskýringar Össurar - hjalað við Breta

Mér finnst það mjög ámælisvert að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hafi ekki notað leiðtogafund NATÓ til að mótmæla ákvörðun Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, um að beita Íslendinga hryðjuverkalögum. Í stað mótmælanna var Össur með eitthvað hjal við Brown og gekk ekki eftir því við Brown að hann útskýrði hvers vegna komið var fram við Íslendinga með þessum hætti. Ég er ekki hissa á því að Brown hafi verið flóttalegur á fundinum í garð íslenskra ráðamanna en Össur hefði átt að standa í lappirnar og fá útskýringar.

Mér finnst vegið að heiðri Íslands á alþjóðavettvangi þegar forystumenn íslenskra stjórnmála þora ekki að taka slaginn við Breta á alþjóðlegri lykilráðstefnu sem þessi í Strassborg var óneitanlega. Við hverju skal búast þegar þeir eru hræddir við þá sem beita okkur slíku ægivaldi sem hryðjuverkalög eru. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, lagði ekki í að fara á þennan fund að tala málstað Íslands og ganga á eftir skýringum þeirra sem réðust að okkur og lögðu orðspor okkar í raun endanlega í rúst.

Nú á að halda áfram að kenna Geir Haarde um að hafa ekki talað við Brown fyrir einhverjum mánuðum. Geir er ekki lengur við völd og tæpir 70 dagar síðan ný ríkisstjórn tók við. Hún hefur ekkert gert í þessum málum nema humma það fram af sér. Eru Samfylkingarráðherrarnir hræddir við flokksbræður sína í Bretlandi eða hvað er málið? Eru þeir kannski hræddir við að svíða ESB-taugina ef þeir mótmæla?


mbl.is Össur: Samningaviðræður í góðum farvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju þorði þinn maður, auminginn hann Geir H., ekki að mótmæla þessu þá 4 mánuði eða svo sem hann hafði?

Þorsteinn H. (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 14:23

2 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Ég gagnrýndi Geir fyrir að halda ekki nógu vel á málum og var alveg heiðarlegur í því. En Geir er löngu farinn frá völdum og málið er í höndum annarra núna. Þeir hafa ekkert gert í þessu.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.4.2009 kl. 16:03

3 identicon

Það stendur samt í fréttinni sem þú vitnar í að það sé nú búið að gera eitthvað í þessu: ,,Össur sagðist hafa átti tvo fundi með utanríkisráðherra Breta í síðustu viku þar sem afstöðu Íslendinga hefði verið komið mjög skýrt á framfæri."

Svo er það líklega álitamál hvað menn eigi að segja og gera á NATO fundi, en það er auðvitað athuganrvert ef þessi fullyrðing þín er rétt, að hann hafi ekkert talað um þessi mál við neinn þar.

Þorsteinn H. (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 17:00

4 Smámynd: Baldur Hermannsson

Geir hefur skýrt opinberlega frá því að hann hafi reynt að ná sambandi við Gordon Brown en fékk bara samtal við Alistair Darling. Spurning hvort hann hefði ekki átt að fara samstundis til Bretlands og ræða við mannskapinn þar.

Það er ekki hægt að áfellast Jóhönnu fyrir að sitja heima og prjóna í stað þess að fara á fundinn því hún kann víst ekki ensku. Össur kann ensku þótt honum sé trúlega jafn fyrirmunað að halda uppi vitsmunalegri samræðu á því máli og á móðurtungunni.

Baldur Hermannsson, 6.4.2009 kl. 17:36

5 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Samtölin við Miliband voru aðallega um Icesave. Eitthvað vinahjal. Það var engin harka í þeim viðræðum og ekki voru sett skilyrði fyrir því að Ísland yrði tekið af hryðjuverkalistanum áður en þeir fundir fóru fram né tekin umræða um það af alvöru. Össur ræddi ekkert beint við Brown fyrir utan eitthvað smávægilegt vinahjal. Össur stóð sig ekki á fundinum því miður. Þessi mál eru enn ókláruð, fjarri því að þau hafi verið tekin til umræðu einu sinni. Þetta er óeðlilegt.

Stefán Friðrik Stefánsson, 6.4.2009 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband