Erfiður vetur framundan hjá Framsókn

Jón Sigurðsson Það er athyglisvert viðtal við Jón Sigurðsson, formann Framsóknarflokksins, í Sunnudagsmogganum. Þar kemur fram að Jón hafði ekki samráð við Halldór Ásgrímsson um Íraksuppgjörið fyrir viku, er Jón hélt með afgerandi hætti frá stefnu Halldórs í Íraksmálinu. Þótti ræðan athyglisverð, enda greinilegt að nýr formaður er að reyna að fjarlægja sig sem mest forveranum og byggja nýjan grunn til verka á kosningavetri. Allt tal og fas hins nýja formanns ber vitni um það. Allar líkur eru á því að það sé mikill lífróður framundan.

Nú hefur Jón setið á formannsstóli í Framsóknarflokknum í rúma þrjá mánuði. Það verður seint sagt að það hafi verið fengsæll tími fyrir flokkinn, sem mælist með innan við tíu prósenta fylgi í könnun Gallups í vikunni. Það eru ekki tölur sem Framsókn á að venjast og mun minna en á sama tímapunkti fyrir kosningarnar 2003. Mér finnst lítið hafa borið á Jóni sem formanni Framsóknarflokksins. Það eru margir sem enn spyrja hvernig stjórnmálamaður hann sé.

Í nýjustu könnun Gallups mælist Framsóknarflokkurinn aðeins með fimm þingsæti - hann er minnstur þingflokkanna á Alþingi skv. því, orðinn minni en Frjálslyndi flokkurinn. Skv. henni eru Siv Friðleifsdóttir, Jónína Bjartmarz og Jón Sigurðsson öll utan þings. Framsóknarflokkurinn mælist því ekki með neinn þingmann á höfuðborgarsvæðinu og þrír ráðherrar í vondri pólitískri stöðu. Flokkurinn er að mælast með tvo þingmenn í Norðvestri og Norðaustri og einn í Suðri. Rýr uppskera það og skiljanlegt að örvænting fari að grípa um sig þarna innan veggja.

Jón hefur verið áhrifamaður í flokkskjarnanum lengi en nær alla tíð til baka í honum. Hann þekkir innviði flokksins giska vel. Það er öllum ljóst að hann mun reyna að stilla saman strengi í flokknum og tryggja að hann komi standandi og vígfimur til kosninganna að vori. Þar er mikil vinna framundan. Framsókn beið afhroð víða í vor, t.d. Akureyri og Kópavogi. Ég hef lengi verið að vasast í stjórnmálum hér og man aldrei eftir Framsókn eins illa á sig kominn hér og nú. Það verður fróðlegt að sjá hversu mikið skipbrot Framsóknar verður hér í Norðaustri.

Ég fjallaði nokkuð ítarlega um flokksstarf Jóns hjá Framsókn og bakgrunn hans þar í ítarlegri bloggfærslu skömmu eftir formannskjör hans. Ég bendi á þau skrif. En spurningar stjórnmálaáhugamanna hljóta nú enn að snúast um það hver Jón Sigurðsson sé í íslenskum stjórnmálum. Mér finnst verulega lítið hafa enn reynt á þennan einn valdamesta stjórnmálamann landsins sem kom eiginlega bakdyramegin inn í forystusveit íslenskra stjórnmála í sumar. Hann kom þar óvænt inn til forystu.

Það verður athyglisvert að kynna sér pólitík hans og forystu í þessari kosningabaráttu sem senn hefst. Það verður eldskírn hans sem stjórnmálamanns. Eins og staðan er núna getur Framsókn vart vænst fleiri en 7-9 þingsæta að vori. Það verður fróðlegt að sjá hvernig samsetning verði á þingflokki Framsóknar að vori. Ég held að þetta séu örlagaríkustu kosningar Framsóknar í áratugi. Grunntilvera flokksins og staða þeirra næstu árin mun þar ráðast að mörgu leyti.

Þetta er 90 ára flokkur með langa og litríka sögu. Það mun verða mjög örlagaríkt fyrir flokkinn ef ungliðar detta af þingi (t.d. vegna innkomu Jóns í borginni) og eftir stendur gamall þingflokkur liðinna tíma úr formannstíð Halldórs Ásgrímssonar. Nú reynir væntanlega á það hvernig að nýr formaður stýrir sínu liði.

mbl.is Hafði ekki samráð við Halldór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég var hér að lesa og kvitta því... það var allt, bæó!

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.12.2006 kl. 01:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband